Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Það líður senn að lokum þessarar umræðu, trúi ég, þótt ég sjái að þingmenn séu enn að biðja um orðið. Þessar umræður hafa að mínu mati verið gagnlegar og skýrt rækilega hver staða þessa vandmeðfarna máls er.
    Fyrst ætti ég kannski örstutt að víkja máli mínu til hv. 2. þm. Austurl. þegar hann sagði að grunnurinn hefði hrunið undan iðnaðinum í landinu á meðan ég sat í ráðuneyti iðnaðarmála. Þetta er ræða sem hv. þm. flytur aftur og aftur. Við stjórnarslit síðustu ríkisstjórnar kom skýrt fram að Sjálfstfl. undi því ekki að gripið væri eingöngu til sértækra aðgerða en ekki almennra aðgerða fyrst og fremst og aðallega vegna þess að þær bráðabirgðaaðgerðir sem þá voru að sjá dagsins ljós hjá Alþfl. og Framsfl. dugðu iðnaðinum ekki. Þetta veit hv. þm. og það er kannski óhætt að bæta því við að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir tveimur mánuðum áður en hann gekk til samstarfs við Alþfl. og Framsfl. að ytri aðstæður væru afskaplega hagstæðar, mjög hagstæðar orðaði hann það. Það var ekki á þessum mönnum að finna að þeir tryðu því að gengið væri rangt skráð. Það er fyrst núna sem forsrh. er að viðurkenna slíkt. Ég vísa því á bug þegar hv. þm. orðar þetta með þeim hætti sem hann gerði. Það er hann sem styður þá stefnu sem er iðnaðinum mjög öndverð nú um stundir. Það er hann, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem þess vegna ber ábyrgð á því hvað er að gerast í íslenskum iðnaði í dag en ekki einhverjir fyrri ráðherrar ef hann heldur það. Þetta höfum við talað um áður.
    Ég ætla enn fremur að láta það koma fram að ég hef ekki hvíslað neinu raforkuverði að einum eða neinum. Það hefur komið skýrt fram hjá hæstv. ráðherra hvernig að því máli hefur verið staðið.
    Í þriðja lagi vil ég segja frá því til upplýsingar varðandi kísilmálmverksmiðjuna að það mál var afhent markaðsskrifstofunni til áframhaldandi vinnu. Því miður, og ég tek undir það með hv. þm., gekk það mál ekki fram. Við erum þó væntanlega samherjar um að reyna að koma á öflugum iðnaði sem víðast á landinu þar sem það á við þannig að við eigum þar þó a.m.k. sameiginlega drauma á sumum sviðum þó ekki séu þau mörg.
    Það sem liggur fyrir eftir þessa umræðu, hæstv. forseti, er að enginn efnislegur samningur var gerður við stjórnarskiptin. Það eina sem gerðist, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., er að hann gaf yfirlýsingu þess efnis að ef meiri háttar frv. yrði samþykkt gegn vilja eins stjórnarflokksins hefði skapast nýr meiri hluti og stjórnin mundi segja af sér. Þetta er yfirlýsingin. Hún gildir ekkert fremur um þetta mál en önnur mál. Það liggur, eins og hann sagði sjálfur, enginn efnislegur samningur fyrir um þetta mál sérstaklega þrátt fyrir það sem formaður þingflokks Alþb. hefur haldið fram í fjölmiðlum. Þetta er athygli vert.
    Í öðru lagi: Hæstv. fjmrh. sem er formaður Alþb. vissi um það fyrir fram hverjir yrðu tilnefndir í nefndir hæstv. iðnrh. Honum var kunnugt um það

þannig að auðvitað ber Alþb. og formaður þess ábyrgð á áframhaldandi starfi. Þetta er gert þrátt fyrir orð samráðherra hæstv. fjmrh., Steingríms J. Sigfússonar, þar sem hann segir að þetta sé ólýðræðisleg aðferð. Það kemur samt í ljós að hæstv. fjmrh. vissi af þessari tilnefningu fyrir fram. Þetta er ákaflega athyglisverð staðreynd sem hér fæst í fyrsta skiptið upplýst.
