Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Mér þótti það mjög athyglisvert boð hjá hæstv. forsrh. að hann skuli nú vera reiðubúinn að eiga viðræður við einstaka þingmenn um ýmsar upplýsingar sem við kynnum að óska að fá um þetta frv. Ég spurði hann margra spurninga í sambandi við þetta mál í Ed. og málið var engan veginn efnislega tæmt þar og auðvitað hefði verið eðlilegra að hæstv. forsrh. hefði á þeim tíma reynt að gera gleggri grein fyrir málinu einmitt á þeim vettvangi í staðinn fyrir að þingmenn eigi að koma hlaupandi til hans eftir að umræðunni er lokið til þess að reyna að fá einhverjar fyllri upplýsingar um eitt eða annað. Það er auðvitað alveg út í bláinn.
    En úr því að hæstv. forsrh. vill svara spurningum langar mig til þess að spyrja hann þessarar einföldu spurningar: Hæstv. forsrh. hefur viðurkennt að það sé ekki rekstrargrundvöllur fyrir sjávarútveginum. Hann hefur jafnframt lýst því yfir að sjóðurinn megi ekki lána til fyrirtækja nema það sé grundvöllur fyrir rekstri þeirra eftir að þau eru búin að fá lánin. Hvernig er hægt að lána fyrirtækjum í sjávarútvegi ef fyrir liggur að þau hafi ekki rekstrargrundvöll og það yrði skilyrði að sjóðurinn megi ekki lána til fyrirtækja sem ekki hafa rekstrargrundvöll og margyfirlýst einmitt af hæstv. forsrh.? Ég er honum alveg sammála um að það þýðir ekkert að vera að ,,konvertera`` lánum. Það þýðir ekkert að vera að breyta lánum ef ekki er grundvöllur fyrir rekstrinum. Um þetta er ég alveg sammála hæstv. forsrh., vil einmitt taka undir þetta. Þetta er heilbrigt sjónarmið. En þess vegna spyr ég enn: Hvernig ætlar hæstv. forsrh. að koma til móts við fyrirtækin fyrst þau hafa ekki rekstrargrundvöll? Þetta er spurningin. Nú væri fróðlegt að fá svar til fjh.- og viðskn. eða einslega til einstakra þingmanna. Ég er til reiðu hvenær sem er ef hæstv. forsrh. vill svara þessu, ef hæstv. forsrh. vill t.d. svara því hvenær hann telji tímabært að leiðrétta gengið. Hann segir að það þurfi að fella gengið. Það sé of hátt. Hvenær telur hæstv. forsrh. tímabært að fella gengið?
    Það er ýmislegt annað sem tengist efnahagsaðgerðum og tengist þessu frv. með beinum og óbeinum hætti og vissulega full ástæða fyrir hæstv. forsrh. að upplýsa okkur um þetta og ég ítreka: Ég veit að ég og aðrir þingmenn í stjórnarandstöðunni erum reiðubúnir að koma til fundar við forsrh. á nóttu eða degi í þinginu eða utan við þingið ef hann vill svara einföldustu spurningum sem varða þetta frv. og stefnuna í efnahagsmálum og stöðuna í efnahagsmálum yfir höfuð að tala.