Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Það hafa orðið alllangar umræður hér í dag um hin mikilvægustu mál. Ég mun nú til þess að stytta mál mitt ræða einungis um einn þátt af þeim þrem málum sem hér hafa verið til umræðu og tala um það sem við kemur tillögu allsherjarþingsins um einhliða fordæmingu á Ísrael. Mínum flokksbræðrum hefur orðið tíðrætt um þetta mál og þeir hafa gert því góð skil. Ég mun freista þess að endurtaka ekki mikið af því sem þeir hafa sagt því að af mörgu er að taka.
    Hv. 2. þm. Austurl. fór hörðum orðum um ákvörðun utanrrh. um að Ísland sæti hjá við atkvæðagreiðslu um tillöguna í allsherjarþinginu um fordæmingu Ísraels. Ég ætla að gagnrýni þessi sé sett fram frá nokkuð þröngu sjónarhorni og beri þess vegna vott um takmarkað hugarjafnvægi og yfirsýn sem þarf að vera til staðar þegar rætt er um það sem varðar samband Íslands og Ísraels. Þetta er viðkvæmt mál. Það skyldu menn hafa í huga.
    Í gær var minningarathöfn á þinginu í Bonn í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá Kristalsnóttunni svokölluðu sem markaði þáttaskil í ofsóknaræði nasista á hendur gyðingum. Forseti þingsins, Philipp Jenninger, flutti minningarræðuna í gær. Í dag sagði hann af sér forsetaembættinu. Ræðan hafði þótt, að því er virtist fyrir klaufaskap, nálgast að geta skoðast ótilhlýðileg réttlæting á framferði nasista.
    Þegar minnst er á Ísrael kemur fyrst í huga manns sá harmleikur sem er skelfilegastur í sögu mannkyns. Ofsóknir, útrýming og þjóðarmorð nasista á gyðingum rennur hverjum heilbrigðum manni til rifja. Á því landsvæði sem þýsku nasistarnir komu til með að ráða yfir í aðeins örfá ár bjuggu níu milljónir gyðinga. Útrýmt var a.m.k. sex milljónum. Hinn svokallaði siðmenntaði heimur lokaði augunum að meira eða minna leyti fyrir voðaverkunum. Og það sem enn verra var, hinu dauðadæmda fólki var varnað að forða sér og flytja til gyðingalandsins og ekki veitt landvist annars staðar þar sem það gat búið óhult og bjargað lífinu. Þannig var heiminum að því er varðar þessar sex milljónir fórnarlamba skipt í staði þar sem þau gátu ekki haldið lífinu og staði sem þau máttu ekki fara til. Sex milljónir.
    Þegar heimsstyrjöldinni lýkur og tekur að rofa til er hafist handa við að reisa úr rústum og byggja upp betri heim. Sameinuðu þjóðirnar eru settar á fót og taka til starfa. Eitt af því fyrsta sem Sameinuðu þjóðirnar tókust á hendur var að finna lausn á ,,gyðingavandamálinu``. Á hinum mörgu öldum herleiðingar og útlegðar hafði vonin um afturkomu til heimalandsins aldrei slokknað. Samtök gyðinga höfðu um langan aldur barist fyrir stofnun ríkis. Þeir gyðingar sem lifðu af útrýmingarherferð nasistanna gátu ekki búið í þeim heimkynnum sem höfðu verið vettvangur blóðbaðsins. Þeirra eina von var að fá að fara til fyrirheitna landsins. Hinn siðmenntaði heimur fann til sektarkenndar fyrir það sem gerst hafði og gagnvart þeim sem eftir lifðu. Menn vildu úrlausnir á miklum vanda og koma á skipan til frambúðar.

    En lengi vel gekk hvorki né rak hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar voru margvíslegar og flóknar deilur um málið. Sum ríkin vildu stofna sjálfstætt ríki Palestínu fyrir gyðinga. Önnur ríki snerust hatrammlega á móti. Svo leit út að erfitt yrði að finna lausn sem aðildarríki gætu almennt komið sér saman um. Það var þá sem hlutur Íslands varð mikilvægur. Því megum við aldrei gleyma.
