Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég verð að játa það að mér hnykkti nokkuð við þegar ég frétti af ákvörðun hæstv. utanrrh. um að sitja hjá við tillöguna um Palestínu. En utanrrh. hefur vissulega dálítið til síns máls, þ.e. þessi tillaga er ekki nógu uppbyggjandi, hún er ekki nógu líkleg til að leiða til lausnar. Í henni felst fordæming, réttmæt fordæming á framferði Ísraelsmanna því að framferði Ísraelsmanna við Palestínumenn er virkilega fordæmanlegt. Ég held að það hafi engin ástæða verið til að skjóta þetta þriggja ára gamla barn í fyrradag, ekki heldur að skjóta þennan ellefu ára dreng í bakið í fyrradag. Ísraelsríki stafaði engin hætta af þessum tveimur börnum sem þarna voru skotin. Heródes var að vísu ekki sérstaklega barngóður heldur.
    Það er ekki hægt að réttlæta þetta framferði. En þrátt fyrir réttmæta fordæmingu var Palestínutillagan ekki líkleg til þess að greiða til fullnustu úr vandamálunum fyrir botni Miðjarðarhafs þannig að mér finnst að hæstv. utanrrh. eigi nokkra vörn í málinu.
    Hins vegar og samkvæmt ræðu hans hér áðan sé ég fram á að hann kemst ekki hjá því að styðja þá tillögu sem við flytjum hér þrjú, Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir og ég. Tillögugreinin hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.
    Alþingi fordæmir síendurtekin mannréttindabrot Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum að undanförnu og leggur áherslu á að ísraelsk stjórnvöld virði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum.
    Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila og telur að Ísland eigi að bjóðast til að vera gestgjafi slíkrar ráðstefnu.
    Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt hennar til að stofna eigin ríki í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóv. 1947 um leið og viðurkenndur er tilveruréttur Ísraelsríkis innan öruggra landamæra. Jafnframt ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi felur ríkisstjórninni að framfylgja ofangreindri stefnu og viðurkenna frelsissamtök Palestínu, PLO, sem málsvara palestínsku þjóðarinnar.``
    Þannig hljóðar þessi tillögugrein um Palestínumálið. Þarna er bent á þá leið sem fara ber ef einhver von á að vera til að leysa þessa deilu. Þarna er um hófsamlega og skynsamlega tillögu að ræða þar sem Alþingi gefst tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum til lausnar deilunnar og eftir þá ræðu sem hæstv. utanrrh. flutti hér áðan sé ég að hann hlýtur að

vera í hópi stuðningsmanna þessarar tillögu.
    Afstaða utanrrh. til Palestínutillögunnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var bara fyrsta vers. Annað vers kom því miður í gær þegar utanrrh. greindi frá því að hann hefði ákveðið að víkja frá þeirri skynsamlegu stefnu sem fyrrv. utanrrh. Steingrímur Hermannsson markaði. Sú stefna sem hæstv. fyrrv. utanrrh. og núv. forsrh. Steingrímur Hermannsson markaði í sinni utanríkisráðherratíð til afvopnunar- og friðarmála var og er skynsamleg og okkur ber að framfylgja henni. Íslendingar eiga að koma fram af þjóðlegri reisn á alþjóðavettvangi og við eigum að leggja okkar lóð á vogarskál friðar og afvopnunar þar sem við fáum því við komið.
    Ég átti nokkurn hlut að myndun núv. ríkisstjórnar. M.a. hafði ég forustu í þeim hópi sem samdi utanríkismálakafla málefnasamningsins. Þar tóku þátt með mér ágætir menn eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson og hæstv. samgrh. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri komu að því verki. Ég vil, með leyfi forseta, lesa þann stutta kafla úr málefnasamningnum sem fjallar um utanríkismál:
    ,,Markmið utanríkisstefnu Íslendinga er að treysta sjálfstæði landsins og gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegum samskiptum. Að því verður unnið með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þessum markmiðum verður m.a. náð með aukinni aðstoð og samvinnu við þróunarríki; með stuðningi við baráttu fyrir mannréttindum hvar sem hún er háð; með því að stuðla að friðsamlegri og bættri sambúð þjóða; með virkri þátttöku í umræðum um afvopnunarmál og kjarnorkuvopnalaus svæði í okkar heimshluta; áhersla verður lögð á að auka þekkingu Íslendinga á vígbúnaðarmálum, sérstaklega á hernaðarumsvifum á Norður-Atlantshafi, til þess að leggja óháð mat á öryggismálefni landsins og nálægra svæða; með því að hvetja til og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um umhverfismál, sérstaklega um mengunarvarnir á Norður-Atlantshafi; með því að búa íslenskt atvinnulíf undir þær breytingar sem verða á viðskiptaháttum og efnahagsstjórn í Evrópubandalaginu á næstu árum. Sérstaklega verður unnið að því að laga íslenskt efnahagslíf að hinum nýju aðstæðum og tryggja viðskiptastöðu íslenskrar atvinnustarfsemi án aðildar að bandalaginu.
