Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim fyrrv. fjármálaráðherrum sem líklega er átt við þegar vitnað er til samninga við þá sem ekki gátu af einhverjum ástæðum staðið í skilum við innheimtumenn ríkissjóðs, þá sem horfðust í augu við það að verða gerðir upp þar sem þeir gátu ekki greitt af einhverjum ástæðum og þurftu kannski að tvístra heimilum og hefðu á allan hátt orðið á köldum klaka ef ekki næðist samkomulag um greiðslutilhögun. En það skal ég viðurkenna að fólk er almennt þeirrar skoðunar að opinberir innheimtumenn séu þeir aðilar í þjóðfélaginu sem einna ósveigjanlegastir séu og ekki við mælandi til samkomulags ef tímabundinn eða varanlegur vandi gerði það að verkum að ekki væri staðið í skilum. Ég tel að því leytinu til gott að fá þetta frv. að það leyfir samninga við þessa aðila. En ég vil mótmæla því að það hafi verið túlkun fjmrn. að þessir samningar hafi verið óheimilir hingað til.
    Í því frv. sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir því að innheimtumenn mæli með samningnum við ráðherra að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar. Hingað til og í þann tíma sem ég þurfti að taka ákvörðun um þessi mál var það venjulega svo að innheimtumenn ríkisins sáu sér hag í að neita öllum um fyrirgreiðslu vegna þess að þeir höfðu beinlínis hag af því að fólk yrði gert upp og gengið yrði að því miskunnarlaust. Þannig var síðasta leiðin sem fær var að fara til ráðherra og spyrja hvort hann vildi gefa sitt leyfi til þess að frekar yrði samið en að fólk yrði sett í þann vanda sem það kæmist kannski ekki á lífstíðinni úr aftur.
    Ég get staðið að þessu frv. út af fyrir sig en tel það hreina heimsku og vanþekkingu á gangi mála í ríkiskerfinu að ætla að setja innheimtumann, starfsmann ráðherra, í eins konar yfirmannsstöðu yfir ráðherra eða að gera Ríkisendurskoðun að eins konar yfiraðila á annan hátt en þann sem hún á að vera, þ.e. sem endurskoðun. Slík spennutreyja á ráðherra, hver sem hann er, á engan rétt á sér. Ef ráðherra er maður sem hefur hæfileika til þess að hugsa með hjartanu þegar á reynir, og það hafa þeir flestir, á hann að hafa frjálsar hendur til þess að taka sínar ákvarðanir. Að sjálfsögðu verður hann svo að standa reikningsskil sinna ákvarðana til Ríkisendurskoðunar hér eftir sem hingað til, þrátt fyrir þá breytingu sem gerð hefur verið á Ríkisendurskoðun sem heyrði áður undir fjmrn. en er nú orðin stofnun sem heyrir beint undir Alþingi.
    Það gengur ekki að Alþingi, löggjafinn, haldi áfram að torvelda ráðherrum starf sitt. Ráðherrar, alveg sama í hvaða málaflokki þeir eru, eiga að hafa ákveðið svigrúm til þess að þeirra persóna og þeirra mat á hlutunum hverju sinni nái fram að ganga. En að sjálfsögðu verða þeir að vera ábyrgir gerða sinna á sama hátt og við, sem hér erum, kjósum ráðherra sem við treystum. Við kjósum menn sem við treystum til þess að gegna ábyrgðarstöðu. Ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir við það þó að starfsmaður ráðherra sé gerður að yfirmanni ráðherra í þessum

málum, en það skal vera innheimtumaður sem færir málið til ráðherra, ekki sá sem er í vanda, ekki sá sem á að standa skil á greiðslunni. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef verið áhorfandi að því að innheimtumenn ríkisins eru miskunnarlausir í sinni innheimtu og hugsa ég að flm. hafi líka orðið var við það. Í hverju horni í þjóðfélaginu er fólk í vandræðum. Reynið að fara með erindi til Gjaldheimtunnar í Reykjavík og athugið hvaða svar þið fáið. Hún er sameiginleg fyrir ríki og borg. Það er fyrir fram ákveðið að þar skuli ekki orðið við neinni beiðni. Núna er komin smá smuga, ég skal viðurkenna það, en það var ekki nokkur leið að ná samkomulagi. Lagalegu leiðina skyldi það ganga.
    Þegar ég gegndi embætti fjmrh. var talið af mínum starfsmönnum og líka af innheimtumönnum ríkisins að heimilt væri fyrir ráðherra að veita greiðslufrest, að fara samningaleiðina. Það getur aldrei hið sama gengið yfir alla, það er ekki nokkur leið, því miður. Við skulum taka sem dæmi mann sem fær algera neitun hjá ráðherra af því að ráðherra hefur ekki leyfi til þess að veita neinum greiðslufrest lögum samkvæmt. Við semjum ekki, við erum opinberir aðilar, við höfum valdið til þess að knésetja þig. En sumir geta gengið inn í ríkisbankana, ekki allir, og fengið lán af því að þeir þekkja kannski bankastjórann eða af því að þeir eiga hús sem þeir geta látið í tryggingu. En litli maðurinn getur ekki gengið inn í ríkisbankann og fengið lán fyrir opinberum gjöldum. Hann verður bara að tapa því litla sem hann á af því að hann þekkir ekki bankastjórann og á ekkert stórhýsi til þess að láta að veði. Það er aldrei hægt að gera alla jafna í þjóðfélaginu. Það er ekki hægt þó að við reynum það. Og þess vegna er gott að hafa mann eða menn í öllum málaflokkum ríkisstjórnarinnar sem geta hugsað með hjartanu þegar á reynir. Mann sem getur haft vit fyrir innheimtumanninum og staðið seinna skil gjörða sinna við Ríkisendurskoðun. Enginn ráðherra brýtur af sér til þess að þóknast einhverjum. Það gerir enginn. En það getur vel verið að ráðherra sveigi jafnvel til lögin til þess að bjarga öðrum, til þess að bjarga fjölskyldum.
    Ég kannast ekki við þá fullyrðingu sem kom hér fram hjá hv. flm. að
greiðslufrestur sé veittur með mismunandi kjörum. Það frábið ég mér. Hann verður að beina því á einhvern ákveðinn vegna þess að þetta er ásökun. Þetta þekki ég ekki. Kjörin hafa alltaf verið þau sömu hvað mig snertir. Og ég vil vara við því að innheimtumaður ríkissjóðs, maðurinn sem er undir ráðherrann settur í kerfinu, vinnur fyrir hann og á hans ábyrgð, skuli þurfa að óska eftir greiðslufresti og að litli maðurinn geti ekki gengið inn af götunni og talað við ráðherra um sín vandamál og fengið fyrirgreiðslu, fengið afgreiðsluna.
    Að öðru leyti er ég sammála þessu frv., tel það að vísu gersamlega óþarft en það skemmir ekki.