Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Hér fer fram umræða um einn meginþátt íslenskra stjórnmála. Sú umræða hefur verið vakin vegna áhuga talsmanns Alþb. í utanríkismálum á afgreiðslu mála hjá Sameinuðu þjóðunum. Þessi umræða hefur leitt það í ljós að það er grundvallarágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um þennan meginþátt í stjórnmálum. Hv. frummælandi sagði orðrétt að Alþb. hefði barið að röngum dyrum. ( HG: Alþfl.) Að Alþfl. hefði barið að röngum dyrum. Ég bið afsökunar á þessu mismæli, en það stafar af eðlilegri ástæðu því að Alþb. hafði barið að ýmsum dyrum árum saman án árangurs. En núna sem sagt hleypti Alþb. þessum samstarfsflokkum inn til sín í þennan félagsskap með þeim árangri að í ljós kemur að það er ekkert samkomulag þar inni fyrir. Í gær kom auðvitað líka í ljós að um annan meginþátt íslenskra þjóðmála var heldur ekki samkomulag og allt mjög í ruglingi, ef ég má taka svo til orða, svo að ég noti ekki líkinguna hver hafi barið að röngum dyrum hjá hverjum. En hvað um það atriði.
    Það hefur komið fram að aðalgagnrýnisefnið er að hæstv. utanrrh. hafi breytt um stefnu. Það má kannski segja að hæstv. utanrrh. hafi leiðrétt stefnu. Það er ekki langt síðan að breytt var um stefnu í vissum þeim málum sem hér hafa verið til umræðu án þess að utanrmn. eða ríkisstjórnin hafi verið að því spurð.
    Það er vitanlega gott og æskilegt að umræður fari fram á Alþingi um afstöðu íslenska ríkisins til mála sem upp koma á alþjóðavettvangi, þar á meðal um atkvæðagreiðslur um ýmis einstök mál sem þýðingu hafa. Og nú hefur hv. 2. þm. Austurl. vakið máls á því sem fer fram þessa dagana á þingi Sameinuðu þjóðanna og telur ekki unnt að fallast á sjónarmið hæstv. utanrrh. um afgreiðslu og afstöðu til þeirra mála. Ég tel að ákafi hv. þm. og orðalag hans sé að vísu allmikið úr hófi en ég efast ekkert um að hugur hans fylgi máli. Og að því er varðar ástandið, ef ég vík að þeim tillögum einstökum sem hv. þm. hefur hér fjallað um og vík fyrst að tillögunum um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, eins og oft er sagt, þá er auðvitað ljóst að þar hefur verið eins konar púðurtunna í alþjóðastjórnmálum sl. 40 ár og vandi og deilur auðvitað miklu lengur, árhundruðum saman, öldum og næstum árþúsundum saman.
    Ísraelsríki var svo stofnað í óþökk þeirra sem fyrir sátu í landinu og hver styrjöldin hefur rekið aðra. Íslendingar eru ætíð andvígir hryðjuverkum, styrjöldum og öðru ofbeldi hvar sem er í heiminum. En fyrst og fremst ættum við að stuðla að því með atkvæði okkar og öðrum áhrifum, ef einhver kynnu að vera í slíkum málum, að friður komist á og varanleg lausn finnist á vandanum í sambúð Ísraelsríkis og nágranna þess. Ég geri ráð fyrir því að hv. 2. þm. Austurl. taki ekki undir þær kröfur af hálfu annars deiluaðila að Ísraelsríki verði svipt allri viðurkenningu, og það er vel að hann vilji það, eftir því sem ég tel að hann geri, að gyðingar sitji í friði að sínu. Það eru mikil mannréttindi að fá að vera í friði í landi sínu. En harðorð gagnrýni nú á Ísraelsmenn, annan aðilann

í þessari deilu, og fordæming á þeirra aðgerðum er ekki líkleg til að laða þá að samningaborði sem er þó megintilgangur allra sem raunverulega vilja stuðla að friði þessara deiluaðila. Það er meginatriðið og það er það atriði sem þær alþjóðasamkomur sem um þetta mál hafa fjallað hafa unnið að. Ég leyfi mér að halda, tel mig hafa ástæðu til að halda að við höfum á ýmsum tímum síðustu mánaða verið jafnvel nokkuð nær því marki en fyrir örfáum árum. Ég held að hvert slíkt skref, eins og stigið er með alþjóðlegri fordæmingu á aðgerðum annars aðila, verði til að eyðileggja slíka þróun eða a.m.k. að seinka henni mjög og þá er til lítils unnið með slíkri tillögugerð. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það hafi verið hárrétt afstaða að sitja hjá við afgreiðslu þessarar tillögu nú á þingi Sameinuðu þjóðanna einmitt með það fyrir augum að greiða fyrir því að mál þróist á þann veg að unnt sé að koma deiluaðilum að samningaborði á alþjóðlegri ráðstefnu, eða utan hennar, í framhaldi af henni eða hvernig sem það tækist. Ég er þeirrar skoðunar að tillaga eins og tillögurnar um alþjóðlega ráðstefnu til að vinna að friði hljóti að vera gagnlegar. Þegar það skref er stigið að báðir aðilar hafa fallist á að senda sína fulltrúa til slíkrar ráðstefnu er mjög mikið unnið.
