Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. 14. þm. Reykv. Því miður ber allt of mikið á þeirri hugsun að mitt er mitt en þitt er til skiptanna. Það á einmitt við í þeirri spurningu sem hann lagði fram til hæstv. fjmrh., af hverju sumir geti fengið meiri lífeyrissjóðsgreiðslur en aðrir fyrir það að hafa gegnt ýmsum stöðum í þjóðfélaginu.
    En það sem knúði mig til að taka þátt í þessari umræðu voru þau ummæli hæstv. fjmrh. að nauðsyn yrði að gera almenningi, forsvarsmönnum fyrirtækja, bankamönnum og fleiri almenna grein fyrir ýmsum hugtökum sem notuð eru í þjóðfélaginu og þá sérstaklega af stjórnmálamönnum og hagfræðingum, hvernig samspil ýmissa þátta er og hvaða áhrif einn þáttur hefur á annan. Það er nefnilega þannig að þeir sem fylgjast almennt með pólitík og því hvað er að gerast á þeim vettvangi gera sér oft ekki grein fyrir hvaða þýðingu ýmis hugtök hafa. Það er rétt, sem kemur fram hjá hæstv. fjmrh., að bara þessi einfalda spurning um nafnvexti og raunvexti vefst fyrir ég verð að segja meiri hluta almennings. Þetta einmitt spila sumir stjórnmálamenn á, að fólk gerir sér ekki almennilega grein fyrir þessu. Það má í þessu sambandi minna á yfirlýsingar stjórnmálamanna síðustu mánuði þegar talað er um lækkun á vöxtum og lækkun á vöxtum ofan. Þar er aðeins verið að tala um lækkun nafnvaxta en raunvaxtalækkunin er mjög takmörkuð. Ég vil taka undir heils hugar þá herferð, sem hæstv. fjmrh. ætlar að hrinda í framkvæmd, að reyna að upplýsa fólk og þá aðila í atvinnulífinu sem þessi mál skipta hvað í þessum hugtökum felist og hvernig eigi að nota það fjármagn sem þeir fá til ráðstöfunar og hvað það þýðir raunverulega að taka lán með 8 eða 10% vöxtum. Ég minnist þess að oft og tíðum kemur fólk til mín og er að spyrja um hvort það gæti fengið lán einhvers staðar. Þá er aldrei spurning um hverjir vextirnir eru. Það er aðeins spurning um að fá lánið og ef það fær ekki lán í bankastofnunum spyr það hvort ekki sé hægt að fá það á einhverjum fjármagnsmarkaði. Fólk hugsar ekkert út í hvernig það ætlar að borga þetta. Það er því fjarlægt og hugsunarhátturinn er enn þá svo mikill og ríkur í Íslendingum að leysa málin frá degi til dags.
    Þetta er eitt af þeim málum sem ég held að stjórnmálamenn eigi drjúgan þátt í. Hér hefur verið lenska að leysa alltaf mál með bráðabirgðalausnum sem duga kannski í 3--6 mánuði. Þetta er nákvæmlega sami hugsunarhátturinn og sá hugsunarháttur almennt hjá fólki að slá lán og hugsa ekki út í afleiðingar lántöku. Það hugsar ekkert um að spara með sér heldur einungis að fá lánið til að greiða skuld eða fara í einhverja skemmtireisu. Ég hvet fjmrh. til þess að hrinda þessu í framkvæmd.
    Á sama hátt, þar sem ég er lögfræðingur og hef fundið ýmislegt á sviði lögfræðinnar berast hér á borð, að það verði gert átak í því að gera fólki grein fyrir ýmsu á sviði lögfræðinnar og þeirrar stjórnskipunar sem við búum við. Þá á ég aðallega við grunnregluna

um þrígreiningu ríkisvaldsins, um þingræðið og lýðræðið og hvaða rétt fólk hefur í þessu landi. Sérstaklega með tilliti til þess að sú ríkisstjórn sem nú situr styðst við mjög takmarkaðan meiri hluta á þinginu er stór spurning: Er það eðlilegt þingræði og eðlilegt lýðræði sem hefur hleypt henni á valdastólana?
