Grunnskóli
Miðvikudaginn 23. nóvember 1988

     Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):
    Herra forseti. Á þskj. 90 höfum við þrír þm. Sjálfstfl. leyft okkur að flytja frv. til til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 63/1974. Frv. er byggt annars vegar á stefnumörkun Sjálfstfl. og hins vegar stefnumörkun fjölskyldunefndar ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Tilgangur frv. er að auka réttindi og menntun barna og bæta aðstöðu fjölskyldna með því fyrst og fremst að samræma vinnutíma foreldra og barna.
    Efnisatriði frv. bera það með sér að þau ráð sem það bendir á eru fyrst og fremst fólgin í lengingu daglegs skólatíma. Á sama tíma og þetta frv. er borið fram höfum við einnig borið fram önnur frv. og þáltill. um skólamál sem varða svipað atriði. Á þskj. 91 er till. til þál. um lengd skólaárs og samfelldan skóladag og í efri deild hefur hv. þm. Salome Þorkelsdóttir ásamt fleirum flutt frv., sem hún hefur raunar flutt áður, um skólaráð sem fela í sér aukin áhrif foreldra á skólastarfið.
    Ef ég vík nánar að efnisatriðum frv. felst í 1. gr. þess ákvæði um að 6 ára bekkur verði fyrsti bekkur grunnskólans, þ.e. að 6 ára börn verði skólaskyld, það sé ekki einungis fræðsluskylda heldur og skólaskylda að því er 6 ára börn varðar. Menn geta spurt: Hví er verið að skylda blessuð börnin til að fara í skóla? Þeim leiðist kannski sumum þar. Og hvað hyggjast menn fyrir með tillögu sem þessari? Nú er það svo að það er ljóst að skólaskyldan hér á landi hefur tvímælalaust verið lykill að miklu betri aðstöðu barna til menntunar en var fyrr á tíð og hún er liður í því að tryggja jafnrétti barna hvar sem þau búa á landinu.
    Staðreyndin er sú að af öllum 6 ára börnum eru það 98,7% sem eru í grunnskóla núna og njóta skólavistar í svokallaðri forskóladeild en í mismunandi mæli og af ástæðum sem ég kem síðar að. Þetta sýnir að vilji foreldra til þess að láta börn sín njóta þessarar fræðslu er mjög eindreginn. Það er því ljóst að þessu tilboði hafa foreldrar tekið fagnandi. En samkvæmt núgildandi lögum fer sú kennsla sem 6 ára börn fá eftir því hve mörg börn eru í bekknum, þannig að 6 ára börn, sem eru e.t.v. í hópi með 5--6 öðrum börnum, fá langtum minni kennslu. 18 barna bekkur fær þrefalt meiri kennslu. Í þessu teljum við að verulegur galli sé fólginn, sérstaklega alvarleg mismunun gagnvart börnum í dreifbýli. Í mörgum umdæmum er það líka svo að þessi kennsla er dregin saman í tiltölulega skamman tíma að vorinu og er ekki að öðru leyti.
    Með því að hverfa að því ráði sem lagt er til í þessu frv. verður 6 ára hópurinn einfaldlega að bekk í skólanum eins og 7 ára og 8 ára bekkurinn er núna og 6 ára bekkurinn verður þá 1. bekkur grunnskólans. Það þýðir að viss réttindi eru við það bundin. Þau réttindi felast fyrst og fremst í því að þá tekur ríkið á sig ábyrgð á útvegun námsgagna. Sú ábyrgð er ekki sjálfkrafa talin fylgja fræðsluskyldunni einvörðungu en þegar um er að ræða skólaskyldu eða skyldunám nemandans gilda ákvæði laga um Námsgagnastofnun þess efnis að skylt sé að leggja þeim hópi til

