Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Með bréfi dags. 11. þ.m. hefur sérstakur saksóknari í svonefndu Hafskipsmáli óskað heimildar hv. Ed. Alþingis til þess að birta mér ákæru. Ákæru vegna meintrar vanrækslu í starfi mínu sem bankaráðsmaður í Útvegsbanka Íslands.
    Svo sem kunnugt er tók ég fyrst sæti í bankaráði Útvegsbanka Íslands þann 1. jan. 1985. Í starfi mínu sem bankaráðsmaður lagði ég mig fram um ásamt félögum mínum í bankaráðinu að gæta hagsmuna Útvegsbanka Íslands í hvívetna.
    Sérstakur saksóknari hefur þegar birt fjórum bankaráðsmönnum ákæru vegna fyrrgreinds máls. Ég hlýt því að mæla með því að hv. Ed. heimili sérstökum saksóknara að birta mér sams konar ákæru.
    Harma ber að mál þetta skuli bera að með þessum hætti, að hv. deild skuli þurfa að taka þetta erindi fyrir. Þannig hefði ekki þurft að vera.
    Hæstv. forseti. Ég tel mig saklausan af ákæru þessari, en er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að virða beri óskir sérstaks saksóknara, enda ber ég fyllsta traust til dómstólanna. Í ljósi þessa mæli ég með því að umbeðin beiðni verði veitt.