Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga sem er 103. mál þessa þings.
    Frv. til lánsfjárlaga er nú eins og ávallt áður mjög mótað af því fjárlagafrv. sem hér hefur verið lagt fram á hæstv. Alþingi. Og eins og virðulegum alþm. er kunnugt mótast forsendur frv. til fjárlaga af því að ríkisbúskapurinn skili afgangi á næsta ári sem nemur eigi lægri upphæð en 1,2 milljörðum kr. Það yrðu veruleg umskipti frá því sem stefnir í á yfirstandandi ári. Ég hef á undanförnum vikum, allt frá því að Alþingi kom saman, gert Alþingi grein fyrir nýjustu horfum um afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Þetta var gert bæði í sérstakri greinargerð sem ég kynnti á Alþingi í umræðu utan dagskrár í Sþ. og enn fremur í framsöguræðu minni með fjárlagafrv. E.t.v. má orða það svo að í tilefni dagsins að ég mæli nú fyrir frv. til lánsfjárlaga hef ég einnig því miður sams konar boðskap að flytja eins og ég flutti þá.
    Boðskapurinn við fyrri ræðurnar tvær var að hallinn hefði hækkað um 1 milljarð kr. við hverja ræðu. Gamansamir menn hafa sagt í morgun að líklegast ætti ég ekki að halda fleiri ræður á næstu mánuðum til þess að þessi þróun yrði stöðvuð. Hins vegar er það nú því miður svo að ræður mínar eru ekki orsakalögmál í þessum efnum, heldur sú þróun sem er að verða í okkar þjóðarbúskap og sá mikli samdráttur sem heldur áfram jafnt og þétt í okkar þjóðfélagi.
    Ég flyt því Alþingi þau tíðindi í dag að nánari greining á októbertölum sem ég kynnti lauslega við 1. umr. um fjárlagafrv. leiðir í ljós að líkur eru nú á því að rekstrarhalli ríkissjóðs á árinu 1988 geti orðið á bilinu 4,5--5 milljarðar kr.
    Á undanförnum árum hefur það löngum verið svo í okkar þjóðfélagi að tekjur ríkissjóðs á síðustu þremur mánuðum ársins hafa að stórum hluta komið til móts við tekjutap á öðrum hluta ársins. Sá mikli samdráttur sem nú er að verða í okkar þjóðfélagi virðist hins vegar benda til þess að svo verði ekki í ár. Ég tel þess vegna skyldu mína að greina hæstv. Alþingi frá því nú þegar í dag að niðurstaða athugana í fjmrn. hefur leitt þetta í ljós. Í grófum dráttum má segja að samdráttur í tekjum af söluskatti nemi 1 milljarði 360 millj. kr., samdráttur í tekjum af aðflutningsgjöldum nemi 640 millj. kr. og hærri vaxtagreiðslur nemi 700 millj. kr. Samdrátturinn á tekjuhlið í samanburði við fyrri áætlanir er nú því alls orðinn um 2 milljarðar 260 millj. kr. Í októbermánuði einum var tekjuhallinn 550 millj. kr. á meðan áætlanir höfðu gert ráð fyrir 400 millj. kr. tekjuafgangi. Þessar tölur sýna það að niðurstaðan af ríkisfjármálunum á árinu 1988 verður mun verri en svartsýnar spár, jafnvel fyrir fáeinum vikum, hvað þá heldur fáeinum mánuðum, gáfu til kynna.
    Ríkisendurskoðun hefur samkvæmt beiðni 1. þm. Reykn. framkvæmt sérstaka athugun á þróun mála fyrstu níu mánuði ársins og mun væntanlega innan tíðar birta Alþingi þá niðurstöðu og jafnframt mat Ríkisendurskoðunar á því hvað þróunin fyrstu níu

mánuði ársins gefi til kynna varðandi þá þrjá mánuði sem eftir eru og jafnframt heildarútkomu ársins. Þessi niðurstaða sýnir hve brýnt er að snúa við á þessari braut, stefna frá þessari braut hallabúskapar og skuldasöfnunar yfir í það að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum og fara að greiða niður þær miklu skuldir sem hallarekstur undanfarinna ára hefur haft í för með sér. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa það í huga að slík niðurstaða í ríkisfjármálum, tekjuafgangur í stað stórkostlegs halla, er ein meginforsendan fyrir því að það takist að ná fram verulegri lækkun raunvaxta í okkar hagkerfi. Ég mun síðar í minni framsögu víkja nánar að þeirri nauðsyn að ná raunvöxtunum niður og þeim aðferðum sem nauðsynlegt kann að vera að beita í þeim efnum.
    Lánsfjárráðstöfun opinberra aðila á árinu 1989 er áformuð um 6,4 milljarðar kr. Í samanburði við endurskoðaða áætlun árið 1988 lækkar lánsfjárráðstöfunin um 4,2 milljarða. Það er einkum þrennt sem skýrir breytinguna.
    Í fyrsta lagi batnar afkoma ríkissjóðs verulega eða úr tekjuhalla að fjárhæð um 4,5 milljarðar kr., jafnvel um 5 milljarðar kr., í tekjuafgang að fjárhæð a.m.k. 1,2 milljarðar kr. ef þau áform sem lýst er í fjárlagafrv. ná fram að ganga. ( EKJ: Gott að hafa efin með.) Eins og hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni er ljóst hef ég alltaf haft efin með. Ég er ekki einn þeirra manna sem telja sig hafa fundið patent á það hvernig fjármálum næsta árs verður fyrir komið í reynd og hef lýst því yfir hvað eftir annað að það fjárlagafrv. sem ég hef lagt fram hér á Alþingi og þær aðrar aðgerðir sem við stöndum að eru tilraun til þess að ná árangri í þeim efnum. Mér er kunnugt um það að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur aðrar skoðanir á samhengi ríkisfjármála og verðbólguþróunar í landinu en velflestir aðrir þm., þar með taldir hans eigin flokksmenn, en ég hef áður lýst því yfir hér á Alþingi að ég virði þær skoðanir að mörgu leyti og er reiðubúinn, eins og ég mun koma að síðar í minni framsöguræðu, að stuðla að breytingum varðandi spariskírteini ríkissjóðs sem
ættu að geta tryggt það að ríkissjóður í heild, í æ ríkara mæli en verið hefur til þessa, mundi eingöngu sækja fjármögnun sína til innlendrar spariskírteinaútgáfu. Í þeim efnum er kannski styttra á milli mín og hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar en hans og ýmissa annarra í hans flokki þó ég ætli ekki að blanda mér inn í þær umræður hér.