    Ríkisstjórnin áréttar áður yfirlýsta stefnu Alþingis að hér á landi skulu ekki vera kjarnorkuvopn. Ríkisstjórnin mun ekki gera nýja samninga um meiri háttar hernaðarframkvæmdir og skipti Íslendinga við varnarliðið verða endurskipulögð.``
    Þannig hljóðaði, herra forseti, kaflinn um utanríkismál í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar. Ég og ég hygg flestir stjórnarliðar töldum að með þessari forskrift yrði það tryggt að áfram yrði fylgt þeirri utanríkismálastefnu sem hæstv. fyrrv. utanrrh. Steingrímur Hermannsson markaði. Þess vegna urðu það mér mjög mikil vonbrigði þegar ég í gær eftir hádegi fékk vitneskju um að utanrrh. hefði ákveðið að hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð hefði verið. Forsrh. hafði samband við mig í morgun og tjáði mér

að hann hefði ekki haft hugmynd um þessa afstöðubreytingu fyrr en eftir að hann frétti af fundi utanrmn. í gær. Forseti Ed., hv. þm. Jón Helgason, sem nú situr allsherjarþingið, hringdi í mig rétt áðan og upplýsti að þessi stefnubreyting hefði vakið mikla athygli og undrun þar vestra, ekki bara hjá íslensku sendinefndinni heldur hjá þeim sem höfðu haft veður af henni, en raunverulega, og það var erindi hans, að láta vita af því að öll nótt væri ekki úti. Næstu klukkutímana hefði hæstv. utanrrh. umsvif til þess að senda skeyti eða hringja vestur. Atkvæði er ekki búið að greiða og það verður ekki gert fyrr en eftir einhverja stund þannig að enn er ekki öll nótt úti. Við greiddum í fyrra atkvæði með báðum frystingartillögunum. Það var og er skynsamleg afstaða og eðlileg. Utanrrh. hefur að vísu ákveðið eða gefið fyrirmæli um það, sem standa þangað til annað verður ákveðið eða þangað til hann ákveður annað, að við sætum hjá í þetta skiptið.
    Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að það er ekkert nýjabragð að þessum frystingartillögum og að sumu leyti, ef þær væru frumskrifaðar í dag, mundu þær verða hafðar með öðrum hætti. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. En það er hin siðferðilega kúvending sem felst í því að breyta afstöðunni frá í fyrra og hverfa aftur í kaldastríðspólitík fortíðarinnar sem er mér fullkomið áhyggjuefni. Við erum að færa okkur úr samfélagi þeirra þjóða sem eru okkur skyldastar að tungu og menningu og lífsviðhorfi og veljum okkur annan félagsskap í viðhorfi til þessara mála. Auðvitað eiga ekki Svíar, Norðmenn, Finnar eða Danir að ákveða hvaða stefnu við Íslendingar höfum í utanríkismálum. Það er okkar að taka ákvarðanirnar en ekki þeirra fyrir okkar hönd. En það er okkur engin vansæmd, okkur er fremur heiður að því, að vera í hópi þeirra á alþjóðavettvangi. Norrænt samstarf er Íslendingum mikilvægara en nokkurt annað samstarf sem við tökum þátt í og það þarf gildar þjóðernislegar og þjóðmenningarlegar ástæður til að rjúfa þá samstöðu.
    Hæstv. utanrrh. hefur borið við tímaskorti þegar hann tók sína misheppnuðu ákvörðun, hann hafi ekki haft tíma, talaði um hálftíma sem hann hefði haft til að ákveða sig. Ég held að hann hefði átt að taka sér rýmri tíma, lengri tíma til að lesa þetta enn þá betur og velta fyrir sér hvaða afleiðingar þetta hefði vegna þess að tíminn var til reiðu og meira að segja enn. Hann hefði getað hugsað þetta mál í alla nótt ef hann hefði viljað. Hann hefði getað ráðfært sig við ríkisstjórnina. Hann hefði getað ráðfært sig við hóp af samstarfsmönnum og sérfræðingum og gefið sín fyrirmæli núna klukkan þrjú --- og getur reyndar enn. Það er svo hamingjunni fyrir að þakka að það er ekki öll nótt úti.
    Ég vil í fullri einlægni sem stuðningsmaður, samstarfsmaður og ábekingur þessarar ríkisstjórnar og hæstv. utanrrh. fara fram á það við hann að hann hugleiði alvarlega hvort hann treystir sér ekki til að nefna lausnarorðið og senda það skeyti sem til þess þarf að atkvæði Íslands falli eins og það féll í fyrra.

