Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég taka fram eftirfarandi: Enginn samningur um þetta mál hefur verið gerður á milli stjórnarflokkanna. Hins vegar eru, eins og kunnugt er, skiptar skoðanir innan og á milli stjórnarflokkanna um byggingu nýs álvers. Ég gaf þá yfirlýsingu við myndun ríkisstjórnarinnar að stjfrv. um byggingu álvers yrði að sjálfsögðu ekki flutt nema stjórnarflokkarnir allir samþykki það eins og venja er um stjórnarfrv. Ég lýsti því jafnframt yfir að verði samþykkt lög um nýtt álver á Alþingi, þá hlýt ég, þegar um svo viðamikið mál er að ræða, að líta svo á að orðinn sé nýr meiri hluti á þingi og hljóti stjórnarflokkarnir að taka slíkt til meðferðar.
    Sem sagt: Ekkert samkomulag hefur verið gert en hins vegar hefur verið litið á það sem sjálfsagt að þeirri könnun, sem hv. þm. sem iðnrh. hóf, verði lokið. Ég hef m.a. og margir fleiri, eins og ég veit að hv. þm. kannast við úr fyrri ríkisstjórn, lagt áherslu á að áður en slík ákvörðun er tekin sé óhjákvæmilegt að skoða vandlega þjóðhagsleg áhrif af byggingu álvers. Ég er því mjög sáttur við þá ákvörðun hæstv. iðnrh. að láta slíka athugun fara fram þannig að málið liggi fyrir í heild sinni þegar taka þarf endanlega ákvörðun.