    Þegar allt um þraut var tekið til þess ráðs að stjórnmálanefnd allsherjarþingsins skipaði þriggja manna undirnefnd til að gera tillögur í málinu sem allsherjarþingið tæki síðan til afgreiðslu. Einn þessara nefndarmanna var fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors. Hinir tveir nefndarmennirnir gufuðu upp þegar á hólminn var komið, veigruðu sér við að taka þátt í störfum nefndarinnar vegna þrýstings frá ríkjum sem voru andstæð stofnun ríkis fyrir gyðinga.
    Abba Eban, sem síðar varð utanríkisráðherra Ísraels, gefur góða lýsingu á þessum atburðum í sjálfsævisögu sinni, en hann var þá í New York til að gæta hagsmuna gyðinga hjá Sameinuðu þjóðunum. Frásögn Ebans er hin athyglisverðasta og þá ekki síst fyrir okkur Íslendinga. Samtal hans við Thor kvöldið fyrir hinn örlagaríka dag, lýsingin á framgöngu Thors, framsöguræðu hans í umræðunum, umræðunum sem lyktaði með atkvæðagreiðslu þar sem samþykkt var að stofna skyldi Ísraelsríki.
    Ég hygg að aldrei hafi áhrif Íslands verið eins afgerandi og örlagarík á alþjóðavettvangi svo sem hér varð raun á. Þetta sýnir hvers við erum megnugir þegar hinir mikilhæfustu menn halda á málum þjóðarinnar.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði í þessum umræðum áðan að Íslendingar eigi að koma fram af þjóðlegri reisn á alþjóðavettvangi. Þetta sem ég hef hér greint frá er dæmi um það.
    Ég verð að segja að ég er stoltur sem Íslendingur af þessari frásögn eins af fremstu forustumönnum Ísraels. Og ég verð líka að játa það að ég var ekki síður snortinn þegar ég fyrir nokkrum árum í fjölmennu samsæti í Ísraelsþingi hlýddi á ræðu forseta þess þar sem hann sagði að nafn Thors Thors væri greypt
með gullnu letri í sögu Ísraels. Mér þykir við hæfi að þessi ummæli komist inn í okkar þingsögu.
    Svipuð ummæli hafa að vísu margir aðrir af helstu forustumönnum Ísraels viðhaft fyrr og síðar. Eitt er víst: Ísraelsmenn eru sér mjög meðvitandi um hlut Íslands á örlagastund og persónulegt samband milli Íslands og Ísraels er engin tilviljun. Ben Gurion, Golda Meir og fleiri stórmenni frá Ísrael heimsóttu land okkar þegar á fyrstu árum Ísraels, létu þessar heimsóknir ganga fyrir flestum öðrum.
    Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, flutti einn erlendra gesta, einn erlendra gesta hátíðaræðu við vígsluathöfn þinghússins í Jerúsalem. Þetta var engin tilviljun. Bjarni Benediktsson og Emil Jónsson fóru í opnbera heimsókn til Ísraels, svo ekki séu fleiri taldir.
    Ég vík aðeins að þessu, ég endurtek, aðeins að

þessu til að minna á að milli þjóða okkar hefur verið sérstakt samband vinsemdar og virðingar. Og það er ekki ofmælt að lögð sé áhersla á þetta á þessum vettvangi þar sem við erum nú í þessum umræðum, því að einhliða fordæming okkar á hendur Ísrael samræmist harla illa þessari sögulegu staðreynd.
