Helgidagafriður
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að Íslendingar megi ekkert verk vinna svo slæmt að ekki megi vinna það á sunnudegi. En auðvitað getur verið ágreiningur um það sem fleira. Ég vek hins vegar athygli á því að sunnudagarnir eru 52. Ef við leggjum hina dagana við erum við komnir með allálitlegan fjölda eða mikinn meiri hluta af þeim frítíma sem almenningur hefur. Við erum þess vegna, með þessari lagasetningu, að setja því verulegan ramma hvernig almenningur getur hegðað sér í sínum frítímum. Ég tel t.d. að það fari ekkert á milli mála að þær reglur sem gilt hafa um annan dag hvítasunnu hafa orðið til að skapa veruleg vandamál hér á landi. Það hefur leitt til þess að menn hafa leitað í stórum stíl út í náttúrunna til þess að komast undan þessum lögum, ef svo mætti komast að orði, því það er ekki bannað að tjalda. Ég veit ekki heldur til þess að flm. ætli að leggja til að bannað verði að drekka brennivín á þessum dögum. Þessar hvítasunnuhátíðar æskumanna, sem eru tilkomnar vegna þess að við höfum þetta bann, hafa náttúrlega skapað veruleg vandamál.
    Ég verð að segja eins og er að ég held að það væri mjög lærdómsríkt og jákvætt fyrir þá sem fara yfir þetta að minnast þeirrar guðsþjónustu sem við hlustuðum á þegar þingið var sett. Þar tók ágætur kennimaður sig til og vakti athygli á því að þegar farísearnir ætluðu að setja reglur um alla skapaða hluti lentu þeir í voðalegum ógöngum. Það var nú einu sinni svo að þeir bættu alltaf við reglu á reglu og voru komnir með fyrirmæli um það hvernig mönnum bæri að hegða sér og hvað þeir mættu ekki gera sennilega yfir 60--70 daga á ári. Og ég er ekki búinn að sjá það, þó að sumum finnist hestamennskan til lítils gagns, að það bæti nokkurn skapaðan hlut hátterni manna í kristnu tilliti þó að þeir fari af hestbaki. Ég er ekki búinn að sjá það. Ég vil fá upplýsingar um það ef menn geta sýnt einhver rök fyrir því. Ég held þess vegna að það þurfi mjög að gá að sér þegar menn ætla að fara að setja reglur um hegðun manna yfir 60 daga á ári og segja að Alþingi skuli boða þar mjög harða og ákveðna stefnu. Auðvitað má segja sem svo að menn taki þetta kannski ekki allt of alvarlega en hins vegar er það spurning hvort við höfum vald á að koma í veg fyrir ýmsa skemmtun þó menn vildu nú standa á þessu. Nú er t.d. alls staðar sjónvarp í heimahúsum og menn geta horft á kabarett og revíur. Þeir geta horft á veðreiðar og hvað sem er í heimahúsum þessa dagana og það eru gervihnettir sem útvarpa þessu. Ég vil því eindregið mælast til þess að menn gái að sér í þessum efnum og í það minnsta að lagasetningin sem slík verði ekki til þess að hópa mönnum til starfsemi sem er miklu óhagstæðari kristnu samfélagi en ef Alþingi léti ógert að semja of strangan ramma um hátterni manna.