    Í öðru lagi er skýring á þeim breytingum sem ég var hér að lýsa sú að þau gleðilegu tíðindi birtast okkur í þessu frv. að lántaka vegna framkvæmda við Flugstöð Leifs Eiríkssonar er verulega lægri á árinu 1989 en á yfirstandandi ári. Vonandi verður næsta ár það síðasta sem þurfi að leggja fyrir Alþingi frv. um nýjar lántökur vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ég hef þó vissar efasemdir um að það geti tekist og vara hv. Alþingi við því að þær ákvarðanir um byggingar sem voru teknar þegar sú flugstöð var reist og meðferð þeirrar byggingar mun að öllum líkindum, því miður, hafa það í för með sér að Alþingi og

stjórnvöld munu um langa framtíð þurfa að glíma við hallarekstur og skuldasúpu þess fyrirtækis.
    Í þriðja lagi er ekki gert ráð fyrir milligöngu ríkissjóðs um erlendar lántökur fyrir atvinnufyrirtæki á næsta ári.
    Af þeim 6,4 milljörðum kr. sem opinberir aðilar munu afla með lánum á næsta ári verða 4,7 milljarðar teknir að láni innan lands, en einungis 1,5 milljarðar erlendis. Áætlaðar endurgreiðslur af erlendum skuldum nema 3,1 milljarði kr. Afborganir umfram erlendar lántökur opinberra aðila eru því áætlaðar 1,6 milljarðar. Þetta yrðu veruleg umskipti frá yfirstandandi ári þegar erlendar lántökur opinberra aðila eru taldar aukast um 3,5 milljarða kr.
    Erlendar skuldir þjóðarinnar til langs tíma eru taldar aukast um 12% frá árinu 1988. Á sama tíma dregst landsframleiðslan saman um 1%. Þrátt fyrir þetta hækkar hlutfall langra erlendra lána af landsframleiðslu aðeins um 1,5% eða úr 40,6% á árinu 1987 í 42,1% á árinu 1988. Lítil hækkun hlutfallsins milli ára skýrist af hækkandi raungengi íslensku krónunnar á yfirstandandi ári.
    Forsendur lánsfjáráætlunar 1989 gera ráð fyrir 7% hækkun á meðalgengi erlendra gjaldmiðla og 5,3% aukningu erlendra lána. Skuldahlutfallið í árslok 1989 er áætlað 44% af vergri landsframleiðslu ársins. Er þar tekið tillit til 1,6% samdráttar í vergri landsframleiðslu næsta árs, en á móti vegur nokkur hækkun raungengis íslensku krónunnar.
    Greiðslur þjóðarbúsins af löngum erlendum lánum eru áætlaðar 17 milljarðar 160 millj. kr. á árinu 1989. Þar af eru afborganir 7 milljarðar 910 millj. og vextir 9 milljarðar 250 millj. kr. Hreinar erlendar lántökur til langs tíma nema því um 6 milljörðum 555 millj. kr. Greiðslubyrðin af erlendum lánum í hlutfalli við útflutningstekjur af vörum og þjónustu er talin verða um 16,5% á árinu 1988 og aukast í 18% á árinu 1989. Greiðslubyrði erlendra lána var hæst á árinu 1984 24,3%, en hefur lækkað síðan bæði vegna aukins útflutnings og vaxtalækkunar á erlendum lánamörkuðum. Hins vegar er ljóst að ef á næstu árum verður haldið áfram á sömu braut og hefur ráðið ferðinni á undanförnum árum getur þetta hlutfall haldið áfram að hækka og lítið þarf út af að bera í útflutningsmálum okkar Íslendinga eða í vaxtaþróun á erlendum mörkuðum til þess að hér yrði um allverulegar byrðar fyrir þjóðina að ræða.
    Meðalvextir erlendra lána, sem voru 10--12% á árunum 1980--1984, hafa farið lækkandi og eru áætlaðir um 7,7% á árinu 1988 og 8% á árinu 1989. Vaxtabyrði erlendra lána er áætluð um 8,6% af útflutningstekjum á árinu 1988 og um 9,7% á árinu 1989.
    Samkvæmt frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989 eru heildarlántökur opinberra aðila, opinberra fjárfestingarlánasjóða og atvinnufyrirtækja áætlaðar um 30 milljarðar 85 millj. kr. samanborið við 21 1 / 2 milljarð samkvæmt lánsfjárlögum yfirstandandi árs. Hækkunin stafar einkum af auknum kaupum lífeyrissjóða á skuldabréfum byggingarsjóðanna og

nýjum lántökum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, Landsvirkjunar og Framkvæmdasjóðs Íslands. Ráðgert er að afla 15 milljarða 620 millj. kr. innan lands á árinu 1989 og 14 milljarða 465 millj. kr. með erlendum lánum.