    Hæstv. utanrrh. vék aðeins að tillögum Evrópuráðsins um þessi mál. Þar hafa vitanlega á ýmsum tímum verið gerðar ályktanir um þetta alvarlega mál sem hefur sannarlega þýðingu langt út fyrir það svæði þar sem deilurnar fara nú fram. Nú var gerð ályktun snemma í sumar þar sem enn er áréttaður stuðningurinn við alþjóðlega ráðstefnu um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem fulltrúar beggja deiluaðila væru. Mál þessi voru rædd ítarlega í návist fulltrúa Ísraels sem á aukaaðild að Evrópuráðinu og í návist sendifulltrúa arabaríkjanna. Þeir aðilar sem þarna áttu hlut að máli áttu því sína fulltrúa þar sem þessar umræður fóru fram. Ég hygg að hvert slíkt skref, þótt lítið sé, sem fólgið er í því að fá fulltrúa hinna deilandi aðila til þess að vera þó ekki nema viðstaddir slíkar umræður og kynna sér mjög ítarlegar skýrslur nefnda sem gert hafa vettvangskannanir á löngum tímabilum á staðnum, að allt þetta séu skref í áttina. En hvert það skref sem stigið er til þess að fordæma annan aðilann, lýsa hann óalandi og óferjandi, það dregur
úr möguleikanum til þess að koma á friði. Við lemjum ekki neinn til þess að koma að samningaborði. Það sest enginn við samningaborð undir dynjandi formælingum þeirra sem til samningaviðræðnanna boða. Þess vegna er það algjörlega ljóst að það hefði ekki verið rétt að greiða atkvæði með þessari tillögu.
    Um aðrar tillögur, sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni og fjallað hefur verið um í ræðum hæstv. utanrrh. og nú rétt áðan af hálfu hv. 8. þm. Reykv., er það að segja að þar gildir hið sama. Tillögur um þau mál eru harla gagnslausar og högg út í vindinn ef ekki er verið að vinna að því sem er raunverulegt, en það er samkomulag þeirra aðila sem raunverulega geta ráðið þessum málum. Þess vegna ber okkur fyrst og

fremst að styðja alla þá viðleitni sem verður til þess að greiða fyrir slíku samkomulagi en ekki að gefa yfirlýsingar sem eru margsögð orð og geta fremur orðið til þess að tefja fyrir samningaviðræðum heldur en hitt. Og það er, eins og hér hefur verið bent á, að þær tillögur, frystingartillögurnar, eru orðnar úreltar í raun og veru og ég veit ekki hvers vegna þessi áhugi er svona mikill á þeim nema það sé e.t.v. vegna félagsskaparins sem hv. þm. gerði sér hér nokkuð tíðrætt um í sinni frumræðu. Hann gerði nokkurt mál úr því að við, með afstöðu okkar á þingi Sameinuðu þjóðanna til tillögunnar um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, héldum okkur ekki í þeim félagsskap sem hann teldi heppilegastan, en ef mig misminnir ekki, þá er meðal fremstu flutningsmanna í þessum tillögum t.d. Rúmenía sem ég hafði nú kannski haldið að væri ekki heppilegasti leiðbeinandinn um það hvernig halda bæri á mannréttindum og stuðla að friði í heiminum. Ekki hef ég heyrt hv. frummælanda minnast á neina tilburði til fordæmingar á þeim mannréttindabrotum sem fara fram í því landi, þar sem stjórnvöld í rólegheitum framkvæma landbúnaðarstefnu sína á þann veg að jöfnuð eru við jörðu mörg þúsund þorp hundraða þúsunda manna og þeir hraktir frá heimkynnum sínum og þau eyðilögð. Um þetta tala menn ekki. Það er e.t.v. vegna félagsskaparins.