    Þá kemur þriðja vers. Utanrrh. kom í sjónvarpið í gærkvöld og var þar með yfirlýsingar um varamillilandaflugvöll sem, eins og hann sagði, væri byggður af NATO en þó ekki herflugvöllur. Því miður gengur þetta tvennt ekki upp. NATO byggir ekki hér flugvelli fyrir þjóðkirkjuna. Það þarf ekki að ímynda sér það. NATO byggir ekki hér flugvelli nema ætla sér að nota þá. Það vill svo til að ég á sæti í flugráði og hef haft tækifæri til að fylgjast með þessu varaflugvallarmáli nákvæmlega. Það hefur verið unnin skýrsla um þetta mál. Ég er að vísu ekki sammála öllu því sem þar stendur eða því mati sem er þar sett fram, en þar kemur glögglega fram hver munur er á varaflugvelli sem Íslendingar þurfa til eigin afnota og þeirra þarfa sem NATO gerir kröfur um. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa örfáar línur úr inngangi þessarar skýrslu og hefst lesturinn:
    ,,Á síðustu árum hefur áhugi Atlantshafsbandalagsins beinst að því í vaxandi mæli að komið yrði á fót fullkomnum varaflugvelli á Íslandi, Grænlandi eða Færeyjum. Utanrrh. og samgrh. skipuðu snemma á seinasta ári viðræðunefnd um þetta mál og eiga sæti í henni Ólafur Steinar Valdimarsson ráðuneytisstjóri, Pétur Einarsson flugmálastjóri, Sverrir Haukur Gunnlaugsson, skrifstofustjóri varnarmálanefndar, og Þorgeir Pálsson prófessor.
    Í framhaldi af könnunarviðræðum við fulltrúa Atlantshafsbandalagsins ákvað
viðræðunefndin að fara þess á leit við Flugmálastjórn að setja á fót vinnuhóp til þess að kanna aðstæður á þeim stöðum sem einkum þykja koma til álita. Með hliðsjón af því að hugsanlegur varamillilandaflugvöllur gæti í senn nýst umferð herflugvéla, millilandaflugi Íslendinga og innanlandsflugi á Íslandi ákvað nefndin að láta kanna aðstæður á eftirtöldum stöðum: Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum og Hornafirði.
    Í starfshópinn voru tilnefndir Jóhann H. Jónsson, framkvæmdastjóri Flugmálastjórnar, formaður, Hörður Sveinsson, deildarstjóri kortadeildar Flugmálastjórnar, Gunnlaugur Helgason flugstjóri frá Félagi ísl. atvinnuflugmanna, Trausti Jónsson veðurfræðingur frá Veðurstofu Íslands, Þóroddur Þóroddsson jarðfræðingur frá Náttúruverndarráði, Pétur Stefánsson verkfræðingur, Almennu verkfræðistofunni.
    Fjárveiting til verksins var frá upphafi mjög naum og var því ákveðið að byggja athugun starfshópsins alfarið á vettvangsskoðun og fyrirliggjandi gögnum. Ákveðið var jafnframt að takmarka athugunina einkum við útilokandi þætti, þ.e. aðflugsskilyrði, veðurfar, aðstöðu til mannvirkjagerðar og umhverfismál.
    Flugvöllur sá er athuganir starfshópsins hafa beinst að er í meginatriðum 3000 m löng flugbraut ásamt sérstökum akstursbrautum og flugvélastæðum í samræmi við kröfur Atlantshafsbandalagsins um herflugvöll. Við könnun á aðflugsskilyrðum hefur verið stuðst við Standard Category 1, aðflug samkvæmt pans. ops. doc. 81 68 frá Alþjóðaflugmálastofnuninni.``
    Þannig hljóðar þessi inngangur skýrslunnar og dylst

engum að þarna er um að ræða að Atlantshafsbandalagið er að biðja um flugvöll þar sem þeir geti látið sínar vélar lenda þegar þeim hentar og þar sem hægt er að hafa æfingaaðstöðu. Þeir gera m.a. kröfu um verulega mikið eldsneytisrými, verulega mikil flughlöð þannig að þeir geti geymt þarna tugi véla eða jafnvel hundruð.
    Því miður gengur ekki upp sá draumur ráðherrans að hægt sé að byggja þennan varamillilandaflugvöll, láta NATO byggja hann án þess að NATO noti hann. Hann samræmist heldur ekki, eins og hv. 2. þm. Austurl. benti á, þessum lið í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar: ,,Ríkisstjórnin mun ekki gera nýja samninga um meiri háttar hernaðarframkvæmdir.`` Þetta tvennt fer ekki saman.
    Það má að lokum geta þess að hv. þm. Jón Helgason, forseti Ed., sem átti tal við mig rétt áðan lét það í ljós við mig að sendimönnum okkar vestra hefði sárnað að heyra það frá hæstv. utanrrh. að hann væri að væna þá um að hafa ekki staðið í stykkinu við að kynna fyrir sér þau málefni sem væru á dagskrá. Vitna ég til Dagblaðsins í dag þar sem Jón Baldvin ávítar sendimenn hjá Sameinuðu þjóðunum. Þetta vil ég að komi fram. Þeim þykir hart við þetta að búa.
    Ég árétta ósk mína til hæstv. utanrrh. að hann gái vel að sér hvort hann telur sig ekki geta framfylgt þeirri stefnu sem Steingrímur Hermannsson markaði í utanríkismálum. Við samstarfsmenn hans ætlumst hreinlega til þess að hann fylgi fram þeirri stefnu. Við gengum út frá því þegar við gerðum þennan málefnasamning og við gengum út frá því þegar við völdum hann sem utanrrh. að hann mundi gera það.