    Það frv. sem hér er til umræðu er frv. til lánsfjárlaga og eitt af því sem ég held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir er hvað í þessu frv. felst og hve áríðandi lánsfjárlög eru. Eins og kannski flestir hér inni vita byggjast lánsfjárlög annars vegar á þjóðhagsáætlun og hins vegar á fjárlagafrv. Í lánsfjárlögum er mælt fyrir um lánsfjáröflun innan lands og erlendis og ýmsar skerðingar á lögbundnum framlögum. Ég held að fólki sé þetta almennt ekki ljóst, en þetta er mjög veigamikið frv. og það sem ég held að einnig sé áríðandi að tala um í þessari umræðu er að þetta frv. fer á milli deilda og hefur aðra meðferð en fjárlögin sem þau óneitanlega tengjast mjög. Án þessa frv. eru fjárlögin einskis virði, en ríkisstjórnin hefur ekki þingmeirihluta í Nd. til að fá þetta frv. samþykkt. Mér hefur fundist eins og það hafi skort í umræðunni sem hér hefur farið fram að ef þetta frv. verður fellt í Nd. er allt fjárlagadæmið út úr kortinu. Þá hefur það frv. sem mjög líklega verður samþykkt í Sþ. mjög takmarkaða þýðingu þegar vantar svo margar heimildir sem í þessum lögum er mælt fyrir um.
    Það sem ég vildi gera að umtalsefni er að sú þjóðhagsáætlun sem þetta frv. byggir á er reist á mjög veikum forsendum. Þar er t.d. gert ráð fyrir að það verði engin gengisfelling og raunar gert ráð fyrir því að raungengi komi til með að hækka, en við sjáum öll sem fylgjumst með og vitum hvað er að gerast að þetta er mjög óraunhæft, enda hafa lánsfjárlög í gegnum tíðina verið meira og minna óraunhæf, því miður, út af því einmitt að forsendurnar og þá yfirleitt þjóðhagsspáin byggja á einhvers konar óskalista viðkomandi ríkisstjórnar sem verður til í október eða nóvember árið á undan því fjárhagsári sem lánsfjárlögin eiga að gilda.
    Hitt atriðið sem þetta frv. byggir á er fjárlagafrv. Eins og flestir vita er gert ráð fyrir nýjum tekjustofnum í því fjárlagafrv. sem nú hefur verið
lagt fram, en því miður hefur ekkert af þessum nýju tekjustofnum komið fyrir augu okkar og þess vegna er mjög erfitt að gera sér grein fyrir hvort tekjuhlið þessa fjárlagafrv. eigi við nokkur rök að styðjast. Þar fyrir utan hefur þessi ríkisstjórn ekki meiri hluta til að koma því fjárlagafrv. í gegn.
    Annað í fjárlagafrv. sem ég held að þurfi að koma hér fram er að þeir tekjustofnar sem til eru, t.d. söluskattur, virðisaukaskattur o.fl., byggjast á þeim forsendum sem eru en ekki eins og þær verða á næsta ári. Það hefur nefnilega verið lenska í gegnum tíðina að áætla tekjur út frá eyðslu fyrra árs en ekki út frá því hvernig þetta kemur til með að líta út á næsta ári nema að takmörkuðu leyti. Þess vegna hafa forsendurnar stundum verið mjög villandi.

    Lánsfjárlagafrv. er að ég tel reist á mjög veikum grunni og er mjög óraunhæft að tala um frv. af nokkru viti fyrr en réttar forsendur liggja fyrir um fjárlagafrv. og hvort sú þjóðhagsáætlun sem lögð er fram sé reist á þeim grunni að hægt sé að taka mark á henni. Eins og fram hefur komið eru strax komin tvö veruleg frávik frá þjóðhagsáætluninni. Það er annars vegar um ríkissjóðshallann, hann var áætlaður 3,4 milljarðar en stefnir núna í hátt í 5 milljarða, og síðan viðskiptahallann á næsta ári sem samkvæmt orðum hæstv. fjmrh. stefnir í 14--15 milljarða, en í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir 12,6 milljörðum. Svona frávik geta sett mjög stór strik í reikninginn.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri, en ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir mjög góða ræðu þegar hann mælti fyrir þessu frv. þó ég sé kannski ekki sammála honum í einu og öllu um það sem hann lagði áherslu á. En það kom margt mjög upplýsandi fram og þá sérstaklega að hann stefnir að því að takmarka mjög heimildir til fjárfestingarsjóða og bankastofnana til að taka erlend lán.