Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala hér langt mál, en minnast einkum á tvennt í þessu sambandi. Hið fyrra er að hæstv. fjmrh. hóf mál sitt með því að flytja þær fréttir að halli ríkissjóðs væri nú áætlaður 4 1 / 2 --5 milljarðar kr. og fór um það nokkrum orðum hvað hann færi samkvæmt áætlunum stöðugt vaxandi eftir því sem á árið líður. Nú er það þannig að fjvn. Alþingis hefur gefist kostur á að fylgjast með þeim athugunum sem fjmrn. hefur í frammi til að leggja mat á skattainnheimtuna fyrir þetta ár en með því að það liggja ekki fyrir neinar niðurstöður um það geri ég það að sjálfsögðu ekki að umtalsefni.
    Hins vegar vildi ég vekja athygli á því sem fyrir liggur um þessi efni. Þá er það fyrst til að taka hvaða áhrif þær skattkerfisbreytingar, sem voru gerðar á sl. vetri, kunna að hafa á tekjustofna ríkissjóðs. Þar á ég við breytingu á innheimtu tekjuskatts, þ.e. staðgreiðslunni, sem skilar á þessu ári um 20% meira fjármagni í ríkissjóð en gert var ráð fyrir við setningu fjárlaga sem að sjálfsögðu dregur úr ráðstöfunartekjum fólksins og þá helst þeim tekjum sem skila að öðru jöfnu mestum sköttum. Þetta er íhugunarefni út af fyrir sig og sú umdeilda ákvörðun, sem líka var tekin fyrir einu ári, að leggja söluskatt á matvörur. Það leiðir af þeirri ákvörðun, vonandi fæst það upplýst, að söluskattsinnheimtan er færð til í vöruvalinu og í staðinn fyrir að hún að öðrum kosti hefði komið af hátollavörum og þeim vörum í þjóðfélaginu sem fólk getur frekar verið án, þá er hún núna færð yfir á matvöruna. M.ö.o.: það er ýmislegt sem bendir til þess að skattþolið í þjóðfélaginu sé brostið, það dugi ekki að leggja á meiri skatta. Skattarnir hafa færst til á milli þeirra flokka sem þeir eru innheimtir af, en þeir hafa alls ekki aukist í sama mæli og ráð var fyrir gert.
    Ef það kynni að vera að það fengist staðfesting fyrir því að hér væri um nokkra skýringu að ræða sést það enn frekar hvað stefna núverandi ríkisstjórnar er algerlega vonlaus, sú stefna að draga saman meira fjármagn í þjóðfélaginu í gegnum skatta til að reka ríkissjóð og til að draga úr viðskiptahalla í stað þess að hækka útflutningsvörurnar með réttri gengisskráningu og taka þannig inn aukið fjármagn í þjóðfélagið. Þetta er að sjálfsögðu ákaflega skýr stefna hjá núverandi ríkisstjórn, þ.e. að reka atvinnulífið með halla og sækja fjármagn út í þjóðfélagið til að valda þessi markmið, en í ljósi þess að skattþolið er e.t.v. brostið hlýtur það að vera öllum hugsandi mönnum alveg ljóst hversu mikil eyðimerkurganga hér er farin.
    Ýmislegt er það að sjálfsögðu sem blandast saman í fjárlögum og lánsfjárlögum og með því að ekki liggur nú fyrir afstaða gagnvart afgreiðslu fjárlaga heldur einungis fjárlagafrv. ætla ég ekki að gera það sérstaklega að umtalsefni hér. Og með tilliti til þess hvernig fjárlög voru lögð fram má segja að það sé ekki óeðlilegt þó að lánsfjárlög taki þar mið af.
    En ég veiti því athygli, eins og reyndar kemur fram í skýringum fjárlagafrv., að ýmsan arf, sem hæstv. núv. fjmrh. tók við af fyrirrennara sínum, hefur

hann nú endurprentað og hygg ég að það sé nokkurt áhyggjuefni. Þannig er t.d. bæði með 23. gr. og 24. gr. um að skerða hina mikilvægu löggjöf sem snertir landbúnaðinn. Ég hef satt að segja trú á því að það mál hafi hæstv. fjmrh. ekki hugsað til enda. Ég verð að segja það alveg eins og er að það kæmi mér mjög á óvart, og þá er það ekki út frá neinni umfjöllun í fjvn. að þessu sinni, ef það gengi eftir eins og er í fjárlögum og eins og er í lánsfjárlögum, en það er best að láta tímann leiða það í ljós.
