Sveitarstjórnarlög
Þriðjudaginn 15. nóvember 1988

     Flm. (Kristín Halldórsdóttir):
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8 frá 18. apríl 1986, ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni. Frv. er á þskj. 99. Frumvarpsgreinarnar eru aðeins tvær og hljóðar hin fyrri svo, með leyfi forseta:
    ,,54. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarstjórn getur efnt til almennrar atkvæðagreiðslu um einstök mál og boðað til almennra borgarafunda um málefni sveitarfélagsins. Til almenns borgarafundar eða sveitarfundar skal boðað með opinberri auglýsingu og skal í henni koma fram hverjir hafi atkvæðisrétt á fundinum ef í ráði er að láta atkvæðagreiðslu fara þar fram.
    Í sveitarfélagi með færri en 1000 íbúa er skylt að halda almennan sveitarfund ef fjórðungur atkvæðisbærra manna í sveitarfélaginu óskar þess. Ályktanir slíkra funda eru ekki bindandi fyrir sveitarstjórn.
    Sveitarstjórn er skylt að láta fara fram atkvæðagreiðslu um einstök mál ef tíundi hluti kjósenda óskar þess eða þriðjungur sveitarstjórnar. Í sveitarfélögum með færri en 1000 íbúa skal þó miða við fjórðung kosningabærra manna. Slík atkvæðagreiðsla telst bindandi fyrir stjórn sveitarfélagsins ef tveir þriðju hlutar kjósenda taka þátt í henni og skal þá meiri hluti ráða. Atkvæðagreiðslan skal fara fram samhliða næstu almennum kosningum í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn er skylt að fresta framkvæmdum varðandi þau mál er íbúar óska atkvæðagreiðslu um þar til úrslit atkvæðagreiðslu liggja fyrir. Sveitarstjórn getur flýtt atkvæðagreiðslunni, en þó skal hún ekki fara fram fyrr en sex vikur eru liðnar frá því að ósk um hana kemur fram. Um framkvæmd slíkrar atkvæðagreiðslu skal fara skv. III. kafla laga þessara eftir því sem við á.``
    Síðari greinin hljóðar svo:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Herra forseti. Þetta þingmál er tæpast með öllu ókunnugt hv. þm. Svipaðar hugmyndir hafa vissulega verið reifaðar hér fyrr þótt ég kunni þá sögu ekki nákvæmlega. Það frv. sem hér um ræðir er nú til umfjöllunar í þriðja sinn svo sem fram kemur í grg.
    Fyrst var það til umræðu haustið 1986. Þá var það lagt fram í Ed. Alþingis, en þá sat þar ein af varaþingkonum Kvennalistans, María Jóhanna Lárusdóttir. Hún vann þetta þingmál fyrst og fremst og á heiðurinn af þeirri grg. sem því fylgir. Það var aftur lagt fram á síðasta þingi, þá borið fram af þingkonum Kvennalistans hér í Nd., en þar sem þinginu var hespað nokkuð snögglega af hér á síðasta vori fékk það aldrei aðra umfjöllun en 1. umræðu hér í þingsölum. En það er skylt að geta þess að hæstv. félmrh., sem nú er því miður ekki viðstödd, tók þátt í þeirri umræðu og taldi frv. allrar athygli vert og lét um það falla vinsamleg orð.
    Við kvennalistakonur höfum frá upphafi lagt mikla áherslu á virkt lýðræði og dreifingu valds og ábyrgðar, ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. Þessi atriði vega þungt í stefnu okkar og við höfum

þau mjög að leiðarljósi í störfum okkar, bæði í innra starfi og út á við, og ætti það að vera ýmsum ljóst og kunnugt eftir margvíslega umfjöllun síðustu daga. Þessi atriði höfum við einnig að leiðarljósi við útfærslu þingmála svo sem fram kemur í því þingmáli sem hér er á dagskrá. Sem annað dæmi má nefna tillögur okkar um framkvæmd fiskveiðistefnu sem til umfjöllunar voru á síðasta þingi, en þar lögðum við til að framkvæmd fiskveiðistefnu lyti almennum reglum en nánari ákvörðun og ábyrgð flutt til byggðarlaganna sjálfra. Og í ljósi síðustu atburða á Suðurnesjum erum við enn sannfærðari en áður um réttmæti þeirra tillagna okkar. Valdið á með öllum ráðum að færa sem næst þeim sem málin brenna á.
