Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda þessar umræður. Ég held að það sé alrangt hjá hv. 10. þm. Reykv. að það sé annaðhvort eða. Annaðhvort er hv. þm., fyrrv. hæstv. iðnrh., að spyrja til að vita eitthvað meira um málið eða hann er að spyrja til þess að skapa pólitískan óróa. Ég vil meina að hann hafi spurt til að vita meira, til þess að við þingmenn, sem ekki fylgjumst daglega með þessu máli, vitum líka meira. Þetta er stórmál. En ég held að honum hafi tekist á sama tíma að skapa ansi mikinn pólitískan óróa og ég skal útskýra hvers vegna ég fullyrði það.
    En ég vil lýsa samstöðu minni með hæstv. iðnrh. Ég held að hann hafi haldið vel á málinu. Það sem hann hefur gert er eðlilegt framhald af þeirri vinnu sem hæstv. fyrrv. iðnrh. setti í gang. Þannig að ég lýsi fullri samstöðu með því sem hann er að gera. Ég vil vara við þeim hugsunarhætti, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni, að umræður hér á Alþingi þurfi endilega að vera þannig upplýsandi fyrir fólk úti í heimi að þær hafi bein áhrif á niðurstöðu væntanlegra samninga, sem er að sjálfsögðu rangt að öðru leyti en því að það getur gefið þessum aðilum meira undir fótinn en æskilegt er, að við viljum endilega ná samkomulagi. Það gæti hugsanlega haft áhrif á niðurstöður samninga. En reynist hagkvæmt að stækka álverið eða byggja nýtt álver þá hef ég ekki trú á því að þeir sem fara með samningana á lokastigi láti hafa slík áhrif á sig. Ég treysti því fullkomlega að við eigum íslenska samningsaðila sem eru færir um að tala af fullu jafnræði við útlendinga.
    Það hefur komið ýmislegt athyglisvert fram því að hæstv. ráðherrarnir, sem hér hafa talað, hafa alls ekki verið sammála --- og svo mikið ósammála að það er upplýsandi fyrir Alþingi. Og ég vil þá, því að hæstv. fjmrh. er genginn í salinn, telja það afskaplega óheppilegt tal að dreifa athyglinni frá því máli sem er á dagskrá núna og er stórt atvinnuspursmál fyrir þjóðina. Það fer ekkert á milli mála. Við sjáum hvernig Hafnarfjörður og bæirnir í kring hafa byggst upp af miklum tekjum frá því álveri sem er fyrir. Hann hefði átt að gera önnur atvinnumál að umræðuefni, sagði hæstv. ráðherra, t.d. sjávarútveginn sem er í miklum vanda, frekar en byggingu nýs álvers sem ekki væri neitt sérstakt stórmál, alla vega ekki orðið stórmál. ( Fjmrh.: Frummælandi minntist á sjávarútveginn.) Já, frummælandi. Ég byrjaði bara að skrifa niður það sem ég heyrði hæstv. fjmrh. segja og að það væri ekki tímabært af þeim ástæðum að ræða þetta mál.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að hagkvæmnisathuganir eru ekki samningagerningur, eins og ég skrifaði orðrétt eftir honum. Þess vegna erum við ekkert að ræða um endanlega samninga. En það sem ég vil segja að sé pólitískt og hefur komið fram í þessum umræðum er þetta, og fer ég þá í rétta röð og byrja á hæstv. forsrh. sem er því miður --- eða kannski sem betur fer alltaf fjarstaddur þegar umræður

eiga sér stað um mál sem hann snerta. Hæstv. forsrh. svarar fyrstu spurningu sem til hans er beint, en hún hljóðar svo: Hvaða samningar voru gerðir milli stjórnmálaflokkanna um byggingu nýs álvers? o.s.frv. Og hann svarar: ,,Stjfrv. verður ekki flutt án samþykkis allra stjórnarflokkanna.`` Forsrh. segir að stjfrv. verði ekki flutt án samþykkis allra stjórnarflokkanna, en það er samkomulag um að ljúka þeirri könnun sem er í gangi sem er eðlilegt.