    Hins vegar finnst mér ástæða til að vekja athygli á meðferð lánsfjáráætlunar og fjárlagafrv. á vegagerðarfénu. Það hefur verið um það býsna góð samstaða á Alþingi að reyna að halda því í bærilegu horfi og ekki voru okkur vandaðar kveðjurnar frá Alþb. meðan það var í stjórnarandstöðu um fjárveitingar til vegamála. Ég tók eftir því að enn einu sinni hafði hæstv. fjmrh. orð á því að það ætti að auka fjármagn til framkvæmda í vegagerð en draga aftur þess í stað á móti úr viðhaldsfé. Ég held að þetta sé afar mikil einföldun og ég er alveg sannfærður um að hæstv. fjmrh. á eftir að komast að því og reyndar við öll í þessari deild og á Alþingi að þessi verður niðurstaðan ekki. Ég skal máli mínu til sönnunar fara aðeins yfir þetta dæmi í afar fáum orðum.
    Nú er það þannig að heildartekjur samkvæmt mörkuðum tekjustofnum til vegaframkvæmda, þ.e. bensíngjald, þungaskattur og sérstakt árgjald, eru samtals 3 milljarðar 565 millj. kr. Það er lagt til í frv. til lánsfjárlaga að skerða þessa tekjustofna um 600 millj. þannig að þá verða eftir 2 milljarðar 965 millj. kr. Síðan eru eftirstöðvar af þessum tekjustofnum frá fyrra ári upp á 180 millj. kr. þannig að þegar búið er að draga frá skerðinguna upp á 600 millj. gefa þessir tekjustofnar 3 milljarða 145 millj. kr. Fjárlagatalan er hins vegar 3 milljarðar 105 millj. eða 40 millj. kr. lægri en tekjustofnarnir eru þrátt fyrir skerðinguna. Hér er sem sagt ekki einu sinni staðið við að skila því fjármagni sem geymt var samkvæmt ákvörðun síðasta Alþingis. En það segir svo aftur kannski öllu meira í þessu dæmi að bera saman vegáætlunina og
fjárlagafrv. og þá er það að sjálfsögðu það sem skiptir máli að bera saman vegáætlun þessa árs yfirfærða á verðlag fjárlagafrv. Þá væri hún samkvæmt því 3 milljarðar 350 millj. kr. eða 245 millj. kr. hærri tala en fjárlagafrv. kveður á um að eigi að fara til vegamála. Hér er þess vegna um að ræða umtalsverða skerðingu frá þeirri vegáætlun sem unnið er eftir á þessu ári.
    Það er líka athyglisvert og á það legg ég áherslu að ýmsir stórir kostnaðarþættir sem þegar eru ákveðnir, t.d. eins og í sambandi við vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og í sambandi við jarðgangagerð í gegnum Ólafsfjarðarmúla, eru úti í kuldanum og vek ég sérstaklega athygli á því að til viðbótar við Ó-vegafé þarf 300 millj. kr., sem hvergi eru inni í þessu frv., til að mæta kostnaðinum við Ólafsfjarðarmúla og það vantar 50 millj. kr. miðað við það sem var á þessu ári

til vegaframkvæmda hér í þéttbýlinu sem hvergi er í fjárlögum né heldur í lánsfjáráætlun. Hlutur Vegagerðarinnar og vegaframkvæmda í fjárlagafrv. er því sannarlega ekki með þeim hætti að þar verði um framkvæmdaaukningu að ræða heldur þvert á móti. Ef þær tölur sem fyrir liggja í fjárlagafrv. verða með sama hætti og þar er sett upp verður að sjálfsögðu um umtalsverðan samdrátt í nýbyggingu í vegaframkvæmdum að ræða. Ég er satt að segja hissa á því hvað menn tala ógætilega í þessum efnum og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. þegar niðurstöður um þessi efni liggja jafnskýrt fyrir og raun ber vitni um.