Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að ekki veitir af því að halda uppi öflugri kennslu og kynningu á eðli markaðar og eðli vaxta ef hæstv. fjmrh. ímyndar sér eitt andartak að það frv. sem hann leggur hér fyrir leiði til lækkunar á raunvöxtum hér á landi. Ég held að flestir sem hafa skoðað þetta frv. séu sannfærðir um hið gagnstæða og eru ástæðurnar fyrir því margvíslegar.
    Í fyrsta lagi er ástæðan sú að frv. er þannig upp byggt að það er kreppt að atvinnuvegunum með margvíslegum hætti. Bæði er gert ráð fyrir því að draga verulega úr möguleikum þeirra á erlendum lántökum um leið og uppi eru hugmyndir hjá hæstv. fjmrh. um að sækja enn meiri peninga á innlenda sparifjármarkaðinn. Og ofan í þær miklu áætlanir sem uppi eru í frv. hefur hæstv. fjmrh. lýst þeirri skoðun sinni og ítrekar mjög rækilega að nauðsynlegt sé að almenningur í landinu sé þess fullviss að verðtrygging á ríkisskuldabréfum skuli standa, henni skuli ekki breyta. Þeir sem kaupi ríkisskuldabréf megi treysta því að verðtryggingin haldi. Og ekki nóg með það heldur sagði hæstv. fjmrh. ofan í kaupið að hann stefndi að því að spariskírteini ríkissjóðs skyldu vera einu spariskírteinin hér á landi sem ættu að njóta skattfríðinda, bæði varðandi eignarskatt og tekjuskatt. Það er af þessum ástæðum gersamlega ljóst, þó svo að vegna hinnar miklu menntunar hæstv. fjmrh. verði maður annað slagið var við örlítið ,,glimt``, að hann skilji þá miklu þýðingu sem markaðurinn hefur, sem kannski er óvanalegt af manni í hans flokki, að það slær þó út í fyrir honum annað slagið þegar hann ímyndar sér að velferð og hagsmunir íslensks þjóðfélags séu helstir þeir að með öllum hætti eigi að tryggja hagsmuni ríkisins á kostnað annarra, tryggja að ríkið geti dregið til sín sem mest fjármagn en á hinn bóginn sé lítið eftirlit haft með því hvernig fjármagninu sé eytt.
    Hæstv. fjmrh. sagðist þegar hann kom hér inn, ég bið virðulegan forseta afsökunar á því að þurfa aðeins að víkja mér að fjárlagafrv. af því tilefni, ætla að sýna okkur þingmönnum það traust að skýra okkur frá því að halli ríkissjóðs yrði meiri en hann hafði áður látið í veðri vaka hér í þinginu. Nú var það lítið traust sem hann sýndi okkur, lítil virðing, því að við vorum áður búnir að lesa þessar fréttir í Dagblaðinu Vísi og er nauðsynlegt að víkja að því nokkrum orðum. En hæstv. fjmrh. sýndi okkur ekki fullan trúnað, það gerði hann ekki, heldur tíndi hann út upplýsingar, þær sem hann vildi að við fengjum í hendur, en sleppti á hinn bóginn öðrum sem líka var nauðsynlegt að fá. Hann segir réttilega að söluskattur hafi dregist saman um 1,3 milljarða, aðflutningsgjöld um 640 millj., en hann minntist ekki einu einasta orði t.d. á tekjuskattinn. Nú væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvort sú flugufregn er rétt, sem ég hef heyrt, að tekjuskatturinn hafi farið mjög fram úr áætlun, jafnvel hafi hann farið meira fram úr áætlun en nemur þeim krónum sem töpuðust í söluskattinum. Nú veit ég ekki hvort þetta er rétt.

    Ég vil líka vekja athygli á því að það er lítinn lærdóm hægt að draga af því þótt aðflutningsgjöldin hafi lækkað um 640 millj. vegna þess að þar er um að kenna reikningsskekkju í löggjöf. Við fengum þær upplýsingar í fjh.- og viðskn. Ed. á síðasta þingi að tekjurnar af vörugjaldinu yrðu mun hærri en þær reyndust vegna þess að það gleymdist að taka tillit til þess að vitaskuld hlaut vörugjaldið að lækka um leið og tollar lækkuðu vegna þess að vörugjaldið er lagt á bæði kaupverðið og tolla. Þess vegna hygg ég að innbyggð skekkja í fjárlögunum nemi um 700 millj. kr. af þessum sökum. Ég hef ekki endanlegar tölur um það, en það segir okkur ekki nokkurn skapaðan hlut annað en það að við fengum rangar upplýsingar, segir ekkert um þróun mála með einum eða öðrum hætti. En auðvitað þýðir þetta að söluskattur verður líka að sama skapi minni sem aðflutningsgjöldin lækka af þessum sökum.
