Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til þess að ræða um þetta mál utan dagskrár. Að vísu má kannski segja að ýmislegt fleira hefðu menn viljað fjalla um hér á hinu háa Alþingi í dag í ljósi síðustu atburða. Þjóðin hefur horft upp á að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa opinberað trúlofun flokka sinna og haldið þannig upp á 70 ára afmæli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, sem var um helgina, svo ekki sé minnst á ýmislegt sem hefur fallið í umræðuna frá hæstv. forsrh. eins og það að vextir sem fiskvinnslan þurfi að greiða séu 400--500%, að eflaust sé gengi íslensku krónunnar rangt skráð, að OECD sé að þvinga frjálshyggju upp á Íslendinga og síðast en ekki síst að á þessu landi liggi við þjóðargjaldþroti. Allt þetta hefði vissulega getað gefið tilefni til þess að hv. þm., sem hafa ekki verið mjög önnum kafnir að undanförnu, hefðu beðið um umræður utan dagskrár.
    Það er óþarfi að rifja upp í löngu máli gang mála varðandi ATLANTAL-verkefnið svokallaða. Það var ríkisstjórn, sú hin fyrri, hæstv. forsrh. sem tók á þessu máli og markaði stefnu á sínum tíma, en þá var hv. þm. Albert Guðmundsson iðnrh., en grunnur var lagður að þessu máli í febrúar árið 1987. Undirbúningur hefur síðan staðið allar götur síðan og vel til hans vandað af færustu mönnum. Þess skal getið að forustumönnum fyrrverandi stjórnarflokka var auðvitað kynntur gangur málsins, m.a. í byrjun janúar á sl. ári þegar fyrir lá forathugun á þessu máli.
    Það kemur í ljós núna, virðulegur forseti, að það er nauðsynlegt að renna fleiri stoðum undir atvinnu- og efnahagslíf þessarar þjóðar. Kemur kannski best í ljós einmitt þegar við erum minnt á það, Íslendingar, að auðlindir sjávarins eru takmarkaðar, eins og kemur fram m.a. í ákvörðun hæstv. sjútvrh. um það magn sem verður tekið úr sjó á næsta ári.
    Ég vil einnig taka fram að í öllum undirbúningnum hefur verið kappkostað að sjá fyrir því að mengunarhætta verði eins lítil og hægt er af því álveri sem hugsanlega verður byggt hér, enda auðvelt miðað við nýjustu tækni sem yfirleitt er notuð um þessar mundir við byggingu slíkra vera.
    Hinn 4. júlí sl. var skrifað undir ,,memorandum of understanding``, sem sá sem hér stendur ritaði undir ásamt fulltrúum fjögurra álfyrirtækja í Evrópu, og síðan hefur verið unnið að þessu máli í samræmi við það samkomulag. Þau fjögur erlendu fyrirtæki sem standa að hagkvæmnisathuguninni kosta hana að jöfnu, en markmið þeirra er, ef niðurstöður verða jákvæðar og ef um semst við íslensk stjórnvöld, að aðild þeirra að verksmiðjunni verði jöfn, enda þurfa þau á áli að halda í samræmi viðþað.