    Af innlendum lántökum eru skuldabréf lífeyrissjóða veigamest eða um 9,4 milljarðar kr. Fjáröflun með sölu spariskírteina er áætluð 4,7 milljarðar kr. og önnur innlend lántaka er áætluð 1 1 / 2 milljarður kr. Hlutdeild innlendrar fjármögnunar í heildarlántökum á lánsfjáráætlun er um 52% samanborið við 56% á lánsfjárlögum 1988. Það hlutfall verður í reynd verulega lægra eða 42% þar sem erlendar lántökur árið 1988 hafa farið allnokkuð fram úr forsendum lánsfjárlaga 1988 og er það auðvitað eitt af stóru vandamálunum sem við er að glíma í hagstjórninni hér á landi hvað erlendar lántökur hafa farið úr böndunum á yfirstandandi ári, sérstaklega hjá bankakerfinu og hjá fyrirtækjunum í landinu, þrátt fyrir samþykktir Alþingis í þeim efnum. Ég tel það vera eitt af brýnustu verkefnunum í hagstjórninni á næsta ári að tryggja að sú aðhaldsstefna í erlendum lántökum sem mörkuð er í þessu frv. haldi einnig varðandi aðra aðila í þjóðfélaginu, bæði einkaaðilana, önnur opinber fyrirtæki og atvinnulífið í heild, því það þjónar litlum tilgangi að setja
þröngar skorður við erlendum lántökum hjá ríkinu ef erlendar lántökur einkaaðila, atvinnulífs og fyrirtækja halda áfram að vaxa stórum og hröðum skrefum.
    Áform um innlenda lánsfjáröflun á árinu 1989 eru 3,4 milljörðum kr. hærri en gert var ráð fyrir í lánsfjárlögum 1988 eða um 28%. Hækkunin skýrist nær alfarið af umsömdum kaupum lífeyrissjóðanna á skuldabréfum frá byggingarsjóðunum. Reiknað er með að lífeyrissjóðirnir verji um 55% af ráðstöfunarfé sínu eða 9,3 milljörðum kr. til kaupa á skuldabréfum húsbyggingarsjóðanna.
    Það er rétt að vekja athygli á því að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna hefur aukist verulega að raungildi á undanförnum árum og er áætlað 16,9 milljarðar kr. á árinu 1989 sem er fast að helmingur áætlaðs heildarsparnaðar í landinu. Hækkun á ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á milli áranna 1988 og 1989, sem er um 33%, skýrist einkum af vaxandi hlutdeild verðtryggingar í eignum sjóðanna, hækkandi raunvöxtum og breiðari iðgjaldsstofni. Lífeyrissjóðirnir eru nú orðnir ein höfuðuppspretta fjármagnsins í landinu. Það er þess vegna mjög mikilvægt að eigendur og stjórnendur þessara sjóða geri sér skýra grein fyrir því mikilvæga hlutverki sem lífeyrissjóðirnir gegna í hagstjórninni í landinu og í tilraun þjóðarinnar allrar til að hverfa af braut erlendrar skuldasöfnunar yfir í vaxandi innlendan sparnað og fjármögnun á því sviði, fjármögnun sem er fyrst og fremst beint í heilbrigða uppbyggingu og eðlilegan búskap hins opinbera en ekki í eyðslulán sem leiða til vaxandi viðskiptahalla og erfiðleika í framtíðinni.
    Ríkisstjórnin mun í samræmi við málefnasamning

sinn og í viðræðum við lífeyrissjóðina beita sér fyrir viðræðum um það hvaða breytingum er hægt að koma fram í lífeyriskerfinu í landinu, bæði til þess að samræma kjör og tryggja þann almenna árangur sem ég lýsti hér áðan. En það er hins vegar einnig nauðsynlegt að taka til rækilegrar skoðunar hvernig best verði stuðlað að því að fjármagn lífeyrissjóðanna nýtist til arðbærrar fjárfestingar, jafnframt því sem hagur ellilífeyrisþega framtíðarinnar er tryggður.
    Óumsamin innlend lánsfjáröflun á árinu 1989 nemur 6,3 milljörðum kr. eða 40% af heild. Er það aðeins hærri fjárhæð en í lánsfjárlögum 1988. Af þeirri fjárhæð er stærstur hlutinn áformuð sala á spariskírteinum ríkissjóðs eða 4,7 milljarðar kr.
    Ég vil vekja athygli á því að sölu spariskírteina ríkissjóðs verður ávallt að skoða í samhengi við áætlaða innlausn eldri skírteina, en mikið af því fé skilar sér aftur í nýjum bréfum. Innlausn eldri skírteina er áætluð 4,1 milljarður á árinu 1989 og nemur hrein fjárþörf ríkissjóðs af sölu spariskírteina því einungis 600 millj. kr. samanborið við 1 milljarð 460 millj. kr. á árinu 1988. Þessi mikla lækkun á hreinni fjárþörf ríkissjóðs af sölu spariskírteina endurspeglar mikla lækkun á heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs og á þess vegna að stuðla að varanlegri lækkun vaxta.
    Önnur óumsamin lánsfjáröflun á innlendum lánsfjármarkaði á árinu 1989 nemur 1,5 milljörðum kr., en var um 3 milljarðar í lánsfjárlögum 1988. Því er ljóst að ekki verða lagðar auknar byrðar á innlenda lánsfjármarkaðinn á næsta ári nema síður sé. Í því sambandi má m.a. benda á verulega aukið óbundið ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna sem ég vék að áðan. Það aukna svigrúm á að auðvelda að halda á innstreymi erlends fjármagns á þann veg að aukið aðhald sé veitt í þeim efnum, en það aukna aðhald er nauðsynlegt á næsta ári og er ein af forsendum þess frv. sem hér er mælt fyrir.