    Á hinn bóginn er ég sammála hæstv. fjmrh. um að hinn mikli tekjuhalli sem við blasir nú á ríkissjóði er okkur mikið áhyggjuefni. Hér er talað um að hallinn á ríkissjóði sé 3,4 milljarðar, en nú hefur sem sagt verið upplýst að hann sé 4,5--5 milljarðar kr. og geri ég ráð fyrir því að nauðsynlegt sé þá að hækka erlendar skuldir í samræmi við það nema hæstv. fjmrh. hafi uppi aðrar hugmyndir um þau efni.
    Ég vil vekja athygli á því að um leið og ég legg áherslu á það að aukin sókn ríkissjóðs inn á innlenda fjármagnsmarkaðinn, á sama tíma og gert er ráð fyrir því að einkaneyslan dragist saman um 3,5%, á sama tíma og fjárfesting dregst saman um 3,2%, hlýtur að leiða til hærri vaxta, þrengja að atvinnurekstrinum, en gert er ráð fyrir því að halli upp á 2 1 / 2 milljarð verði fjármagnaður af Seðlabankanum, og þegar við svo bætum því við að í þessu frv. er gert ráð fyrir því að verðlagshækkanir á næsta ári verði um 12% á sama tíma og meðalgengi íslensku krónunnar á að hækka um 7%. Það er m.ö.o. stefnt að því af hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. í frv. sem hér liggur fyrir að meðalgengi íslensku krónunnar verði enn hækkandi á næsta ári. Það er beinlínis forsenda fyrir þeim lánsfjárlögum sem hér eru lögð fram og verður að segjast eins og er að það er meira en lítil ósvífni að hæstv. fjmrh. skuli koma með
þennan boðskap hingað inn í deildina, svo skammt sem liðið er síðan hæstv. forsrh. var rassskelltur á aukafundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, á sama tíma og það liggur fyrir að hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir að gengi íslensku krónunnar sé 15% of hátt, á sama tíma og maður fer um byggðarlög á Austurlandi þar sem við blasir að fólkið er að verða atvinnulaust í sjávarútveginum vegna þess að ríkisstjórnin fæst ekki til þess að taka á atvinnumálunum.
    Hæstv. menntmrh., fyrrv. formaður Alþb., talaði um það hér fyrir skömmu að ríkisstjórnin hefði verið að reisa eitthvert atvinnulíf úr rústum. Hver er svo hlutur atvinnulífsins hér? Eigum við að horfa á það eitt andartak hvernig fjmrh., sem talar um þetta sem eitthvert tímamótafrv., fer með það fjármagn sem

nettó er búist við að hingað komi inn í landið af erlendum lántökum?
    Það er gert ráð fyrir því að lán til langs tíma, langar erlendar lántökur séu 6 1 / 2 milljarður þegar tekið hefur verið tillit til afborgana. Af þessum erlendu lánum er gert ráð fyrir því að 2 1 / 2 milljarður eða svo fari til flugvélakaupa. Er það ekki rétt hæstv. fjmrh.?
    Það er gert ráð fyrir því að einn milljarður renni til Stefánssjóðsins fræga, Atvinnutryggingarsjóðs á fínu máli, og ég hygg að það sé gert ráð fyrir því að 800 millj. kr. af þessu fé renni til þess að halda uppi hallarekstri í frystiiðnaðinum með því að taka þessa peninga í gegnum Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Er það ekki rétt skilið? Eitthvað svo? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það ef ég hef misskilið en ég held að þetta sé laukrétt. Ef við horfum á það að hæstv. ríkisstjórn ætlar í fyrsta lagi að halda uppi hærra raungildi á íslensku krónunni á næsta ári en nú er, sem er forsendan fyrir þeim lánsfjárlögum sem hér liggja fyrir, það á m.ö.o. að halda áfram hallarekstrinum, og ef ríkisstjórnin ætlar að halda við þau áform sín að þrátt fyrir minnkandi landsframleiðslu eigi að auka útgjöld ríkissjóðs á næsta ári um 0,7% eða 0,8%, ég man það ekki alveg en samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að auka enn útgjöld ríkissjóðs að magni til, þá sjáum við náttúrlega að búið er að kippa fótunum undan öllu þessu. Auðvitað sýnir þróun undanfarinna vikna það betur en mörg orð að hæstv. fjmrh. getur ekki búist við því að fá þær tekjur inn í ríkissjóð sem hann talar um í grg. fjárlagafrv. þó svo að meðráðherrar hans vildu standa með honum, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., þó svo honum takist að fá svokallaða stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hér á þinginu til að samþykkja alla skattaálögurnar.
