Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil að gefnu tilefni taka það fram að ég tel alls ekki ástæðulaust að ræða þetta mál hér á þingi þótt vel megi vera að seinni tími hefði verið hentugri.
    Ég vil næst víkja að því sem hér hefur verið talað um tímasetningar og flutning stjórnarfrumvarpa og fleira af því tagi sem komið hefur fram í máli margra. Það eru ekki mikil tíðindi að það þurfi samstöðu stjórnarflokka um stjfrv., og þarf hvorki að vitna til skjala eða fyrri yfirlýsinga í því máli. Það er alkunna. Hitt er annað mál að ég tel það fullkominn óþarfa að menn séu unnvörpum að taka afstöðu hér til óframkominna frumvarpa eða draga ályktanir af athugunum sem enn hafa ekki skilað niðurstöðu. Ég legg til, virðulegi forseti, að við látum þetta allt saman bíða síns tíma þótt ég taki aftur fram að þessi umræða hafi á sinn hátt verið þörf. Um tíma fyrir þessi væntanlegu mál, sem vonandi koma í fyllingu tímans á dagskrá þingsins, ætla ég engu að spá öðru en því, sem ég hef þegar greint frá, að ég tel að næsta ár muni vel duga til að ljúka þessum verkum.
    Nokkur orð um orkuverðið. Hv. 1. þm. Norðurl. v. vék að því að auðvitað væri ekki unnt að ræða orkuverðið fyrr en fyrir lægju áætlanir Landsvirkjunar um jaðarkostnaðinn við þá orku sem afla þarf vegna þessara framkvæmda og þá að teknu tilliti til ákvæða 13. gr. laga um Landsvirkjun sem segir einfaldlega að orkusala og framleiðsla fyrir stóriðju megi ekki valda verðhækkun til almennings. Auðvitað verður þetta virt og helst þarf það að vera þannig að þetta lækki orkuverð til almennings þegar nógu langt er litið fram á veginn. En bæði af þessari ástæðu og eins af hinni, sem liggur í augum uppi, er engan veginn tímabært að nefna hér tölur um orkuverð þótt ég skilji á vissan hátt þau orð sem hér féllu af hálfu hv. 2. þm. Austurl. og hv. 12. þm. Reykv. Það er rétt að í þessum svörum er ekki talað um tölur í þessu sambandi. En ég vil taka það fram að auðvitað verður stefnt að hagkvæmari orkuverðssamningi fyrir Íslands hönd en Ísal nýtur nú.
    Að lokum nokkur orð um mengunarvarnakröfurnar. Það segir í því svari sem ég hef lagt fram í þinginu í dag að viðræður séu hafnar við heilbrrn. og Hollustuvernd um þessar kröfur. Ég vil taka fram að slíkar viðræður geta ekki farið fram af nákvæmni eða viti eða til verðs og kostnaðar fyrr en búið er að skilgreina þann framleiðsluferil sem nota skal. Nú hefur það verið gert, að mér skilst, af þeim sem vinna að hagkvæmniathugunum, en það er auðvitað alveg hárrétt hjá hv. 12. þm. Reykv. að fyrr en það liggur fyrir er ekki hægt að meta þetta hvað þá að greina í efnafræðilegum skilningi, eins og skilja mátti af spurningu hv. 12. þm. Reykv. að hún vildi fá, og þegar það liggur fyrir verður það svo sannarlega gert opinskátt og nákvæmlega, en fyrr er það ekki hægt. Um þetta þurfa að fara fram viðræður. Þess vegna þarf tengiliði af Íslands hálfu við þessa hagkvæmniathugun. Það væri ábyrgðarlaust að standa öðruvísi að því máli.

    Að lokum þetta: Mér finnst það ekki brúkleg röksemd, sem hér hefur komið fram í máli nokkurra hv. þm., að menn eigi ekki að vera að ræða svona nýja kosti í framleiðsluaukningu í atvinnulífinu af því að gömlu greinarnar standi svo illa. Mér finnst þetta satt að segja vera hreint öfugmæli. Mér finnst nánast að það sé ábyrgðarhluti að kanna ekki til hlítar þá kosti sem nú kunna að gefast á því að auka við framleiðslumátt okkar þjóðfélags þegar svo stendur á, sem nú háttar, að erfiðlega gengur í því sem fyrir er. Við þær aðstæður, sem nú blasa við á þjóðarbúinu, ber okkur skylda til að kanna þetta mál til hlítar. Með réttum rökum og á réttum tíma fram borið veit ég að þingmenn munu taka afstöðu til þess máls, ekki á grundvelli einhverra kredda eða kennisetninga heldur í anda raunsæis og mats á því hvað þjóðinni er fyrir bestu.