    Ég vék að því áðan, þegar ég átti í upphafi ræðu minnar í orðaskiptum, vinsamlegum þó, við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, að ég væri sammála honum um það að sala spariskírteina ríkissjóðs ætti að geta gegnt mjög veigamiklu hlutverki í fjármögnun ríkisins og almennri hagstjórn í landinu. Ég tel það þess vegna vera eitt af brýnustu verkefnum næsta árs og næstu ára að efla markaðinn fyrir spariskírteini ríkissjóðs og tryggja skilning almennings á því að það sparnaðarform er öruggasta og þá um leið arðvænlegasta sparnaðarformið sem bæði einstaklingarnir og þjóðarheildin eiga völ á. Til þess að ná þessum árangri er mikilvægt að þróa áfram sölukerfi spariskírteina ríkissjóðs. Á þessu ári voru stigin ákveðin skref í þá átt með samningum ríkissjóðs við viðskiptabanka og verðbréfasjóði. Þá samninga þarf að endurnýja en jafnframt skoða reynslu þessa árs til að geta enn aukið við nýjungum á þessu sviði sem tryggja að almenningi í landinu detti fyrst í hug spariskírteini ríkissjóðs þegar hver og einn einstaklingur eða fjölskylda hyggur að sparnaði og varanlegum og öruggum sparnaðarformum.

    Í þessum efnum tel ég koma til greina að efna til víðtæks samstarfs, sem ég mun koma að síðar, í því formi að kynna almenningi í landinu sérstaklega hvað raunávöxtun þessara spariskírteina hefur í raun og veru í för með sér í ávinning fyrir eigendur þeirra og hvers vegna spariskírteini ríkissjóðs eru í öllum nágrannalöndum okkar talinn einn dýrmætasti þátturinn sem almenningur á kost á í sparnaðarkerfi hvers lands. Þess vegna á að vera hægt að auka og örva sölu spariskírteina ríkissjóðs án þess að hækkun á vöxtum þeirra þurfi
endilega að vera tæki í þessum efnum.
    Ég vil einnig vekja athygli á því hér að í eðlilegri hagstjórn, þar sem heilbrigt vaxtakerfi er við lýði, mynda vaxtaákvarðanir á spariskírteinum ríkissjóðs vaxtagólf lánakerfisins og peningamarkaðarins og þá eðlilegu viðmiðun sem aðrir aðilar á þessum peningamarkaði taka mið af. Þess vegna er það í senn brýnt um leið og beitt er margvíslegum aðgerðum til þess að ná vaxtastiginu í landinu niður að tryggja og efla sölukerfið á spariskírteinum ríkissjóðs. Ég tel að bankarnir ættu að geta stuðlað að miklu betri kynningu í þessum efnum en þeir hafa gert nú þegar. Ég mæli þetta ekki hér í gagnrýnistón heldur eingöngu til þess að benda á eitt af því sem breyta þarf því að það er eðlilegt að það taki bankakerfið ákveðinn tíma að venja sig á það að vera söluaðilar í þessum efnum og á ýmsan hátt kannski óeðlilegt að þetta sparnaðarform keppi við bankabréf og aðra þá þætti sem bankakerfið sjálft hefur komið sér upp.
    Til þess að tryggja enn frekar þann trausta grundvöll sem spariskírteini ríkisins þurfa að hvíla á vil ég geta þess sérstaklega hér að spariskírteini ríkissjóðs munu búa við trygga og örugga verðtryggingu á næstu árum. Í þeim efnum er hægt að beita þeirri sömu lánskjaravísitölu og beitt hefur verið á undanförnum árum eða öðrum tryggingarvísitölum sem eðlilegar eru taldar og heilbrigðar í þessum viðskiptum.
    Ég vil einnig lýsa því yfir, eins og ég hef reyndar áður gert hér á Alþingi, að mín skoðun er sú að spariskírteini ríkissjóðs eigi áfram að vera skattfrjáls, jafnvel þótt tekin verði upp skattlagning á öðrum vaxta- og fjármagnstekjum. Ég gat þess sérstaklega á Alþingi fyrir nokkrum vikum að nauðsynlegt væri að á kæmist samstarf milli allra þingflokka um slíka stefnu. Slíkt samstarf mundi sannfæra þjóðina um að spariskírteini ríkissjóðs yrðu áfram í senn örugglega verðtryggð og mundu búa við þau forréttindi að vera skattfrjáls. Tilvist þeirra forréttinda er réttlætt síðan með því að efling þessa sparnaðarforms sé mjög veigamikið tæki til að koma á eðlilegri hagstjórn og draga úr erlendri skuldasöfnun og ná jafnvægi í hagkerfinu. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt á næstu mánuðum að festa í sessi þennan skilning og þessi höfuðeinkenni á spariskírteinasölu ríkissjóðs, sem ég hef hér vikið að, annars vegar verðtryggingunni og hins vegar áframhaldandi skattfrelsi spariskírteina ríkissjóðs.
    Virðulegi forseti. Í lánsfjáráætlun 1989 með

áorðnum breytingum, sbr. lög nr. 10/1988, um aðgerðir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum, voru erlendar lántökur til lengri tíma en eins árs áætlaðar 9,3 milljarðar kr. á árinu 1988. Niðurstaðan virðist hins vegar ætla að verða sú að innstreymi erlends lánsfjár verði mun meira en áformað var eða um 18 milljarðar kr., þ.e. tvisvar sinnum hærri upphæð en ætlað var að yrði. Hafa ber þó í huga að meðalgengi gjaldmiðla hefur breyst um 22% innan ársins, en í lánsfjáráætlun var gert ráð fyrir óbreyttu gengi.