    Ég verð líka að spyrja hæstv. fjmrh., úr því að hann varði svo löngu máli í það að útskýra að hann vildi lækka raunvextina og að forsendan fyrir því væri sú að hægt væri að skila greiðsluafgangi upp á einn og hálfan milljarð á næsta ári í ríkissjóði, hvort hann hafi þegar hann talaði um þessa fjárhæð endurskoðað þær áætlanir sem liggja til grundvallar fjárlagafrv. síðan það var lagt fram. Það er að vísu rétt að hæstv. fjmrh. vék að því í ræðu sinni að forsendurnar fyrir lánsfjárlögunum og þjóðhagsáætlun væru brostnar vegna þess að sýnt væri að mjög mundi draga úr aflabrögðum margra nytjastofna á næsta ári. Ég hygg að gert sé ráð fyrir því að í grálúðunni dragist fiskveiðar saman úr 50 í 30 þús. tonn, karfi úr 90 í 77 þús. tonn, þorskur fari niður í 325 þús. tonn, rækja niður í 20 þús. Og það eru fleiri ótíðindi sem við megum búast við. Að vísu minntist hæstv. fjmrh. á þetta í öðru orðinu, svona í upphafi, en hann dró engan lærdóm af þessum nýju upplýsingum. Það var ekki að heyra að hann hefði hugsað sér að breyta einni einustu tölu í lánsfjáráætlun af þessum sökum. Ég varð ekki var við það að hann hygðist reyna að bregðast við með þeim hætti að minnkandi landsframleiðsla ætti eitthvað að valda því að hann vildi spara í ríkisrekstrinum. Ekki orð um það. Ekki

eitt einasta orð. Hæstv. ráðherra fór að tala um bankana og hann fór að tala um atvinnureksturinn, en það var ekki að heyra að hann ætlaði að draga neitt úr ríkisútgjöldunum þó fyrir lægi að tekjur þjóðarbúsins minnkuðu og það var ekki að heyra að hann ætlaði að draga úr þeim kröfum sem hér eru lagðar fram í þjóðhagsáætlun um útgjöld í sambandi við lánsfjáráætlun af þeim sökum.
    Þetta er auðvitað afskaplega einfalt. Við sem höfum opin augun sjáum hvernig stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum hefur valdið því að lánsfjárþörf fyrirtækjanna vegna hallarekstrar hefur vaxið frá einum mánuði til annars og við vitum að uppi eru hjá ríkisstjórninni miklar hugmyndir um auknar lántökur svo skiptir milljörðum af þeim sökum. Nú lýsir hæstv. fjmrh. því yfir og leggur fram plagg um það að enn eigi að þrengja að sjávarútveginum með hærra raungengi en nú er. Auðvitað mun það kalla á enn frekari erlendar lántökur til þess að halda hallarekstrinum áfram, hæstv. fjmrh., nema áður komi til þess að fyrirtækin fari á höfuðið og stöðvist af þeim sökum. Þetta er alveg deginum ljósara þannig að þetta frv. sem hér liggur fyrir er sorglegur vottur um það skilningsleysi sem ríkisstjórnin hefur á eðli íslensks þjóðfélags, um það skilningsleysi sem ríkisstjórnin hefur --- ég vil segja á landsbyggðinni og uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni.
    Ég man eftir því þegar hæstv. fjmrh. kom hér ungur maður inn á Alþingi. Ég man eftir því að þá vildi hann mikið tala um það að hann væri sannur
byggðamaður og bæri það fyrir brjósti að stofnanir yrðu fluttar út á land. Þá man ég eftir að hæstv. fjmrh. flutti um það frv. og hafði um það mörg orð að eðlilegt væri að 2% af útgjöldum fjárlaga hverju sinni rynnu til Byggðasjóðs eða byggðamála. Þá þóttist hann bera þau mál svo mjög fyrir brjósti. Í fyrsta fjárlagafrv. sem hann leggur fram er sú tala nær að vera 2 prómill, 1 / 10 af því sem hann ætlaði öðrum. Og það er eftirtektarvert að hann skuli um leið hafa dregið úr framlögum til Byggðasjóðsins þvert ofan í það sem segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
    Virðulegi forseti. Nú stendur svo á að í þessu frv. er fjallað um Byggðastofnun og ekki að sjá annað en að gert sé ráð fyrir því að þær 200 millj. kr., sem á ári hverju hefur verið veitt til skipasmíðaverkefna, falli niður. Á síðasta þingi átti ég langt stríð við þáv. hæstv. viðskrh., núv. hæstv. iðnrh. um það að áfram yrði varið fé til þessara mála. Nú væri mjög fróðlegt ef hægt væri að fá hæstv. viðskrh. í salinn eða einhvern ráðherra Alþfl. Það virðist alveg ljóst að ráðherrar Alþfl. telja sig ekki þurfa að vera við umræður um mikilvæg mál. Enginn þessara manna lét svo mikið sem sjá sig, nema kannski í flugumynd, þegar við ræddum um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og tók það þó langan tíma. Nú erum við hér að ræða frv. til lánsfjárlaga og það er ekki að sjá að einn einasti ráðherra Alþfl. sjái ástæðu til að vera viðstaddur. Og það sem verra er: Talsmaður Alþfl. í efnahagsmálum í þessari deild, hv. 3. þm. Vestf. er heldur ekki viðstaddur þannig að þetta er

satt að segja heldur bágborið ástand. ( Forseti: Ég skal gera ráðstafanir til þess að kallað verði í hæstv. viðskrh.) Það væri mjög fróðlegt að fá hæstv. viðskrh. hingað af þessu tilefni. ( Gripið fram í: Og talsmann Alþfl.)