    Ég ætla mér ekki þá dul að fara hér að rifja upp sögu Ísraelsríkis. Aðeins er nauðsynlegt af því tilefni sem þessi umræða er að hafa í huga hvað Sameinuðu þjóðirnar ákváðu með samþykkt sinni um stofnun Ísraelsríkis. Sameinuðu þjóðirnar samþykktu að skipta skyldi Palestínu milli gyðinga og araba. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga og líka hitt að gyðingar samþykktu þetta fyrir sitt leyti og stofnuðu Ísraelsríki sem náði yfir það landsvæði sem Sameinuðu þjóðirnar afmörkuðu þeim til handa. Þeir fóru að vilja Sameinuðu þjóðanna. Þeir fóru að því sem Thor Thors hafði lagt til í hinni örlagaríku framsöguræðu sinni á allsherjarþinginu og samþykkt var þar. En arabar neituðu að virða samþykkt allsherjarþingsins. Þeir neituðu því og svöruðu með því að fjögur ríki þeirra réðust á hið nýstofnaða Ísraelsríki í styrjöld í þeim yfirlýsta tilgangi að ómerkja samþykkt allsherjarþingsins og reka gyðinga úr landi sínu. Það var einmitt þannig sem sá ófriður hófst og ófriðarástand sem síðan hefur ríkt fyrir botni Miðjarðarhafs.
    Stríð er skelfing öllum friðelskandi mönnum. Virðingarleysi fyrir mannslífinu er algjört. Raunar er leikurinn fólginn í því að tortíma mannslífum. Í algjöru stríði er grimmdaræðið takmarkalaust hver sem í hlut á. En jafnvel þá leyfum við okkur þó að gera mun á eftir því hver á heldur. Þannig gerum við mun á árásaraðila og þeim sem er sá einn kostur að verja hendur sínar. Það hygg ég að við gerum öll. M.a.s. fögnum við því og þökkum að bandamönnum skyldi takast, að sjálfsögðu með tortímandi vígvélum sínum, að kveða niður grimmdaræði nasistanna, sigra þá, firra heiminn villimennsku þeirra og bjarga mannslífum undan ofsóknum þeirra. Við teljum þetta af hinu góða og svo sé fyrir þakkandi að þjóðarmorðinu slotaði, svo það skuli þá hafa verið eftir einhverjir gyðingar til að flytjast til fyrirheitna landsins.
    Sú skálmöld, sem verið hefur fyrir botni Miðjarðarhafs, er tilkomin vegna vopnaðrar andstöðu við ákvörðun Sameinuðu þjóðanna og að Ísraelsmenn þurftu á sínum tíma að grípa til vopna til að verja hendur sínar. Í 40 ár hefur ríkt hernaðarástand og í ár sérstaklega á því landsvæði sem til skipta átti að koma samkvæmt samþykktum allsherjarþings milli gyðinga og Palestínumanna. Við heyrum daglega fréttir um átök, um hryðjuverk og mannfelli á báða bóga, svo sem fylgir því þegar barist er á banaspjótum.
    Hv. þm. hafa í þessum umræðum, ég hygg allir sem hafa tekið til máls, lýst þessum hryggilegu atburðum sem enginn mælir bót. Þetta er hryggilegt ástand sem ógnar friðnum í þessum heimshluta. Mest er um vert að binda enda á þetta og það verður einungis gert með því að koma fram vilja Sameinuðu

þjóðanna um friðsamlega sambúð gyðinga og Palestínumanna. Það verður ekki gert með hatursfullum ákærum á hendur Ísraelsmönnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eins og fólst í þeirri tillögu sem er tilefni þessarar umræðu. Það eru í raun og veru engin efnisleg rök fyrir slíku og slík vinnubrögð koma engu góðu til leiðar. Og allra síst ættum við Íslendingar að láta leiða okkur til slíks eftir þátt okkar í viðleitninni til að bæta fyrir mestu glæpaverk heimsbyggðarinnar og með okkar sögulegu tengsl við stofnun Ísraelsríkis. Vegna þessa lýsi ég stuðningi við þá ákvörðun hæstv. utanrrh. að Ísland greiddi ekki atkvæði á allsherjarþinginu með fordæmingu á Ísrael.
    Hæstv. utanrrh. á lof skilið fyrir stefnu sína og ákvörðun í þessu máli.