    Hins vegar er það rétt, sem hér hefur verið bent á margoft, að hæstv. ráðherra, þó að hann talaði ekki mjög skýrt í sínu máli, virtist vera sammála þeim öðrum hv. þm. Alþb., sem um þessi mál hafa fjallað, að Alþb. mundi ekki standa að samvinnu við útlendinga um stóriðju hér á landi ef útlendingarnir eiga meiri hluta. Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að annaðhvort er ekkert að marka yfirlýsingar hv. alþýðubandalagsþingmanna í þessu máli, ekkert frekar en í ýmsum öðrum málum --- það má rifja upp fjölda mála reyndar í því sambandi --- eða þeir eru vísvitandi að blekkja bæði erlenda viðsemjendur og sína samstjórnarmenn í núverandi ríkisstjórn. Ég held að þeir séu tilbúnir að hverfa frá sínum sjónarmiðum í þessu máli alveg eins og í matarskattinum, í varnarmálunum og í hinum og þessum öðrum málum sem ég hirði ekki um að tíunda.
    Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þau sjónarmið sem komu fram hjá hæstv. iðnrh., ekki síst stuðningi eins og birtist í orðum hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Ég tek undir það heils hugar og það hefur alltaf verið í þessu máli grundvallaratriði að auðvitað ber okkur að vinna að mengunar- og óhollustumálum eins og okkur sæmir og best gerist meðal annarra þjóða. Það hefur ávallt verið undirstöðuatriði. Ég einnig tek undir það með hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni að erlendu aðilarnir verða að geta tekið mark á þeim aðilum sem ræða við þá af og til í nafni iðnrh.
    Það er, hæstv. forseti, og það hefur komið mjög skýrt fram í umræðum í dag, meiri hluti fyrir því að halda áfram óbreyttri stefnu í þessu máli. Það liggur fyrir. Og ég vil undirstrika það sem kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni. ( Fjmrh.: Matthías Bjarnason hefur ekki talað.) Við þurfum ekki að tala allir, hver einn og einasti maður. Og það skal ekki hæstv. fjmrh. halda að menn komi hér upp og tali út og suður eins og þegar talsmenn Alþb.
taka til máls þar sem einn segir eitt og hinn segir annað.
    Það er eitt sammerkt með öllum ræðumönnum sem tala af hálfu Alþb., að það er ekki orð að marka þá þegar þeir komast til valda. (Fjmrh.: Lestu bara viðtalið.) Það eiga þeir sameiginlegt. Ég er fyllilega læs og þarf ekkert að benda mér á hvernig á að lesa. Þótt hæstv. ráðherra sé prófessor og telji sig umkominn að kenna einhverjum þarf hann ekki að kenna mér að lesa. Ég er það læs að ég veit að ekki er orð að marka alþýðubandalagsráðherrana og gildir það sama væntanlega um ræður þeirra hér í dag og ýmsar aðrar ræður sem þeir hafa flutt, a.m.k. ef

maður ber saman þær sem þeir fluttu fyrir stjórnarskiptin og síðan hinar, sem fluttar eru eftir stjórnarskipti. (Fjmrh.: Þetta er greinilega viðkvæmt með Matthías Bjarnason.) Nema síður sé.
    Það sem skiptir mestu máli, og ég er að koma að því, er það sem kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni --- ef ég fæ frið til þess að halda áfram fyrir viðkvæmni hæstv. ráðherra --- er þetta: Það mátti skilja það skýrt af ummælum hæstv. iðnrh. að Alþingi fengi að fjalla um þetta mál. Þá kemur það auðvitað í ljós í fyllingu tímans hver niðurstaðan verður.
    En ég vil, hæstv. forseti, að endingu þakka bæði hæstv. forseta og eins hæstv. ráðherrum fyrir þeirra svör, þar á meðal hæstv. fjmrh. þótt svör hans hafi verið eins og þau voru og byggðust kannski meira á öðru en beinum svörum. Ég vil þakka þeim fyrir að veita Alþingi Íslendinga og íslensku þjóðinni upplýsingar um stöðu þessa vandmeðfarna máls á þessari stundu.