    Auk þess má skýra þetta aukna innstreymi með þrennum hætti. Í fyrsta lagi má ætla að lántökur atvinnufyrirtækja með milligöngu viðskiptabanka verði um 3,4 milljörðum kr. umfram það sem ráðgert var í lánsfjáráætlun. Að stærstum hluta eru það lán út á heimildir viðskrn. til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækjanna. Ég vék að því áðan að ég teldi það brýnt þegar á næstu vikum að taka kerfi erlendrar lántöku atvinnufyrirtækjanna til rækilegrar endurskoðunar og hef ég ákveðið að beita mér fyrir viðræðum innan ríkisstjórnarinnar á næstunni til að ná fram þeirri endurskoðun. Hún er nauðsynlegur þáttur í því að tryggja að á sama tíma og við reynum að skrúfa fyrir krana erlendrar lántöku hjá hinu opinbera séu ekki skrúfaðir lausir enn frekar kranarnir sem eiga að veita erlendu lánsfé inn til atvinnulífsins í landinu. Ef það yrði áfram væri til lítils unnið að leggja byrðar og skorður á þá fjölmörgu þætti sem snerta opinbera aðila í þessu landi, bæði ríki, sveitarfélög og opinbera rekstraraðila. Ég vænti þess einnig að í umræðum á Alþingi, bæði í nefnd og einnig almennum umræðum í deildum, veiti menn athygli þeirri nauðsyn að tryggja að breyting verði á varðandi innstreymi erlends lánsfjár fram hjá þeim ákvörðunum sem teknar eru í frv. til lánsfjárlaga.
    Í öðru lagi er skýringin á þessari miklu aukningu sú að erlendar lántökur opinberra fjárfestingarlánasjóða verða um 1,5 milljörðum kr. umfram lánsfjáráætlun. Stærstur hluti þeirrar upphæðar var endurlánaður atvinnufyrirtækjum og mun helmingur þess vera heimildir sem fyrrv. ríkisstjórn veitti Framkvæmdasjóði Íslands og Byggðastofnun á fyrri hluta ársins fyrir erlendum lántökum sem nota átti til endurlána hjá fyrirtækjum.
    Í þriðja lagi er skýringin fólgin í væntanlegri lántöku ríkissjóðs til að fjármagna greiðsluhallann á árinu 1988 og skammtímaskuldir við Seðlabanka Íslands frá fyrra ári.
    Afborganir af löngum lánum eru taldar verða 6 milljarðar 880 millj. kr. og hreint innstreymi erlends fjármagns verður því um 11 milljarðar 120 millj. Er það um 4,4% af áætlaðri landsframleiðslu ársins 1988.
    Þjóðhagsáætlun fyrir árið 1989 gerir ráð fyrir að halli á viðskiptum við
útlönd verði 12 milljarðar 400 millj. kr. sem yrði um 4,5% af áætlaðri landsframleiðslu árið 1989. Nú er að óbreyttu útlit fyrir það að hallinn geti orðið enn meiri í ljósi þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið um fiskveiðar á næsta ári. Það gæti haft í för með sér að

viðskiptahallinn yrði allt að 5% af landsframleiðslu sem er auðvitað hrikaleg stærðargráða fyrir litla þjóð sem illa getur unað því að hennar málum sé stýrt á þann veg að ár frá ári sé viðskiptahallinn af því tagi sem hann hefur verið á undanförnum árum og horfur eru á að hann verði að öllu óbreyttu.
    Á yfirstandandi ári er reiknað með að viðskiptahallinn verði um 11 milljarðar 600 millj. kr. eða 4,6% af landsframleiðslu ársins. Erlendar lántökur á árinu 1989 eru áætlaðar 14 milljarðar 465 millj. kr. og afborganir 7 milljarðar 910 millj. kr. Talið er að aðrar fjármagnshreyfingar verði jákvæðar um 3 milljarða 300 millj. kr. þannig að innstreymi erlends fjár er áætlað um 9 milljarðar 855 millj. kr. Það sem vantar upp á fjármögnun viðskiptahallans á árinu 1989 kemur því fram í verri gjaldeyrisstöðu. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að útlit er fyrir að gjaldeyrisstaðan batni um 2 milljarða kr. á árinu 1988 vegna mikilla erlendra lántaka og því borð fyrir báru hvað gjaldeyrisstöðuna snertir.
    Heildarfjárfesting hér á landi er áætluð 47,5 milljarðar kr. á árinu 1989 sem er um 3,3% samdráttur að magni til frá því í ár. Hlutfall heildarfjárfestingar er áætlað 17,2% af landsframleiðslu og hefur það ekki verið lægra á síðustu 40 árum. Á árinu 1989 er talið að fjárfesting atvinnuveganna dragist saman um 4% og gert er ráð fyrir samdrætti í öllum atvinnugreinum nema samgöngum, en aukningin þar stafar af flugvélakaupum Flugleiða sem áætlað er að nemi tæpum 3 milljörðum kr. sem er reyndar um 6% af heildarfjárfestingunni. Er rétt að menn hafi það í huga við samanburð við önnur ár þar eð slík flugvélakaup gerast ekki nema með margra ára millibili.
    Mestur er samdrátturinn áætlaður í fiskiskipum eða um 35%, en fjárfesting í þeim hefur verið með mesta móti á árunum 1986--1988. Það er áætlað að framkvæmdir við íbúðarhús verði svipaðar og í ár, en fjárfesting hins opinbera talin dragast saman um rúm 3% á árinu 1989 en 4,5% aukning er talin vera í ár. Þessi samdráttur í fjárfestingum hins opinbera er m.a. ákveðinn til þess að stuðla að breyttri efnahagsstjórn í landinu.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við rafvirkjanir og rafveitur aukist um 16%. Stafar það af auknum framkvæmdum Landsvirkjunar við Blönduvirkjun. Gert er ráð fyrir 8% samdrætti í samgöngumannvirkjum á næsta ári. Samdrátturinn stafar einkum af minni framkvæmdum Póst- og símamálastofnunar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir í vegagerð aukist um 4%, en þó verður að skýra þá tölu sérstaklega vegna þess að hún byggist eingöngu á breyttri skiptingu vegafjár milli viðhalds annars vegar og nýframkvæmda hins vegar þar sem hér er reiknað með því að nær öll tekjuhækkunin milli ára fari í nýframkvæmdir en viðhaldið dragist saman. Þess vegna kemur þetta út sem 4% aukning framkvæmda þó að heildarupphæðin sé í raun og veru af sömu stærðargráðu og í ár.