    Nú langar mig að spyrja hæstv. fjmrh. í fjarveru hæstv. iðnrh. hvort meiningin sé sú að skipasmíðaiðnaðurinn verði skilinn eftir á köldum klaka. Ég þorði ekki að . . . (Gripið fram í.) Ja, það er kannski nauðsynlegt aðeins að fara nokkrum orðum um þetta mál.
    Við vitum það sem höfum fylgst með á undanförnum árum að það er mun auðveldara fyrir útgerðarmenn að fá fjármagn til endurbóta og meiri háttar viðhalds á fiskiskipum hjá erlendum slippstöðvum og viðgerðarstöðvum heldur en innlendum. ( Forseti: Má ég trufla hv. þm.? Hæstv. iðnrh. er ekki í húsinu.) Nei, ég átti nú ekki von á því, virðulegi forseti, að hæstv. viðskrh. teldi ástæðu að vera viðstaddur þegar rætt er um lánsfjárlögin. En mig minnir að það standi samt hér í grg. að hann hafi verið mjög duglegur að veita heimildir til erlendrar lántöku umfram það sem segir í lánsfjáráætlun þessa árs þannig að hæstv. viðskrh. hefði kannski þurft að vera viðstaddur og heyra umvöndunarræðu hæstv. fjmrh. ( EgJ: Það skakkaði nú ekki nema 9 milljörðum hjá honum í þeim efnum.) Það hefði kannski ekki veitt af.
    Nú er það svo að fyrir nokkrum árum var það skipasmíðaiðnaðinum mjög til baga að hann hafði ekki aðgang að fjármagni til þess að útgerðarmenn gætu farið í slippana hér á landi þegar um meiri háttar viðgerðir var að ræða. Vandamálið var sprottið af þeim sökum að hvorki Iðnlánasjóður né Fiskveiðasjóður lána eðli sínu samkvæmt til viðhaldsverkefna þótt þau séu stórbrotin, þó svo að fyrir liggi að skipið eigi erfitt með að gegna sínu hlutverki nema því sé haldið sæmilega við og þó svo að ljóst sé að skipasmíðastöðin geti ekki haldið uppi sínum verkum heldur, þeim mikilvæga iðnaði, nema hún hafi peninga til sinna verkefna. Þetta leiddi til þess að skipin fóru í vaxandi mæli úr landi. Hins vegar tókst að snúa þessu við með því að mörg undanfarin ár hefur verið varið fyrst 150 millj. kr. og nú tvö til þrjú síðustu árin 200 millj. kr. til verkefna í skipasmíðaiðnaði. Þessi lán eru yfirleitt til 5 ára, kannski upp í 8 ár ef um mjög miklar framkvæmdir er að ræða, og það kemur fram í reikningum Byggðasjóðs að skil á þessum lánum hafa verið mjög góð, þannig að þarna hafa ekki safnast upp vanskil.
    Útgerðarmenn hafa smátt og smátt farið að treysta því að Byggðasjóður mundi með þessum hætti hlaupa undir bagga. Þó hefur verið við það miðað að þessi lánsfyrirgreiðsla nemi ekki hærri fjárhæð en 80% af heildarkostnaði við endurbæturnar og það meiri háttar viðhald sem metið er lánshæft í þessu samhengi. Það hefur verið krafist mjög strangra veða og settar tryggingar fyrir endurgreiðslum. Ég er þeirrar skoðunar að skipasmíðaiðnaðurinn muni eiga í mjög miklum erfiðleikum ef samsvarandi lánsfyrirgreiðslu

verður ekki haldið uppi á næsta ári. Fyrir því eru þrjár ástæður fyrst og fremst.
    Sú fyrsta er auðvitað sú að hér er haldið uppi rangri gengisskráningu. Gengið er allt of hátt sem auðvitað skerðir mjög verulega samkeppnisstöðu íslenska skipasmíðaiðnaðarins og er þess vegna niðurgreiðsla á erlendan iðnað. Þetta háa gengi er ekki aðeins niðurgreiðsla á erlendan skipasmíðaiðnað, það er líka niðurgreiðsla á hvers konar samkeppnisvörur aðrar sem við fáum erlendis frá í samkeppninni við íslenskan iðnað. Það er þess vegna mikill misskilningur ef einhverjir halda t.d. að þeir erfiðleikar sem nú eru í atvinnurekstrinum séu bundnir við sjávarútveginn. Það eru bullandi erfiðleikar í öðrum atvinnugreinum einnig út af því að gengið er rangt, út af því að hér er haldið uppi háum raunvöxtum sem sýnilegt er að muni ekki lækka á næsta ári
ef stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga nema beitt verði lagaþvingunum sem aftur mun undir eins valda því að verulega dregur úr sparnaði vegna þess að þá er trúnaðartraustið horfið.