    Síðan kemur hæstv. iðnrh. í púltið og svarar þeim spurningum sem hv. fyrirspyrjandi leggur fyrir hann og þá segir hæstv. iðnrh.: Reynist niðurstaða hagkvæmniskönnunarinnar hagkvæm verður leitað heimilda Alþingis. Þá er komið út í það að hæstv. forsrh. segir að það verði ekki lagt fram frv. nema stjórnarflokkarnir séu allir sammála. Hæstv. iðnrh. segir: Það byggist á niðurstöðum könnunar hinna fjögurra erlendu aðila plús nefndarinnar að sjálfsögðu, sem hann skipaði, hvort málið verður rætt á Alþingi eða ekki. Þar er kominn upp ágreiningur á milli þessara ráðherra um málsmeðferð. Það á ekki að spyrja stjórnarflokkana hvort málið komi fyrir eða ekki fyrir ef niðurstaðan reynist hagkvæm heldur verður það lagt fyrir Alþingi. Og þá segir hæstv. fjmrh.: Verði frv. flutt og samþykkt á Alþingi verður litið á það sem nýjan meiri hluta á Alþingi. ( Fjmrh.: Það sagði hæstv. forsrh. líka.) Það sagði hæstv. fjmrh. hér í dag og þetta þýðir hótun um stjórnarslit, hæstv. fjmrh. --- Hvort er það ég eða hæstv. fjmrh. sem hefur orðið? ( Forseti: Báðir.) Ég verð þá að bíða eftir því að virðulegur forseti gefi mér orðið á ný. ( Forseti: Þingmaðurinn hefur orðið en ekki til einkaviðræðna við hæstv. fjmrh.) Einkaviðræður hafa ekki farið fram af minni hálfu. Ég er hér að vitna í ræðu sem hæstv. fjmrh. flutti fyrr á þessum fundi og í þeirri ræðu, eins og ég hef bent á með tilvitnunum í hans ummæli, hefur hann hótað stjórnarslitum ef sú málsmeðferð verður viðhöfð sem iðnrh. kynnti. Ef niðurstöður hagkvæmnikönnunar þeirra erlendu fyrirtækja sem eru nú að kanna hvort hér verður talið hagkvæmt að byggja álver eða ekki verða lagðar fyrir Alþingi, þá lítur Alþb. þannig á samkvæmt ummælum formanns flokksins að þá hafi myndast nýr meiri hluti á Alþingi verði það samþykkt og þar með er um stjórnarslit að ræða. Þetta fer ekkert á milli mála. Ég held að hv. 1. þm. Reykv. hafi náð
markmiði sínu með því að upplýsa hv. þm. um hvernig málin ganga fyrir sig, hvar málin standa, bæði efnislega og pólitískt, þannig að ég held að hann geti verið ánægður með þessa dags vinnu sína.
    Ég hef ekki mikið meira að segja annað en að það væri ákaflega æskilegt, hæstv. iðnrh., ef þessi nefnd virðulegra fjögurra útlendra stórfyrirtækja kæmist sem fyrst að niðurstöðu, og niðurstaðan verður vonandi jákvæð svo að hæstv. iðnrh. geti þá staðið við það sem hann sagði, að verði niðurstaðan jákvæð mun Alþingi fá að fjalla um það og taka ákvörðun. Þar með er ég hæstv. iðnrh. alveg sammála, að Alþb., kommúnistarnir á Íslandi, ráði ekki ferðinni í pólitík á Íslandi þrátt fyrir stjórnarþátttöku sína, þeir ráði því

ekki hvort hér ríkir velmegun eða ekki velmegun, þeir ráði því ekki við hvað fólk starfar eða starfar ekki á Íslandi, að þeir hafi ekkert með það að gera að skapa sér þann jarðveg sem þeir þrífast best í, fátækt og eymd. Ég tel að það sé góður árangur og mikill árangur af þessari fsp.
    Þá vil ég líka þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið hv. 12. þm. Reykv. og var dreift fyrr á fundinum.