    Áætlað er að framkvæmdir við byggingar hins opinbera dragist saman um 6%, en fjórðungsaukning

framkvæmda er talin verða á þessu ári. Hlutdeild opinberra framkvæmda í heildarfjárfestingu landsmanna á árinu er áætluð um 29% eða sú sama og á yfirstandandi ári.
    Ekki er í frv., virðulegi forseti, né heldur í grg. þess fjallað um niðurfellingu ríkisábyrgða á fjárfestingarlánasjóðum. Mér þykir þess vegna rétt að taka það fram hér að í þessu felst ekki nein stefnumótun um að frá því markmiði sé horfið. Ríkisstjórnin mun þvert á móti í samræmi við málefnasamning sinn taka það mál til meðferðar og leggja niðurstöður þess fyrir þingið.
    Veiting ríkisábyrgða á að mínum dómi að vera sérstakt ákvörðunaratriði hverju sinni. Ríkisábyrgðir á að nota mjög sparlega og yfirleitt aðeins í undantekningartilvikum þar sem þær eru taldar nauðsynlegar til að lækka lántökukostnað þjóðarbúsins. Er eðlilegt að þeir sem njóta þeirra greiði fullt verð fyrir til ríkisins. Því miður er það þannig þegar litið er yfir reynslu undanfarinna ára að ærið oft hafa ríkisábyrgðir verið nánast sjálfvirkar og verið knúðar fram með allt of auðveldum hætti af þeim fjölmörgu aðilum sem hafa talið sér vegna eins eða annars nauðsynlegt eða hagkvæmt að leita slíkra ríkisábyrgða. Þessi mikla veiting ríkisábyrgða hefur dregið úr nauðsynlegu aðhaldi í fjármálastjórn og atvinnulífi í okkar landi og ber þess vegna mjög að takmarka hana á næstu árum til að tryggja að þeir aðilar sem hingað til hafa talið sig á þeim þurfa að halda eða aðrir sem í þær vilja sækja geri sér fyllilega grein fyrir því að við byggjum ekki upp heilbrigt og eðlilegt atvinnulíf í landinu nema það geti sjálft staðið undir sínum lántökum og þurfi ekki að leita til ríkissjóðs eða hins opinbera með ábyrgðir af þessu tagi.
    Það er svo einnig rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi að bankakerfið í landinu er því miður of vanþróað og of veikburða. Þess vegna getur verið nauðsynlegt meðan verið er að knýja fram ákveðnar breytingar á bankakerfinu til þess að styrkja það og gera það sambærilegt hvað þjónustu og
starfsemi snertir við bankakerfi nágrannalanda okkar að veita ríkisábyrgðir í undantekningartilfellum eitthvað á allra næstu missirum, en ég ítreka það þó hér að meginstefnan gagnvart framtíðinni er að draga úr þeim, bæði vegna þeirra almennu sjónarmiða sem ég hef hér lýst og einnig til þess að knýja bankakerfið til að sinna á sjálfstæðan hátt þeirri eðlilegu lánafyrirgreiðslu sem því er ætlað að sinna.
    Eins og okkur er öllum kunnugt gegna fjárfestingarlánasjóðirnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í fjármögnun fjárfestinga á Íslandi, ekki síst sökum þess hve áhættufjármagn í atvinnurekstri er óverulegt í okkar landi. Í lánsfjáráætlun 1989 eru ný útlán fjárfestingarlánasjóðanna áætluð alls um 20,5 milljarðar kr. eða um 28% umfram endurskoðaða áætlun yfirstandandi árs. Hækkunin skýrist að stærstum hluta af tilkomu Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina sem var stofnaður með bráðabirgðalögum um efnahagsaðgerðir í lok september eins og hv. alþm. er kunnugt. Án

Atvinnutryggingarsjóðs hækka útlán fjárfestingarlánasjóðanna á árinu 1989 um 1,6 milljarða kr. frá yfirstandandi ári eða um 10%. Útlán Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna hækka um 3,1 milljarð kr. á milli ára þannig að áætlaður samdráttur í útlánum annarra fjárfestingarlánasjóða nemur því um 1 1 / 2 milljarði kr. á árinu 1989. Er þetta í samræmi við áætlaðan samdrátt í fjárfestingu á því ári sem áður hefur verið vikið að.
    Það er rétt að vekja athygli hv. deildar sérstaklega á því að áætlað er að útlán Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna aukist samtals um 40% á milli ára sem er nær 30% aukning að raungildi. Á sama tíma er gert ráð fyrir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði standi í stað. Gangi þessar áætlanir eftir munu útlán byggingarsjóðanna nema meira en samanlagðri fjárfestingu í íbúðarhúsnæði á næsta ári eða 11 milljörðum kr. í samanburði við 9,9 milljarða kr. Það er því ljóst og sést greinilega af þessum stærðartölum að þetta mál þarf að skoða mjög rækilega, bæði varðandi næsta ár og næstu ár, einkum og sér í lagi þegar höfð er í huga sú staðreynd að fjármagn lífeyrissjóðanna mun fara jafnt og þétt vaxandi og nauðsynlegt er að móta nýja stefnu um það hvernig því er ráðstafað og hvernig best sé að tryggja að það geti þjónað þeim markmiðum sem ég var að lýsa áðan. ( GHG: Er það hlutverk stjórnmálamannanna fyrst og fremst?) Það er ekki hlutverk stjórnmálamannanna, Guðmundur H. Garðarsson, þó að sumir stjórnmálamenn hafi komið hag sínum þannig fyrir, eins og hv. þm., að hann stýri þessum málum, að vísu þá undir öðrum hatti en væntanlega einnig sem stjórnmálamaður, sem fulltrúi Verslunarmannafélags Reykjavíkur, kosinn þar til pólitískrar forustu eins og hann gegndi í forustu alþýðusamtakanna um áraraðir og ekkert nema gott um það að segja. En að halda því fram hér í frammíkalli að það sé eitthvað ópólitískt verksvið sem tengist Verslunarmannafélagi Reykjavíkur er nú að mínum dómi út úr öllu korti. ( GHG: Eða Alþýðusambandinu.) Nema síður sé. Ekki skulum við nú gleyma þeim miklu pólitísku átökum sem voru samfara því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og Pétur Sigurðsson settust í miðstjórn Alþýðusambandsins á sínum tíma og er rétt að hafa það í huga í tilefni dagsins. (Gripið fram í.) Já, já, það er rétt. Þeir voru sjálfkjörnir þá, en ef hv. þm. telur að það hafi gerst án fyrirhafnar með einhverjum allsherjar hallelúja aðdraganda . . . (Forseti: Má ég biðja hæstv. ráðherra og hv. þm. að eiga tvítal annars staðar en í salnum.) Ég skal virða tilmæli forseta og hætta þessu tvítali, en ég vil þó vekja athygli virðulegs forseta á því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson greip fram í. ( HBl: Og var ærin ástæða til.) Já, já, og vakti athygli á því að það væri ekki verkefni stjórnmálamanna að stýra lífeyrissjóðum. Af því tilefni taldi ég nauðsynlegt að vekja athygli á því að fáir alþm. hafa haft jafnafgerandi áhrif á starfsemi lífeyrissjóðanna í ,,praxís`` í landinu og hv. alþm.

