Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það mætti halda þessari umræðu áfram á öðrum fundi, efnin eru nóg til að ræða. Hér erum við að fjalla um gamlan draug, arf frá fyrri ríkisstjórn. Við nýja stjórnarmyndun 28. sept. sl. var verið að taka á þeim vanda sem við blasir í íslensku atvinnulífi sem einnig var arfur frá fyrrv. ríkisstjórn. Hér hafa þingmenn og hæstv. viðskrh. verið að minna á nauðsyn samfellu í stórum málum. Hún getur haft þýðingu, rétt er það. En hún er ekki meiri en um er samið og samstaða er um hverju sinni hjá þeim sem taka á í landsstjórninni.
    Það er ekkert sjálfsagt að stefnu af því tagi sem Sjálfstfl. knúði hér fram á sínum tíma og sem Alþfl. átti hlut að að leiða hér inn á sjöunda áratugnum verði fram haldið í landinu á hverju sem gengur. Menn hljóta að meta hverju verði slíkt er keypt. Það liggur fyrir að engin ákvörðun hefur verið tekin um að fara út í samninga um álver í Straumsvík. Þetta vita auðvitað þeir sem stóðu að samningi við fyrrv. hæstv. iðnrh. og undirritaðir voru 4. júlí. Það eitt var ákveðið að þeirri hagkvæmniathugun yrði lokið. Alþb. á engan hlut að framhaldi þess máls. Það segi ég m.a. vegna orða hv. 12. þm. Reykv. hér. Alþb. hefur enga fulltrúa tilnefnt til þess máls og ber enga ábyrgð á því sem hæstv. iðnrh. kann að gera í sambandi við að leiða þessa hagkvæmniathugun til lykta.
    Ég ítreka það, sem ég hef sagt við hæstv. viðskrh., að hann ætti að nota krafta sína til annarra þátta en þeirra að vera að rembast við að koma fótum undir erlenda stóriðju í Straumsvík sem er algerlega andstætt stefnumiðum og samþykktum eins þeirra flokka sem hann á samstarf við í ríkisstjórn. Það eru næg efni til að reisa íslenskt atvinnulíf úr rústum, einnig með nýjum atvinnugreinum og þróunarmöguleikum öðrum en þeim sem kenndir eru við áliðju útlendinga.