    Frv. sem hér er nú til umræðu hefur þann tilgang að tryggja aukinn rétt íbúa sveitarfélaga til að hafa áhrif á ákvörðun í einstökum málum. En eins og lögin eru nú er sá réttur í raun mjög takmarkaður. Sumir telja hann jafnvel fótum troðinn á stundum. Með leyfi forseta skal ég nú lesa 54. gr. núgildandi laga sem við leggjum til í þessu frv. að verði breytt. Hún hljóðar svo:
    ,,Heimilt er sveitarstjórn að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um einstök mál og að boða til almennra borgarafunda um málefni sveitarfélagsins.
    Í sveitarfélagi með færri en 500 íbúa er skylt að halda almennan sveitarfund ef 1 / 4 hluti atkvæðisbærra manna í sveitarfélaginu óskar þess.
    Til almenns borgarafundar eða sveitarfundar skal boðað með opinberri auglýsingu og skal þar taka fram hverjir hafi atkvæðisrétt á fundinum ef ætlunin er að atkvæðagreiðsla fari þar fram.
    Ályktanir slíkra funda eru ekki bindandi fyrir sveitarstjórn.
    Sveitarstjórn getur efnt til almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélagi eða hluta þess til þess að kanna vilja kosningabærra íbúa um tiltekið málefni. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er ekki bindandi um afgreiðslu málsins fyrir sveitarstjórn nema hún hafi fyrir fram ákveðið að svo skuli vera.``
    Svo sem hv. þm. heyra er hér um fremur máttlitla stoð að ræða fyrir þá sem
vilja hafa áhrif á gang mála í sínu sveitarfélagi. Stjórnum sveitarfélaga með innan við 500 íbúa er skylt að halda almennan sveitarfund ef fjórðungur atkvæðisbærra manna óskar þess. Engin slík skylda er lögð á stærri sveitarfélög en stjórnum jafnt stórra sem smárra sveitarfélaga er veitt heimild til þess að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um einstök mmál og boða til almennra borgarafunda um málefni sveitarfélagsins. Þessi ákvæði eru algjörlega ófullnægjandi og í engu samræmi við yfirlýsingar stjórnmálamanna í öllum flokkum um nauðsyn valddreifingar og virks lýðræðis. Lagaheimild og lagaskylda er sitt hvað og reynslan sýnir að meiri hluti sveitarstjórnar á hverjum tíma telur sjaldnast þörf á því að kanna vilja almennings í einstökum málum jafnvel þótt þau séu augljóslega umdeild í sveitarfélaginu.
    Breytingarnar, sem við leggjum til með frv., eru

því í fyrsta lagi að miða skyldu sveitarstjórnar til að halda almennan sveitarfund ef fjórðungur atkvæðisbærra manna óskar þess við stærri sveitarfélög en núgildandi lög kveða á um eða allt að 1000 íbúa sveitarfélag í stað 500 íbúa og víkka þar með þennan möguleika til umfjöllunar um einstök málefni á almennum vettvangi. Aðalbreytingin er þó fólgin í því að tryggja rétt íbúa í öllum sveitarfélögum, stórum sem smáum, til að fá fram almenna atkvæðagreiðslu um einstök mál, en í lögunum frá 1986 er aðeins um heimild að ræða fyrir sveitarstjórn og algjörlega í hennar valdi og sömuleiðis í hennar valdi hvort niðurstöður slíkrar atkvæðagreiðslu skulu vera bindandi um afgreiðslu málsins. Þessu viljum við frumvarpsflytjendur breyta og leggjum til svo sem hér segir að sveitarstjórn sé skylt að verða við óskum að lágmarki eins tíunda hluta kjósenda eða þriðjungs sveitarstjórnar um atkvæðagreiðslu um einstök mál. Sömuleiðis að niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu teljist bindandi fyrir stjórn sveitarfélagsins ef 2 / 3 hlutar kjósenda taka þátt í henni og svo áfram eins og segir í frumvarpsgreininni sem ég hef nú þegar lesið og hv. þm. hafa fyrir sér á þskj. 99. Að sjálfsögðu er hentugast að tengja slíka atkvæðagreiðslu um einstök mál almennum kosningum en jafnsjálfsagt er að hafa möguleika á því að gera það ekki ef brýnt þykir að fá fram ákvörðun í málinu fyrr.