    Við stjórnarskiptin fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum kallaði ég eftir upplýsingum frá þeim starfshópi sem þá starfaði að þessu máli um það hver staða málsins væri og ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til þeirrar skýrslu sem mér var send frá starfshópnum. Í þeim hópi áttu sæti Jóhannes Nordal, Geir A. Gunnlaugsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Gunnar G. Schram. Þar segir, með leyfi forseta:

    ,,Ljóst er að fyrirtækin fjögur hafa þegar skuldbundið sig um veruleg útgjöld vegna þessara verkefna og er líklegt að þær skuldbindingar nemi þegar í dag nálægt 30 millj. kr. Er því enginn vafi á því að hér fylgir hugur máli og öll fyrirtækin hafa mikinn áhuga á framgangi þessa máls.``
    Og síðar í þessari sömu skýrslu segir, með leyfi forseta:
    ,,Jafnframt þeirri tæknilegu undirbúningsvinnu sem fram undan er og mest áhersla verður lögð á næstu mánuði er mikilvægt að undirbúa samtímis`` --- ég undirstrika ,,samtímis`` --- ,,ýmsa aðra þætti málsins til að búa sem best í haginn fyrir lokasamningum sem væntanlega hefjast þegar hagkvæmnisathugun liggur fyrir. Hér er um ýmislegt að ræða. Í fyrsta lagi má nefna lögfræðilega undirbúningsvinnu sem varðar form og uppbyggingu hugsanlegra samninga og skilgreiningu á þeim álitamálum sem nú þarf að leysa. Í öðru lagi er undirbúningur af hálfu Landsvirkjunar á áætlunum um raforkuverð og fyrirkomulag raforkusamnings. Og í þriðja lagi ýmis mál er varða umhverfisáhrif verksmiðjunnar og samskipti við önnur stjórnvöld, þar á meðal Hafnarfjarðarbæ.``
    Og enn síðar segir, með leyfi forseta, að aðstæður til samninga um aukna álframleiðslu hér á landi séu óvenjulega hagstæðar um þessar mundir og síðan orðrétt: ,,Jafnframt er ljóst að öll fyrirtækin fjögur leggja mikla áherslu á að undirbúningur þess og samningar geti gengið nægilega hratt fyrir sig næstu mánuði til þess að lokaniðurstaða geti fengist fyrir mitt næsta ár.`` --- Ég undirstrika orðið ,,lokaniðurstaða``. --- ,,Miðar öll undirbúningsvinna fyrirtækjanna fjögurra og starfshópsins að því marki.``
    Það skal tekið fram, virðulegur forseti, að könnun eða athugun á þjóðhagslegum áhrifum hafa farið fram í nokkur skipti. Fyrst var það 1986 sem skýrsla um það var send til þáv. iðnrh., hv. þm. Alberts Guðmundssonar, en í þeirri nefnd sátu hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Guðmundur G. Þórarinsson og Garðar Ingvarsson framkvæmdastjóri, en ritari þeirrar nefndar var Hermann Sveinbjörnsson. Nú veit ég að fyrir stuttu hefur Sigurður Guðmundsson hjá
Byggðastofnun lokið við að fara yfir þessa skýrslu, en það var gert að minni beiðni, og þess skal getið að helstu niðurstöður þeirrar skýrslu, sem þá var unnin, voru þessar, með leyfi forseta:
    ,,Stóriðjuafurðir, ál og kísiljárn, voru 18,8% af verðmæti alls vöruútflutnings landsmanna árið 1984. Íslenskar gjaldeyristekjur vegna rekstrar Ísals og Íslenska járnblendifélagsins námu rúmum þriðjungi af veltu þessara fyrirtækja á árinu 1984. Um 800 manns starfa nú við stóriðju hér á landi eða tæplega 1% alls vinnuafls í landinu. Laun eru hærri en í sambærilegum störfum í öðrum atvinnugreinum. Starfsmenn Ísals og Íslenska járnblendifélagsins hafa verið næstlaunahæsti hópurinn í landinu meðal launþega á síðustu árum. Eftir 15 ára rekstur er meðalstarfstími hjá Ísal um 10 ár. Stóriðjuver notuðu 58% af allri orkusölu Landsvirkjunar árið 1984. Stóriðjan hefur skapað grundvöll fyrir virkjanauppbyggingu Íslendinga og

innleitt nýjan tíma í verkefnum og stórframkvæmdum.``
    Þetta var, virðulegur forseti, úr niðurstöðum skýrslu sem skilað var til ráðherra árið 1986 og ég veit að það hefur verið unnið að því að endurskoða þessa skýrslu þannig að tekið sé tillit til nýrri talna.
    Jafnframt vil ég að það komi fram að fyrir nokkrum mánuðum voru þeir Guðmundur Magnússon prófessor, áðurgreindur Sigurður Guðmundsson og Yngvi Harðarson hjá Þjóðhagsstofnun beðnir um að gera úttekt, en þeir voru valdir með tilliti til þess að sú úttekt --- ég þakka fyrir. Ég sé að hæstv. utanrrh. sér aumur á mér, ég þakka honum fyrir að vilja hraða framgangi þessa máls þannig að ég fái a.m.k. lokið ræðu minni ef ljósin skyldu aftur slokkna. Þakka ég honum kærlega fyrir þessa sendingu sem er rautt, laglegt kerti og stendur mér hér á vinstri hönd. --- En þeir menn sem voru valdir í þetta verkefni voru auðvitað fulltrúar þessara stofnana, valdir sem slíkir, enda eru þetta hlutlausar stofnanir og þarna átti að vera um faglega úttekt að ræða.