    Það er í öðru lagi vegna þess að sjávarútvegurinn hefur gengið illa. Þess vegna hafa útgerðarmenn minni möguleika en áður á því að reiða fram þau 20% sem áskilin hafa verið ef um meiri háttar viðgerðir og endurbótaverkefni hefur verið að ræða hér á landi, en erlendu skipasmíðastöðvarnar hafa verið í standi til að lána 100% undir vissum kringumstæðum. Þannig að líka það mun reka skipin úr landi.
    Ég vil trúa því að hæstv. fjmrh. endurskoði afstöðu sína í þessu máli. Ég mundi meta það mjög mikils ef hann setti sig inn í þessi mál og hægt yrði að komast að einhverju samkomulagi um það að skipasmíðaiðnaðurinn gleymdist ekki í lánsfjárlögum. Ég verð þó að taka það fram að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þessa fjárhæð hefur vantað í frv. Sl. ár var það vegna andstöðu þáv. hæstv. viðskrh. sem það vantaði og einnig hefur það komið fyrir að framsóknarmenn hafa haft lítinn skilning á þessum málum þó ég hljóti að fagna því að hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson hefur nú flutt þáltill. um eflingu skipasmíðaiðnaðar. Ég býst við að ég fái stuðning hans í því hér í deildinni að þessari fjárhæð verði haldið inni.
    Í sambandi við 9. gr. þessa frv. vil ég aðeins minna á það að í gildandi lánsfjárlögum er heimild til að taka fé að láni vegna Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum, með því skilyrði þó að heimildin sé háð samþykki fjmrh., samgrh. og fjvn. Alþingis. Nú liggur það fyrir að á meðan hæstv. utanrrh. var fjmrh. stóð hann á móti þessu máli og kom í veg fyrir að það næði fram að ganga. Vil ég mega vænta þess að hæstv. núv. fjmrh. skilji betur en fyrirrennari hans nauðsyn þess fyrir eyjaskeggja að þeir hafi sómasamlega ferju milli lands og eyja. Ég hlýt líka að harma það að hæstv. fjmrh. skyldi ekki hafa vikið einu einasta orði að því að uppi eru hugmyndir um það að smíða ferju fyrir aðra eyjaskeggja norðanlands, í Hrísey og Grímsey, en það var vilji hæstv. fyrrv.

forsrh. og hæstv. fyrrv. samgrh. að á þeim málum yrði tekið nú á þessu hausti. Ég vildi því spyrja hæstv. fjmrh. að því hvað liði því máli, hvort hæstv. samgrh. hafi enga áherslu lagt á það að Hríseyjarferja yrði hér inni eða hvort ríkisstjórnin hafi gert það upp við sig að sinna málinu ekki.
    Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. fjmrh. að hann vék ekki einu einasta orði að hafnamálum. Nú vona ég að það þýði ekki að hafnamálum verði ekki sinnt eins og áður og að einstök sveitarfélög úti á landi megi ekki eins og áður fá fé að láni úr Hafnabótasjóði í gegnum Framkvæmdasjóð til þess að standa undir verulegum hafnarframkvæmdum. Um það var fullt samkomulag hjá þm. Norðurl. e. fyrir einu ári að standa þannig að málum í sambandi við miklar og óhjákvæmilegar hafnarframkvæmdir, bæði á Húsavík, Akureyri og í Grímsey til þess að hægt væri að leysa þann bráða vanda sem þar er og ég geri ráð fyrir að svipað sé háttað annars staðar á landinu, að framlög á fjárlögum dugi engan veginn til þess að hægt sé að fara í brýnustu framkvæmdirnar, eins mikið og hafnaféð er skorið niður og vegaféð. Það virðist vera þannig að ef Sjálfstfl. er ekki í ríkisstjórn sé gengið á samgöngumálin, þá sæki menn sér hnefa úr sjóðnum. Og þó svo að hæstv. samgrh. sé úr flokki hæstv. fjmrh. er ekki að sjá að hann hafi neinn skilning á því að hæstv. samgrh. kemur úr því kjördæmi þar sem hafnamál eru í mestum ólestri og það er ömurleg kveðja sem hann sendir þessum samstarfsmanni sínum, að ekki skuli vera betur séð fyrir þeim málaflokki. En ég sé að bæði framsóknarmennirnir og alþýðuflokksmennirnir hafa borið alþýðubandalagsmennina ofurliði nema það sé svo að hæstv. fjmrh. sé sama sinnis og þeir gistivinirnir Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrímur Hermannsson.