Guðmundur H. Garðarsson.
    En virðulegi forseti. Ég skal ljúka ræðu minni á næstu fáeinum mínútum og vil að lokum vekja athygli á því að á undanförnum árum hafa lántökur sveitarfélaganna nær eingöngu verið tengdar fjármögnun framkvæmda og skuldbreytingum hjá hitaveitum. Endurgreiðslutími fjárfestingarlána hitaveitna hefur verið mun skemmri en afskriftartími mannvirkjanna. Margar hitaveitur hafa af þeirri ástæðu lent í miklum erfiðleikum, bæði vegna þungrar greiðslubyrði af áhvílandi skuldum og byrjunarörðugleikum í rekstri. Ríkissjóður hefur á síðustu árum létt á erfiðleikum margra veitna með því að yfirtaka hluta af skuldum þeirra og skuldbreyta öðrum lánum. Markmiðið hefur verið að tryggja rekstrargrundvöll hitaveitnanna til frambúðar. Í framhaldi af þessum aðgerðum er sú stefna mörkuð í frv. að ekki skuli veita ríkisábyrgðir fyrir nýjum fjárfestingarlánum hitaveitna.
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég hef hér mælt fyrir til lánsfjárlaga felur m.a. í sér að gerð er tilraun til að skapa forsendur fyrir varanlegri lækkun raunvaxta þar sem lánsfjáreftirspurn hins opinbera minnkar verulega frá yfirstandandi ári. Forsendur lækkunar raunvaxta voru einnig skapaðar með aðgerðum ríkisstjórnarinnar strax og hún tók við og hafa haft í för með sér óvenjumikla lækkun verðbólgu á undanförnum mánuðum. Lækkun raunvaxta hefur þó gengið hægar á undanförnum vikum en þessar efnahagslegu forsendur gefa
vissulega tilefni til. Ég tel þess vegna nauðsynlegt við þetta tilefni að vekja athygli á því að stjórnendum íslenska bankakerfisins ber skylda til að haga ákvörðunum sínum um vexti í samræmi við hinar efnahagslegu forsendur sem nú eru fyrir hendi.
    Það hefur stundum verið haft á orði að bankakerfið ætti að búa hér við frjálsa markaðsákvörðun vaxta, en í þeirri umræðu hafa menn gleymt að greina fræðilega hvert er eðli peningamarkaðarins á Íslandi með tilliti til smæðar íslenska hagkerfisins. Þegar sú greining er framkvæmd kemur skýrt í ljós að hér eru nánast engin almenn skilyrði til þess að frjáls samkeppni á peningamarkaði geti haft í för með sér þær afleiðingar sem kennimenn um slíka samkeppni telja að séu eðlilegar og réttar. Hér ríkir aftur á móti sá markaður sem í hagfræði er kenndur við fákeppnismarkað þar sem nokkrar meginpeningastofnanir, sem vita vel hver af annarri og horfa fyrst og fremst á hvað hver gerir, ráða ferðinni. Rannsóknir í hagfræði sýna mjög rækilega að við slíkar markaðsaðstæður er nauðsynlegt, óhjákvæmilegt að opinberir aðilar hjálpi til og stýri vaxtaákvörðunum þessara fákeppnisstofnana til að tryggja að þær fyllist nægilegri öryggiskennd til að framkvæma þessar ákvarðanir. Þær geti ekki af sjálfu sér gert það nema með slíkri leiðbeiningu.
