Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Á þeim tíma sem liðinn er síðan hér voru rædd þingsköp fyrr í dag hef ég frekar staðfestst í því að það er óeðlilegt að taka til umræðu í sameinuðu þingi mál sem er á dagskrá þingsins, þ.e. beiðni um skriflegt svar frá hæstv. viðskrh. um undirbúning að nýju álveri við Straumsvík, 10. mál þingsins, á þskj. 10. Ég held að það séu fá fordæmi fyrir því að mál hafi verið tekið til umræðu utan dagskrár í þinginu sem er á dagskrá þingsins. Mér finnst algert lágmark að svar hæstv. ráðherra hafi borist inn á borð þingmanna áður en þetta mál er tekið til umræðu. Í þessari beiðni, sem ég hef undir höndum, þskj. 10, er beðið um fjölmargar grundvallarupplýsingar um það mál sem hér er óskað eftir umræðu utan dagskrár um. Mér finnst það móðgun við þingmenn að fara að taka þetta mál hér til umræðu utan dagskrár nema það séu komin svör frá hæstv. viðskrh. við þessu þingmáli.
    Ég ítreka að ég tel lágmark að þessi svör séu komin á borð þingmanna áður en þessi umræða hefst. Það var upplýst af virðulegum forseta að svar væri komið fram við þessu, en því hefur ekki verið dreift. Því ber ég fram þessa eindregnu ósk.