    Ég geri ráð fyrir því að hv. þm., fleiri en ég, hafi orðið svolítið undrandi þegar allt í einu kviknaði þessi mikli áhugi formanns Alþfl. og formanns Framsfl. hvors á öðrum og blíðlegir voru þeir þegar maður horfði á þá í sjónvarpinu þannig að það minnti pínulítið á blíðulætin í formanni Alþfl. fyrir síðustu kosningar þegar hann var að nudda sér utan í 1. þm. Vestf. sem kunni því illa. Eldi heitari/ brennur með illum vinum/ friður fimm daga,/ en þá slokknar/ er hinn sjötti kemur/ og versnar allur vinskapur. --- Ég geri ráð fyrir því um formann Alþfl. og formann Framsfl. að þessi heiti skyndilegi funi sem kviknað hefur milli þeirra muni jafnskyndilega slokkna og þá muni það á sannast sem hv. 2. þm. Árnesinga sagði á sínum tíma: ,,Þessi veislu- og vinahót/ verða ei nema prettir,/ eftir skammvinn skálamót/ skyrpa þeir eins og kettir.`` Má búast kannski við því. Þess vegna geri ég ráð fyrir að hæstv. fjmrh. taki þessu öllu með jafnaðargeði og taki því bara vel þó að honum hafi ekki verið boðið líka, en hann huggar sig eflaust við það að formaður Framsfl. sagði að auðvitað fengi Alþb. að vera með, það mætti ekki gleyma garminum honum Katli. ( Fjmrh.: Hvað var þetta með 1. þm. Vestf.? Ég skildi það ekki.) Það sem ég sagði um 1. þm. Vestf. var það að hann tók því illa þegar

formaður Alþfl. biðlaði sem ákafast til okkar sjálfstæðismanna og þóttist nú vilja
standa sig vel í því að aðlaga íslenskt þjóðfélag vestrænum atvinnuháttum og viðskiptaháttum, þóttist eins og við vilja halda sköttunum í lágmarki, þóttist eins og við vilja standa á bak við atvinnureksturinn, þóttist eins og við vilja hafa raungengið svona eitthvað í takt við atvinnulífið í landinu, þóttist eins og við vilja halda uppi hallalausum ríkisbúskap, þóttist eins og við vilja stefna svona heldur til hægri en ekki nudda okkur til vinstri. ( Fjmrh.: Ég var að spyrja um hv. 1. þm. Vestf.) Hv. 1. þm. Vestf. tók þessu ekki vel.
    Ég tel óhjákvæmilegt að vekja athygli á því í sambandi við 20. gr. þessa frv. að nú er gert ráð fyrir að ríkið leggi ekki eina einustu krónu í Atvinnuleysistryggingasjóð, enga krónu. Þessar 277 millj. kr. sem hér er gert ráð fyrir eru framlag atvinnurekenda. Þar til viðbótar kemur svo framlag sveitarfélaganna, jafnmikið, og síðan er ætlast til þess að ríkið leggi fram mótframlag á móti hvoru um sig, 554 millj. kr., og það er allt skorið niður, en þess í stað á það að ganga í Stefánssjóðinn. Ég verð að segja eins og er að mér finnst miklu eðlilegra, úr því að nota á þetta fé til þess að lána fyrirtækjum sem eru illa stödd, að Atvinnuleysistryggingasjóður geri það bara sjálfur og eygi þá von í að fá peningana til baka ef fyrirtækin geta þá endurgreitt. Ég sé alls ekki hvað er verið að gera með þennan millilið, Atvinnutryggingarsjóðinn. Mér er það alveg óskiljanlegt. Þetta er bara aukin fyrirhöfn og kostnaður. Þeir sem eiga sæti í Atvinnuleysistryggingasjóði hafa miklu betri skilning á atvinnulífinu og þörfum þess en þessir mattadorar ráðherranna sem sitja við hringborðið inni í Byggðastofnun, hafa hreiðrað þar um sig í óþökk allra, og betra að þessi mál séu með eðlilegum hætti. Ég man ekki hvort í rauninni er mikið meira um þetta að segja. Þetta er kjarni málsins í þessu.
    Mér finnst sumt heldur smátt. Þessi 25. gr. um eyðingu refa og minka má missa sig. Það er lítið við hana að gera. En það eru vegamálin. Hvernig var með þennan biðreikning? Það voru 180 millj. kr. á biðreikningi hjá ríkissjóði og var hugmyndin að þegar betur áraði skyldi skila þessu fé. Nú er mér ekki alveg ljóst hvað það er, en hitt þykir mér illt að nú skuli beinlínis gert ráð fyrir að þeir tekjustofnar sem standa undir vegaframkvæmdunum skuli skertir og ætlað að fara beint inn í ríkissjóð. Þetta er auðvitað algjör stefnubreyting. Við þm. höfðum fallist á það að hækka bensíngjaldið og þungaskattinn með því skilyrði að hækkunin rynni öll til vegamálanna svo að þetta er í raun og veru brot á gömlum samningi og gömlu samkomulagi í þinginu. Við sjálfstæðismenn tókum það mjög nærri okkur fyrir einu ári að vera neyddir til þess að fallast á að hluti af fé Vegasjóðs skyldi lagt á þennan biðreikning, en þeir voru svo áfjáðir í það bæði kratar og framsóknarmenn að skera niður vegaféð að undan því varð ekki komist og var því þó aðeins bjargað út í horn. En nú er lengra gengið. Nú

á að skerða vegaféð beinlínis og auðvitað er það rangt hjá hæstv. fjmrh. að hægt sé að draga svo úr viðhaldi að það svari til 4% aukningar í nýframkvæmdum. Það þykir mér alveg með ólíkindum og skal þó ekki segja meira um það. Þetta er mjög ótrúleg saga. Það verður auðvitað nauðsynlegt að spyrja vegamálastjóra um það hvað hann hafi um þetta að segja, en mér finnst það mjög hæpið.