    Ég held, frú forseti, að það sem máli skiptir fyrir utanríkismálastefnu Íslands sé það að standa að því með fullri reisn að leggja okkar litla lóð á metaskálarnar til þess að varðveita öryggi Íslands í friði í heiminum. Við höfum átt hlut að því að varðveita frið í heiminum í þeim heimshluta þar sem hörmulegar styrjaldir hafa dunið yfir mannkynið tvisvar sinnum á þessari öld, við höfum átt hlut að því að þar hefur nú haldist friður lengur en nokkru sinni áður. Og þessu starfi viljum við halda áfram. Ég leyfi mér að láta í ljós, og ég veit að ég mæli fyrir munn mjög stórs hluta þjóðarinnar, þegar ég segi að ég hef af því þungar áhyggjur að það liggur ljóst fyrir að við völd er í landinu ríkisstjórn þar sem e.t.v. meiri hluti ráðherranna er á annarri skoðun um þessa grundvallarstefnu í utanríkis- og friðarmálum heldur en fylgt hefur verið allt frá því í lok síðustu heimsstyrjaldar. Og þess vegna er það að ég tel að hæstv. utanrrh. verði að taka upp sérstaklega til skoðunar afstöðu sína, afstöðu ríkisstjórnarinnar í heild og gera Alþingi grein fyrir því skýrt og skorinort hver stefnan er að þessu leyti. Alþingi á rétt á því. Margítrekaður vilji Alþingis liggur fyrir um þessi efni og ég tel, fyrst verið er að ræða almennt um þessi mál eins og gert hefur verið, að þá eigum við lágmarksrétt á að þetta liggi fyrir og Alþingi geri þá sínar ráðstafanir ef út af því er brugðið sem við höfum talið heppilegast fyrir íslenskt öryggi og frið í heiminum.
    Ég ítreka það, frú forseti, að þessi mál eru meðal grundvallarmála í íslenskum stjórnmálum og þess vegna verður það að vera ljóst að það er engin meirihlutastjórn í landi þar sem er ljóst að það er

algjört ósamkomulag um þessi atriði, svo og fjármálin, þannig að ég held að það sem hér hefur birst sé ekki alveg í samræmi við það sem við almennt skiljum með orðinu þingræði.
    Ég vona að það sé ekki misnotkun á rýminu hér í ræðustól, frú forseti, þó að ég segi að ég leyfi mér að gera athugasemd við þá áminningu sem hv. 8. þm. Reykv. fékk er hann vék að því hvernig forusta þingsins í utanríkismálum var valin, þ.e. formennska í utanrmn., og honum þá álasað fyrir það að hann væri að tala um vandamál einstakra flokka. Þetta er að vísu viðbót við okkar pólitísku upplýsingar að hæstv. forseti upplýsi að þetta sem þar var að gerast var bara vandamál einhvers tiltekins pólitísks flokks. Ég hélt að það væri vandamál a.m.k. tveggja pólitískra flokka, en það skiptir ekki litlu máli fyrir heildarstefnu í utanríkismálum hvernig gengið er frá forustu í þessum málum. Og það kom líka fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. að hann hafði átt hlut að og haft forustu fyrir þeim hópi sem mótaði kaflann um utanríkismálastefnu í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar og mælti eindregið gegn stefnu hæstv. utanrrh. en stefna utanrrh. í hverri ríkisstjórn er utanríkismálastefna þeirrar ríkisstjórnar. Þess vegna hafa hér komið fram mjög mikilsverðar upplýsingar sem sýna okkur líka á hvaða vegi þingræði á Íslandi er statt.