Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Mér sýnist að það hafi orðið verulegur dráttur á að hæstv. iðnrh. veitti svör við þeirri fsp. sem hér var nefnd af hálfu hv. 12. þm. Reykv. Jafnframt tilkynnti virðulegur forseti í byrjun fundar að hér ætti að fara fram á þessum degi, á þessum fundi eða utan fundar, umræða utan dagskrár um það efni nákvæmlega sem spurst var fyrir um af hv. 12. þm. Reykv. í byrjun þings. Hér er verið að spyrja um sundurliðað á þessu þingskjali margar grundvallarupplýsingar frá hæstv. ráðherra varðandi undirbúning að nýju álveri í Straumsvík og mér finnst vera mjög einkennilegt ef teknar eru upp utan dagskrár í þinginu umræður um mál sem eru á dagskrá þar sem er þessi fsp. frá hv. 12. þm. Reykv. Mér finnst eðlilegt að umræða um þetta efni utan dagskrár fari ekki fram fyrr en útbýtt hefur verið svari hæstv. ráðherra við þeirri fsp. í mörgum liðum sem liggur fyrir um undirstöðuþætti þessa máls.