    Það vekur athygli að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skuli ekki fá meira fjármagn en þarna er rætt um, 1 milljarð 275 millj. kr., var á síðasta ári 1 milljarður 142 millj. Hér segir í athugasemd um 29. gr.: ,,Í þessu frv. er að svo komnu máli miðað við að fjárhæð þessi verði 1 milljarður 275 millj. kr. á árinu 1989. Sú ákvörðun kemur til endurskoðunar við afgreiðslu frv. um tekjustofna sveitarfélaga og breytta verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.``
    Á síðasta þingi stóð Framsfl. gegn því að hægt væri að koma áfram hugmyndunum um breytta verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og því fór sem fór og umræður um þessi mál lágu algjörlega niðri hjá hæstv. félmrh. Það var svo sem ekkert unnið að því að móta hugmyndir um breytta skipan á þessum málum. Nú væri fróðlegt að fá upplýsingar hjá hæstv. fjmrh. um það hvað ríkisstjórnin hugsi sér fyrst svona beinlínis er skírskotað til þessara mála, hvenær megi búast við þessu frv. og hvort hann geri ráð fyrir að breytt verkaskipting ríkis og sveitarfélaga taki gildi á næsta ári. Hér er það greinilega gefið í skyn og það hlýtur auðvitað að koma bæði inn í umræðuna um þetta frv. og eins fjárlagaumræðuna.
    Eitthvað var nú hæstv. fjmrh. órólegur þegar hann var að skamma einhvern ónafngreindan bankastjóra úti í bæ eða einhvern umsjónarmann mikilla fjármuna --- ég náði því nú ekki alveg --- fyrir það að hann kynni ekki að haga málflutningi sínum þannig að hann væri faglegur, málefnalegur og efnislegur og mér fannst á hæstv. fjmrh. að hann óttaðist mjög að þessi óvarkárni --- Var það ekki bankastjórans? ( Fjmrh.: Já.) --- kynni kannski að valda því að fólk yrði órólegt og það drægi úr sparnaði og gæti komið inn á fjármagnsmarkaðinn með óheppilegum hætti. Mér fannst þegar hæstv. fjmrh. var að tala um þetta að hann væri að skamma Albaníu þegar hann vildi ekki skamma Kína. Mér fannst hann vera að rifja það upp fyrir deildinni að hæstv. forsrh. hefur verið að tala um
þjóðargjaldþrot sem hefur ekki haft góð áhrif á mann og ég get ekki skilið hvernig hæstv. fjrmh. býst við að fólk haldi áfram að eyða með sama hætti og áður ef gjaldþrot þjóðarinnar blasir við að bestu bænda yfirsýn. Og ýmislegt er það annað sem hæstv. forsrh. sagði sem greinilegt var á augum hæstv. fjmrh. að hann hafði áhyggjur af þegar hann var að skamma bankastjórann þó að það kæmi ekki út um munninn á honum og yrði ekki sagt með tungunni. Og þannig skilið átti þessi ádrepa auðvitað rétt á sér.
    Auðvitað hefur hæstv. forsrh. sagt margt óheppilegt. Auðvitað tekur maður eftir því að hæstv. sjútvrh. hengir gjarnan haus þegar hæstv. forsrh. er að

tala. Og auðvitað tekur maður eftir því að hæstv. fjmrh. skemmtir sér þegar hæstv. forsrh. talar sem mest því að hæstv. fjmrh. hefur svolítið blendinn húmor þegar þannig liggur á honum og hefur gaman af því þegar aðrir tala af sér. En þó er það nú svo að þetta mun að síðustu bitna á hæstv. fjmrh. sjálfum og mjög draga undan þeim trúnaði sem þessi ríkisstjórn hefur og var hann þó ekki mikill fyrir. Hæstv. fjmrh. segir í DV í dag, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Innheimtutölur fyrir október sýna mjög mikinn samdrátt. Endurmat á hvað muni gerast í nóvembermánuði og desember leiðir síðan að þessari niðurstöðu. Hún felur í sér að menn þurfa að endurskoða ýmsar af þeim hugmyndum sem þeir hafa haft um þróunina áfram. Ég tel að menn eigi að íhuga það mjög alvarlega að grípa fyrr til aðgerða heldur en ætlunin var.``
    Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir hér í deildinni að ekki verði gripið til gengisfellingar eða annarra slíkra aðgerða fyrr en í vor. Það frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því að gengið muni hækka á næsta ári. Eitthvað stangast þetta nú á. Nú segir hæstv. fjmrh. í dag að það þurfi að grípa til aðgerða fyrr en ætlunin var. Nú spyr ég: Var það rétt hjá hæstv. forsrh. að ætlunin hafi verið að fella gengið í vor? (Gripið fram í.) Hann talaði um vor, það er ekki um dag, það er árstíð. Ég hef spáð því að gengið verði fellt í janúar. Hefur hæstv. fjmrh. í huga að gengið verði fellt í janúar? Eða ætlar hæstv. fjmrh. að halda því til streitu að gengið hækki á næsta ári eins og hann leggur til í því frv. sem hér liggur fyrir?