    Starfshópurinn vann auðvitað líka að þessu máli en nú hefur það gerst, eins og fram hefur komið í fréttum, að bæði starfshópurinn og hópurinn sem átti að vinna að könnun á efnahagslegum áhrifum hafa verið stækkaðir, en svo virðist samt sem áfram sé fylgt þeirri stefnu sem áður var mörkuð í þessu máli.
    Breytingar á nefndarskipaninni og nefndunum sem hafa starfað eru auðvitað eðlilegar og þær hafa verið kynntar af hæstv. iðnrh. Það er eðlilegt þegar breyting verður á stjórn landsins og nýr stjórnmálaflokkur sest í ríkisstjórn, að hann fái fulltrúa í nefndirnar. Ég vil enn fremur taka fram að ekki er sjáanleg nein stefnubreyting í þeim erindisbréfum sem liggja fyrir og það er jafnframt, virðulegur forseti, ljóst að mikill meiri hluti Alþingis styður þá stefnu sem mörkuð var á sínum tíma í þessu máli og þá undirbúningsvinnu sem nú hefur farið fram og fer fram um þessar mundir. Þetta er auðvitað vandmeðfarið mál, en tilefni þess að ég hef beðið um að fá að ræða um þetta mál utan dagskrár eru yfirlýsingar einstakra hæstv. ráðherra og hv. þm. og þess vegna finnst mér eðlilegt að hér sé spurt nokkurra spurninga sem ég kem að innan tíðar.
    Fyrst langar mig, virðulegi forseti, til þess að rifja upp að 11. nóv. mátti lesa á forsíðu DV þessi ummæli höfð eftir formanni þingflokks Alþb., orðrétt með leyfi forseta: ,,"Það er í sáttmála ríkisstjórnarinnar að ekki verði unnið að stækkun álvers í Straumsvík. Við viljum að við þær samþykktir verði staðið. Við munum því ekki standa að neinni undirbúningsvinnu,,, sagði Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Alþb.`` Og síðar í þessu sama viðtali segir formaður þingflokks Alþb. orðrétt: ,,Við erum alfarið á móti þessu álveri og stöndum ekki að neinum breytingum.``
    Í sama streng tekur reyndar hæstv. landbrh. í viðtali við Þjóðviljann en þar segir orðrétt: ,,Álmálið olli nokkrum deilum við ríkisstjórnarmyndunina en að lokum var fallist á það samkomulag í sáttmála ríkisstjórnarinnar að ekki verði unnið að stækkun

álversins í Straumsvík.``
    Í bæði þessi skipti er vitnað til stjórnarsáttmálans, en ég hélt að þetta efni hefði fallið út úr þeim sáttmála áður en yfir lauk, en kannast við að hafa séð stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar í fyrri gerð þar sem þessi orð voru inni.
