Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ef hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir hefði óskað eftir upplýsingum um hvernig vinna við þetta mál stæði í nefndinni voru nú hæg heimatökin hjá henni að leita til síns þingflokksformanns, hv. þm. Danfríðar Skarphéðinsdóttur sem situr sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni, í stað þess að hlaupa hér upp í ræðustól og fara m.a. að spyrja um það mál. Ég skal segja hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur að vinna við þetta frv. gengur eftir áætlun. Það hefur verið óskað eftir því að a.m.k. 15 aðilar komi til fundar við nefndina. Nokkrir þeirra hafa þegar komið og á fund nefndarinnar nk. miðvikudagsmorgun verða boðaðir fulltrúar Sambands fiskvinnslustöðva, hraðfrystiiðnaðarins, Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, fulltrúar lagmetisframleiðenda, Sambands rækjuvinnslustöðva, Landssambands ísl. útvegsmanna og Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Ef hv. þm. hefði óskað frekari upplýsinga um störf nefndarinnar eða lætur að því hér liggja að þau séu ekki með eðlilegum hætti, þá vil ég bara geta þess að það hafa engar athugasemdir komið fram frá áheyrnarfulltrúa Kvennalistans í fjh.- og viðskn. Ed. um hvernig vinnubrögðum við þetta frv. hefur verið háttað. Það hefur allt verið í góðu samráði í nefndinni og enginn ágreiningur gerður þar um eins og ég hygg að aðrir nefndarmenn geti hér vottað.