    Það er viss list að vera vinsæll hjá blaðamönnum og fjölmiðlamönnum þegar ráðamenn eru með hálfkveðnar vísur. Ég held hins vegar að það geti verið mjög skaðlegt þegar ekki aðeins forsrh. landsins heldur líka nú hæstv. fjmrh. talar með þeim hætti að ógjörningur er að skilja það öðruvísi en að gengisfelling vofi yfir í ljósi þeirra funda sem voru í síðustu viku og þeirra yfirlýsinga sem komu þaðan, í ljósi þeirra frétta sem við fengum t.d. af framsóknarfundinum þegar stjórnarformaður SÍS (Gripið fram í.), forstjóri KEA og væntanlegur bankastjóri Landsbanka Íslands ( Gripið fram í: Að sjálfsögðu.), allir þessir þrír menn, þessi þríeini guð --- ég veit ekki hvort ég á að segja, ég þori ekki að segja það sem mér datt í hug því að ég gæti verið áminntur fyrir guðlast, virðulegi forseti, hér í ræðustólnum --- sá þríeini segir að það sé nauðsynlegt að fella gengið nú þegar um 15%. ( Gripið fram í: Minnst.) Minnst 15%. ( Gripið fram í: Helst 20%.) Alveg í kjölfarið á þessu kemur síðan fjmrh. og segir að það þurfi að grípa fyrr til ráðstafana en ætlunin var, alveg í kjölfarið á því að frystihúsin í landinu hafa þingað og lagt fram óyggjandi gögn um það að greiðslustaða þeirra sé hörmuleg og rekstrarstaðan óviðunandi.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti. Ég vil aðeins leggja áherslu á það í lokin að eins og þetta frv. liggur fyrir og ef maður um leið hefur í huga hvernig fjárlagafrv. er gert og les þjóðhagsáætlun

er það ljóst að ríkisstjórnin hefur enn þá í hyggju að auka hlutdeild sína í landsframleiðslunni, auka útgjöld sín að magni til, og hyggst standa undir því annars vegar með því að skattleggja atvinnureksturinn í meira mæli en gert hefur verið, skattleggja launatekjur manna í meira mæli en gert hefur verið, og á hinn bóginn með því að þrengja að fyrirtækjunum á erlenda lánamarkaðinum og loks með því að sækja stærri hlut en áður inn á innlenda fjármagnsmarkaðinn en gert hefur verið. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að hæstv. fjmrh. hefur áhyggjur af því að ríkisskuldabréfin muni ekki seljast og hann muni ekki ná þessum peningum með góðu. Þess vegna setti hann upp undarlega tölu um það að í hagkerfi eins og hinu íslenska sé nauðsynlegt að hin föðurlega hönd komi til og stjórni og stýri fjármagninu og það hyggst hann gera með því að skattleggja allan sparnað annan en þann sem fer í ríkishítina, bæði í bönkunum og annars staðar. Skuldabréf ríkissjóðs eiga að njóta skattfríðinda ein allra skuldabréfa. Og ekki nóg með það, hæstv. fjmrh. lýsti því yfir tvívegis í ræðu sinni að menn þyrftu ekki að óttast það að hreyft yrði við verðtryggingu ríkisskuldabréfanna. Þeir sem keyptu þau gætu verið óhræddir, þeir mundu fá sína peninga til baka.
    Að síðustu er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi með þeim töluðum orðum haft í huga að það ætti að draga svo úr verðtryggingu, t.d. á skuldbindingum lífeyrissjóða, einstaklinga, fyrirtækja, banka og annarra, að menn gætu ekki verið tryggir um það að verðtryggingin héldi. Var hann að gefa í skyn að hér yrði lögfest tvenns konar verðtrygging, sérstök verðtrygging
fyrir ríkisskuldabréfin og svo einhvers konar B-hluta verðtrygging fyrir aðra? Það kom ekki vel fram en nauðsynlegt er að fá það upplýst.