    Ég vek athygli hv. alþm. á því að á morgunverðarfundi Félags viðskiptafræðinga fyrir nokkru var ítarlega fjallað um þessi markaðseinkenni íslenska peningakerfisins og gerð rækilega grein fyrir því af Má Guðmundssyni, sem lengi hefur starfað í

Seðlabankanum og nú gegnir starfi efnahagsráðunautar fjmrh., hvernig vaxtakerfi fákeppnismarkaðar væri í reynd og hvernig íslensk stjórnvöld þyrftu að haga sér til að tryggja í slíku peningakerfi að vextirnir yrðu lækkaðir. Það er þess vegna ekki óeðlilegt heldur blátt áfram nauðsynlegt út frá almennu eðli peningamarkaðarins á Íslandi og kennisetningum hagfræðinnar að opinber stjórnvöld hafi bein og óbein afskipti af því að tryggja að raunvaxtalækkun verði framkvæmd í íslenska bankakerfinu á næstu dögum og næstu vikum í samræmi við þann árangur sem náðst hefur í verðbólguþróuninni. Það er mjög mikilvægt að einstakir bankastjórar í stórum og litlum bönkum og öðrum sjóðum geri sér grein fyrir þessu. Annars er hætta á því að vaxtastigið frjósi á óeðlilega háu stigi sem stjórnendur bankakerfisins geta engin efnisleg rök fært fyrir að eigi að vera þar, hvorki bankaleg, efnahagsleg eða fagleg, heldur eru eingöngu byggð á tilfinningalífi viðkomandi bankastjóra. Við stjórnum ekki peningakerfinu í landinu á þeim grundvelli. Við erum að keppa að því að þróa peningakerfið á Íslandi í faglegri átt, í traustari átt og í alþjóðlegri átt og þá er tími til kominn að stjórnendur þeirra banka, sérstaklega þeirra stærstu, fari að haga ákvörðunum sínum í samræmi við eðlileg lögmál hagfræðinnar og viðskiptalífsins og almenn peningaleg sjónarmið, en hætti að láta tilfinningalíf sitt eða órökstutt mat á einhverju sem kunni að gerast einhvern tíma í framtíðinni að þeirra dómi e.t.v. ráða ferðinni og fara kannski eftir því hvernig liggur á þeim þann morguninn þegar þeir fara í vinnuna.
    Ég segi þetta hér, virðulegi forseti, að gefnu tilefni því það er mjög mikilvægt þegar verið er að gera grein fyrir mjög alvarlegri tilraun til að stuðla að verulegri vaxtalækkun í okkar landi að þeir sem stýra mikilvægustu peningastofnun landsins hagi orðum sínum á þann hátt að umræðan geti verið fagleg, málefnaleg og efnisleg.
    Það er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að reyna að tryggja á næstu missirum og árum að innlendur sparnaður verði aukinn í okkar landi. Jafnvel þótt vextir muni lækka eitthvað á næstunni er ljóst að raunvextir munu áfram vera í gildi og það er óhjákvæmilegt að efla skilning bæði lántakenda og sparifjáreigenda á því hvað raunvextir hafa í för með sér. Ég hef rekið mig á það, bæði í sumar og eins núna í haust, að mjög skortir á að stjórnendur fyrirtækja, forsvarsmenn í umræðu eins og fjölmiðlamenn og aðrir, hvað þá heldur almennir sparifjáreigendur, geri sér nægilega grein fyrir muninum á nafnvöxtum og raunvöxtum svo að ég nefni einfalt atriði, hvað þá heldur að þeir geri sér grein fyrir hinum stóra mun sem er á 3% raunvöxtum og 8% raunvöxtum svo að ekki séu nú nefndir 13% raunvextir. ( Gripið fram í: 17.) Eða enn þá hærri. Forsvarsmenn fyrirtækja sem eru að taka lán á 14--20% raunvöxtum, jafnvel 9--13% raunvöxtum, þurfa að hafa ærið sterka stöðu eða ótrúlega bjartsýni á getu sinna fyrirtækja til að halda að reksturinn geti staðið undir slíkum lántökum. Þess vegna hef ég átt

um það viðræður við bæði forsvarsmenn bankastofnana og verðbréfasjóða og aðra kunnáttumenn á þessu sviði hvernig best sé hægt að tryggja þegar á næstu mánuðum að skilningur almennings, skilningur stjórnenda fyrirtækja og skilningur fjölmiðlafólks á vaxtakerfinu í landinu verði bættur og efldur. Í þessu skyni hef ég ákveðið að efna til viðræðna við þessa aðila um sérstakt kynningar- og upplýsingarátak á næstu mánuðum til að tryggja kunnáttu alls almennings, forsvarsmanna fyrirtækja og annarra á þessum einföldu efnisþáttum því að sú hugmynd hagfræðinnar að hver einasti gerandi á þessu sviði sé sjálfum sér skynsamur og geti framkvæmt þetta mat án nokkurrar hjálpar er einfaldlega röng. Það verður
með miklu alvarlegri hætti en gert hefur verið til þessa að gera sér grein fyrir því að við komum ekki almennilegum skikk á okkar efnahagsstjórn nema þekking á þessum einföldu atriðum sé fyrir hendi. Þess vegna þarf að efna til samvinnu við fjölmiðla, sjónvarp og útvarp, við dagblöð, við skólakerfi, við samtök atvinnulífsins, við stjórnendur fyrirtækja, við forsvarsmenn bankastofnana og fjölmarga aðra aðila um víðtæka kynningar- og upplýsingaherferð um eðli vaxta, sparnaðar og lántöku í okkar landi. Ég vænti þess einnig að hv. Alþingi geti orðið virkur þátttakandi í þeirri kynningarherferð og væri fróðlegt að heyra við frekari umfjöllun þessa máls álit hv. alþm. á þessum hugmyndum.
    Svo þakka ég, virðulegi forseti, um leið og ég mælist til þess að frv. verði að lokinni umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og vil sérstaklega að gefnu tilefni taka fram að það hefði verið fyllilega eðlilegt af minni hálfu, ef ég hefði leitt að því nægilega hugsun, að leggja þetta mál fyrir Nd. til þess að greiða fyrir vinnu sem ég veit að er mikil í þessari hv. deild. Ég vildi þess vegna taka það sérstaklega fram að það hefði e.t.v. verið réttari ákvörðun að leggja málið fyrir Nd. út frá vinnuálagi í þessari hv. deild, en þó kann það að hafa verið ómeðvituð löngun hjá mér, sem hér á árum áður átti varanlegt sæti í þessari virðulegu deild, að fá hið fyrsta tækifæri til að eiga orðræðu við þá ágætu menn sem hér hafa setið lengi og voru ásamt mér sannfærðir um að þetta væri án efa og hefði verið lengi vitrænasti hluti þingsins.