    Síðan segir, haft eftir hæstv. ráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, með leyfi forseta, um skipan þessarar nefndar. Þetta er orðrétt úr Þjóðviljanum, efnislega haft eftir hæstv. ráðherra: ,,Um skipan þessarar nefndar sagði Steingrímur að ef ætlunin væri að fulltrúar í nefndinni væru fulltrúar sinna flokka, þá þætti sér heldur ógeðfellt að ráðherra handveldi einhverja fulltrúa út úr Alþb.`` --- Ég tek það fram og skýt því hér inn í að ,,handveldi einhverja fulltrúa út úr Alþb.`` er innan gæsalappa. Og síðan orðrétt: ,,Ef nefndarmenn ættu að vera fulltrúar flokkanna ætti að fjalla um það á lýðræðislegan hátt innan flokkanna hver sá fulltrúi ætti að vera.``
    Þingflokkur Alþb. mótmælti í ríkisstjórn, eins og kom fram í málgagni Alþb., en í síðustu viku var síðan útvarpsviðtal við hæstv. menntmrh. þar sem hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Við erum ekki á móti því að það fari fram athuganir á svokallaðri hagkvæmni í þessu sambandi, en á
ríkisstjórnarfundi í morgun mótmælti ég vinnubrögðum iðnrh. í þessu máli undanfarna daga og lét þar koma fram þá afstöðu sem varð niðurstaða þingflokks okkar í gær.`` Og síðar í þessu sama viðtali, sem fréttamaður Ríkisútvarpsins, Atli Rúnar Halldórsson, tók, segir hæstv. menntmrh. --- og þá er fyrst spurning fréttamanns orðrétt: ,,Þú afskrifar þá ekkert að þið verðið með í því að þetta álver verði reist á endanum eins og stefnt er að.`` Og svar menntmrh. orðrétt: ,,Ég afskrifa erlenda stóriðju með aðild Alþb.``
    Það er annað atriði sem skiptir máli í þessu sambandi, virðulegur forseti, og það er spurningin um hraða verksins. Það kemur fram í viðtali í Þjóðviljanum við hæstv. menntmrh. að hann telur að athugun á þjóðhagslegri hagkvæmni komi til með að taka lengri tíma en hagkvæmniathugun fyrirtækjanna fjögurra. Og í Tímanum 17. nóv. sl. segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Ekki er ljóst hvenær hin nefndin`` --- ég skýt hér inn í, þá er átt við nefndina sem á að skila athugun á áhrifum á efnahagslífið --- ,,skilar af sér, en álit hennar mun koma seinna.``
    Að öllu þessu samanlögðu, virðulegur forseti, langar mig til þess að beina hér fyrirspurnum aðallega til iðnrh., en ég tek það fram að ég hef haft samband við hann auk hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. og mun jafnframt beina fyrirspurnum til þeirra. Fyrirspurnirnar eru svohljóðandi til hæstv. iðnrh.:
    1. Fylgir ríkisstjórnin þeirri stefnu sem mörkuð var af síðustu ríkisstjórn að hagkvæmnisathugun og öðrum undirbúningi vegna fyrirhugaðs álvers við Straumsvík verði hraðað þannig að ákvörðun um byggingu versins verði hægt að taka fyrir mitt næsta ár?
    2. Er stefnt að því að athugun á þjóðhagslegum áhrifum verði lokið um líkt leyti og hagkvæmnisathugunum fyrirtækjanna fjögurra?

    3. Mun ríkisstjórnin á þessu þingi leggja fram stjórnarfrv. sem heimilar samninga við þau fjögur fyrirtæki sem standa að athuguninni, enda verði niðurstöður hennar jákvæðar?
    4. Fylgir ríkisstjórnin þeirri stefnu að hvert þessara fjögurra fyrirtækja eigi fjórðungsaðild að nýja álverinu, ef gengið verður til samninga við þau?
    Til hæstv. forsrh. beini ég einnig fyrirspurn, svohljóðandi:
    Hvaða samningar voru gerðir milli stjórnarflokkanna um byggingu nýs álvers þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð? Hafa nýir fyrirvarar komið fram?
    Og til hæstv. fjmrh., sem jafnframt er formaður Alþb., eru þrjár fyrirspurnir:
    1. Hefur Alþb. gert ákveðna fyrirvara í þessu máli? Ef svo er, hverjir eru þeir fyrirvarar?
    2. Telur hæstv. fjmrh. að Alþb. geti fallist á þá eignaraðild sem gengið er út frá í undirbúningsvinnunni, verði niðurstöður hagkvæmnisathugananna jákvæðar?
    3. Var hæstv. fjmrh. og formanni Alþb. fyrir fram kunnugt um tilnefningu Baldurs Óskarssonar og Guðna Jóhannessonar í nefndir sem vinna að undirbúningi málsins af hálfu iðnrn.?
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá að hafa tekið þetta mál upp hér utan dagskrár. Ég hef haft samband við hæstv. ráðherra og kann þeim fyrir fram þakkir fyrir það að fallast á að koma hér og gefa svör við þessum fyrirspurnum.