Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég vil fyrst gera athugasemd við það að nefndarmönnum fjh.- og viðskn. Ed. var ekki gert aðvart um að þessi utandagskrárumræða færi fram sem mér hefði þótt eðlilegt eins og á stendur. Ég get vel tekið undir það, sem hv. 3. þm. Vesturl. segir hér, að ekki hefur orðið ágreiningur um það í fjh.- og viðskn. hvernig staðið verði að vinnubrögðum í sambandi við þetta frv., enda hefur tíminn verið naumur síðan nefndin fékk málið til meðferðar og eins og við vitum féll öll vinna niður í þinginu í síðustu viku þannig að það var ekki við því að búast í þessari nefnd frekar en öðrum að hægt væri að vinna neitt og er vissulega ástæða til þess að gagnrýna það hér og nú hversu illa ríkisstjórnin hefur staðið einmitt að því að leggja þingmál fyrir þingið, hversu verkstjórnin í ríkisstjórninni og verkstjórnin í þinginu hefur verið léleg. Það er eins og það sé enginn verkstjóri í ríkisstjórninni. Og ekki aðeins hefur það komið fram í mjög slappri málafylgju ríkisstjórnarinnar hér, slappri stjórn á þingmálum, heldur hefur það líka komið fram í því að það er mjög slappleg stefnumörkunin hjá ríkisstjórninni sjálfri. Þannig heyrði ég t.d. um það í fréttum nú að hæstv. forsrh. hefði í hyggju að breyta uppbyggingu Atvinnutryggingarsjóðsins þannig að hann ætli sér að hafa ríkisábyrgðir á öllum þeim skuldabréfum sem Atvinnutryggingarsjóðurinn gefur út. En það getur raunar verið að blaðamenn hafi misskilið það sem hæstv. forsrh. hefur sagt um þetta eða jafnvel ég blaðamennina því að það misskilja svo margir alla sem eru í kringum hæstv. forsrh., heyra í honum eða heyra frá því sem af honum er sagt. Það er óskaplegur misskilningur alltaf í kringum hann, en ekki svo að skilja að ég sé að segja að hann misskilji eitt eða neitt.
    Ég vil, herra forseti, leggja áherslu á að þessu máli verði hraðað. Við höfum nægan tíma nú í nefndinni til að ljúka þessu. Við getum unnið frá morgni til kvölds vil ég segja. Það eru engin mál í Ed. sem liggur á. Það liggur í rauninni ekkert annað fyrir deildinni. Ég vil því þakka hv. þm. fyrir að hafa vakið máls á þessu og tek undir með þingmanninum að við efrideildarmenn eigum að koma málinu frá okkur og við eigum að nota tímann núna til þess að vinna rækilega í sambandi við bráðabirgðalögin og láta þá koma í ljós hvort hæstv. ríkisstjórn hefur þann stuðning sem hún þykist hafa til að koma málinu í gegn.
    En hitt skil ég afskaplega vel að hæstv. forsrh. skuli ekki vilja gera eitt né neitt til þess að reyna að fresta því að stjórn Atvinnutryggingarsjóðsins afgreiði málin vegna þess að hæstv. forsrh. hefur ekki hugmynd um hvort meiri hluti þingsins stendur á bak við þá stjórn sem í sjóðnum er og tveir þingmenn stjórnarflokkanna hafa harðlega gagnrýnt í Ed. að þessi leið skuli hafa verið farin, að pólitískir mattadorar ríkisstjórnarinnar skuli skipa stjórnina en hún ekki kjörin á Alþingi eins og eðlilegt hefði verið við þessar aðstæður.