    Í sveitarfélögum gildir nú reglan um fulltrúalýðræði. Allir íbúar í sveitarfélagi sem kosningarrétt hafa, þ.e. eru orðnir 18 ára, eiga rétt á að kjósa menn í sveitarstjórn til fjögurra ára til að fara með stjórn sveitarfélagsins. Hér er um eins konar valdaframsal að ræða frá íbúum sveitarfélags, kjósendum, til sveitarstjórnar. Í stað þess að allir kjósendur taki ákvarðanir og ráði öllum málum fela þeir nokkrum mönnum fullt vald á tilteknu tímabili. Sveitarstjórnarmenn eru þó ekki bundnir af fyrirmælum umbjóðenda sinna í afstöðu sinni til einstakra mála heldur einungis af lögum og sannfæringu sinni eins og segir í 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaganna. Í almennum kosningum er því fyrst og fremst kosið um meginstefnur og hugmyndafræði en ekki einstök mál. Það er oft óhægt um vik fyrir almennan kjósanda að hafa áhrif á einstök málefni. Einkanlega í stórum sveitarfélögum er oft löng leiðin frá kjósanda til fulltrúans og því vafasamt að fulltrúinn taki alltaf afstöðu í samræmi við óskir og vilja umbjóðenda sinna. Það er að okkar dómi mikilvægt að bæta hér um og efla áhrif íbúanna að þessu leyti. Menn getur svo sannarlega greint á við kjörna fulltrúa einhvers flokks um einstakar byggingar, forgangsröð verkefna eða tímasetningu framkvæmda enda þótt þeir séu hjartanlega sammála hugmyndafræði hans og meginstefnu. Fái þeir ekki að láta afstöðu sína í ljós með afgerandi hætti og þurfi að una því sem þeir skynja oft sem hreina valdbeitingu er viðbúið að þeir endurskoði afstöðu sína til viðkomandi flokks og snúi jafnvel baki við þeirri stefnu sem í raun stendur þeim næst.
    Nú hefur það lengi þekkst hér á landi í fámennari

sveitarfélögum að haldnir séu svonefndir borgarafundir, eða sveitarfundir, til að kynna íbúum málefni sveitarfélagsins almennt, svo sem í tengslum við afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar eða til að leita álits þeirra í einstökum málum. Hafa íbúar smærri sveitarfélaga haft lagalegan rétt til að óska eftir slíkum fundum, bæði samkvæmt eldri og núgildandi lögum. En ekkert ákvæði er í lögum sem tryggir rétt íbúa hinna stærri sveitarfélaga til að hafa áhrif á ákvarðanir sveitarstjórnar í einstökum málum, nema að því er varðar áfengisútsölur og sameiningu sveitarfélaga.
    Ég las áðan 54. gr. gildandi sveitarstjórnarlaga þar sem það nýmæli er að sveitarstjórn skuli heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélaginu um einstök mál. Þótt ekki hafi verið um þetta ákvæði í lögum fyrr en nú hefur jafnan verið talið að sveitarstjórn væri heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu eða skoðanakönnunar meðal íbúa, kjósenda sveitarfélags, til að kanna afstöðu til einstakra mála. Slíkar skoðanakannanir hafa farið m.a. fram um hundahald, um fasteignakaup og nafnbreytingar á sveitarfélagi og er því í rauninni ekki nein nýjung á ferðinni í 54. gr., heldur er þar kveðið nánar á um heimild sveitarstjórnar sem hún hefur haft í raun.
    Í stjórnlagafrumvarpi því sem Gunnar Thoroddsen flutti hér vorið 1983 og í skýrslu stjórnarskrárnefndar frá sama tíma er kveðið á um rétt íbúa sveitarfélags til að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni sveitarfélagsins og er það nýmæli skýrt með því að þar sé verið að tryggja lýðræðisleg réttindi íbúanna og auka þau. Þar segir enn fremur að svipaðar heimildir hafi gefið góða raun, m.a. í Bandaríkjunum og Sviss. Þær hugmyndir sem hér koma fram eru því ekki nýjar af nálinni eins og ég tók fram fyrr í máli mínu.
    Þegar þetta frv. var til 1. umr. í efri deild í októberlok 1986 urðu margir þar til þess að láta í ljós álit sitt og voru yfirleitt hlynntir meginstefnu þess og markmiði, en vildu þó hafa nokkurn vara á. Sumir töldu reyndar ekki nauðsynlegt að lögfesta þennan rétt manna til að fá fram atkvæðagreiðslu. Þessi afstaða virtist tilkomin vegna trúar á sanngirni og virðingu sveitarstjórnarmanna almennt fyrir skoðunum umbjóðenda sinna. Nú er ekki ólíklegt að sú trú hafi beðið nokkurn hnekki á þeim mánuðum sem liðnir eru síðan sú umræða fór fram. Einnig gætti meðal þátttakenda í umræðunum ótta við að framkvæmd þessarar lagagreinar yrði þung í vöfum, hún yrði tímafrek og kostnaðarsöm. Reyndar lét einn hv. þm. jafnvel í ljós í þessum umræðum að slíkar uppákomur eins og þarna væri boðið upp á væru leiðinlegar og vitnaði þar til reynslu sinnar af atkvæðagreiðslum um áfengismál og af prestskosningum. Þessar umræður eru annars skjalfestar í 3. hefti Alþingistíðinda 1986, og ég bendi hv. þingmönnum á að kynna sér þær.
    Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir tilgangi og markmiði frv. og er ekki miklu við það að bæta. Ég vil þó að lokum minna á að hv. þm. þekkja vafalaust mörg mál sem fengið hefðu aðra umfjöllun á sínum tíma ef þessi ákvæði hefðu verið í lögum. Nærtækasta

dæmið er auðvitað ráðhúsmálið í Reykjavík. Átökin um það stóðu mánuðum saman og skammt er að minnast nýlegra umræðna um það hér inni á Alþingi. Stór hópur fólks með sundurleitar stjórnmálaskoðanir hefur reynt með öllum tiltækum ráðum að hnekkja ákvörðun meiri hluta borgarstjórnar um byggingu ráðhúss við Tjörnina og í Tjörninni og það fer ekkert á milli mála að þessum hópi finnst meiri hluti borgarstjórnar hafa misbeitt valdi sínu og sýnt umbjóðendum sínum tillitsleysi og lítilsvirðingu. Á skömmum tíma á sl. vetri söfnuðust undirskriftir 10 þúsund borgarbúa gegn ráðhússbyggingunni. En þessi fjöldi hefði nægt til þess að fá fram almenna atkvæðagreiðslu um málið ef frv. það sem hér er til umræðu hefði verið orðið að lögum. Nú skal engum getum leitt að því hvernig sú atkvæðagreiðsla hefði farið, enda er það ekki meginmálið, en alltént hefðu þá allir fengið tækifæri til þess að segja hug sinn og hafa áhrif á gang málsins og þá betur getað sætt sig við endanlega niðurstöðu.
    Það er auðvitað satt og rétt að lýðræði kostar oft tíma og það getur kostað bæði fyrirhöfn og fjármuni í framkvæmd, og það getur jafnvel kostað leiðindi eins og einn þingmannanna benti á þegar frv. var til umræðu í efri deild fyrir tveimur árum. Þetta verð hljótum við hins vegar að greiða. Valddreifing og samábyrgð er krafa samtíðarinnar. Við eigum öll rétt á að vera virkir þátttakendur í mótun umhverfis okkar og daglegs lífs, ekki aðeins þolendur. Æðsta valdið á heima hjá almenningi.
    Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.