námsgögn. Þetta þýðir það líka að þá verður auðveldara allt skipulag skólaársins fyrir þennan aldurshóp, meiri samfelldni verður í öllu skólahaldinu og það verður líka kostur á samkennslu 6, 7 og 8 ára barna í mjög fámennum skólum þar sem nú stendur svo á að 6 ára börnin eru mjög afskipt.
    Til þess að ná þessu marki leggjum við til í 2. gr. frv. að kennslutími á hvern nemanda verði skipulagður í 6 ára bekknum eins og í 7 ára og 8 ára hópunum og öðrum hópum grunnskólans, þ.e. að á hvern nemanda verði í 1. bekk 6 ára barna 1200 mínútur á viku. Þetta er vissulega framtíðarmarkmið og ég kem að því síðar hvernig við leggjum til að því verði náð. Stefnt er að því með þessu að dvöl barns í skólanum geti orðið allt að 6 klst., þ.e. í þeim 6 klst. eru innifaldar kennslustundirnar sjálfar sem eru 40 mínútur hver, stundahlé á milli þeirra kennslustunda og matarhlé. Samtals geti því viðvera nemanda í skólanum orðið 6 klst.
    Við teljum að þetta skipti geysimiklu máli fyrir öryggi barna og festu í fjölskyldulífi. Við gerum okkur það ljóst að hér er um allmikinn kostnað að ræða. Þess vegna gerum við okkur líka ljóst að þetta er framtíðarmarkmið sem ekki verður öllu náð í einu vetfangi. Lagt er til að markinu verði náð í vissum áföngum sem skilgreindir eru í fylgiskjali með frv. en þetta fylgiskjal er sá hluti áfangaskýrslu fjölskyldumálanefndar ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sem fjallar um skólamálin.
    Á meðan aðstaða hefur ekki myndast til að veita 6 ára börnum alla þá kennslu sem hér er gert ráð fyrir leggjum við á það mikla áherslu að komið verði á fót skólaathvörfum við hvern grunnskóla þar sem nemendur geta dvalist utan kennslustunda undir leiðsögn uppeldismenntaðs fólks. Við gerum ráð fyrir að heimilt sé að taka gjald fyrir dvöl nemanda í skólaathvörfum og upphæð gjaldsins skuli ákveðin af skólastjóra í samráði við fræðslustjóra. Þessar hugmyndir um skólaskyldu 6 ára barna, lengri skólatíma þeirra og skólaathvörf, þannig að lítil börn geti haft aðstöðu til að dveljast í skólanum undir leiðbeinandi eftirliti á þeim tíma eru í samræmi við álit forskólanefndar sem svo var kölluð og vann mikla skýrslu fyrir menntmrn. á sínum tíma. Sú skýrsla
lá reyndar fyrir þegar á árinu 1981 en formaður þeirrar nefndar, Sigríður Jónsdóttir námsstjóri, hefur nokkrum sinnum ritað bréf í framhaldi af þessu og minnist ég þess á þeim tíma sem ég átti sæti í menntmrn. að hennar ábendingar um þau réttindi, sem fælust í sjálfri skólaskyldunni fyrir börnin, voru mjög þungar á metum. Hún færði fyrir þeim þau rök sem ég m.a. benti á áðan. Þau rök eru einfaldlega fólgin í því að skyldunámsfólki eru í lögum búin tiltekin réttindi. Svo að ekkert fari nú á milli mála með hugtökin eru þeir sem stunda skyldunám þeir sem eru skólaskyldir. Svo skringilegt sem það er að vera að tala um hvað svona einföld orð þýða, þá geri ég það nú samt því ótrúlegt er hvað menn geta teygt hugtök í umræðum um þessi mál sem ýms önnur.
    Nú gerum við í frv. ráð fyrir að daglegur skólatími

annarra nemenda lengist einnig. Við gerum líka ráð fyrir að lengd kennslustundanna fari eftir ákvörðun skólastjóra en samfelld kennslustund megi ekki vera lengri en 80 mínútur og alls ekki skemmri en 20 mínútur en meðallengd kennslustunda verður um 40 mínútur. Síðan er gert ráð fyrir að stundahléin séu aldrei styttri en 15 mínútur á móti hverjum 100 mínútum sem kenndar eru.
    Þessar hugmyndir um lengingu skóladags eru mikilvægasti þátturinn í að koma á samfelldum skóladegi. Ég hygg að það sé orðið almennt viðurkennt víðast hvar að það fyrirkomulag sé mjög æskilegt fyrir fjölskyldur og fyrir öryggi barna, fyrir heilsu þeirra og menntun.
    Á þetta atriði var mjög eindregið bent í nefnd þeirri sem fjallaði um samstarf heimila og skóla og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir veitti forstöðu á sínum tíma og tók til starfa á árinu 1983. Bæði þar og í öðrum starfshópum, sem um þetta hafa fjallað, hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að samfelldur skóladagur sé lykilatriði. En samfelldur skóladagur er einungis það að börn þurfi ekki að fara nema einu sinni á dag til og frá skóla. Þó hefur það ekki verið talið rjúfa þessa samfelldni að börn í dreifbýli hafi getað farið heim til sín í matarhléi ef unnt var tímans vegna.
    Ég vil taka fram að hugmyndirnar um það að foreldrar beri kostnað af starfsemi skólaathvarfs utan kennslustunda kom fram í nefndinni um forskólann á sinni tíð og hlýtur að auðvelda framkvæmd þessa verkefnis.
    Ég tek það fram að hér í ákvæði til bráðabirgða hefur slæðst inn lítil prentvilla. Þar er vísað í ranga grein. Í síðari mgr. ákvæðis til bráðabirgða í þessu frv. stendur: ,,Ákvæði 5. gr. um vikulegan kennslutíma . . . `` Þar á að standa: ,,Ákvæði 2. gr. . . . `` eins og menn sjá af frv. Og þau ákvæði skulu að fullu koma til framkvæmda skólaárið 1993--1994.
    Þá vil ég víkja að áfangaskiptingunni við framkvæmd þessa ákvæðis, ef að lögum verður sem ég vona. Gert er ráð fyrir því að byrjað verði á lengingu skóladags í 7 og 8 ára bekkjum. Það er látið ganga fyrir lengingu skóladagsins, lengingu kennslutímans fyrir 6 ára börn. En í áliti nefndarinnar segir um þetta, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með breytingu á 44. gr. grunnskólalaganna, sem samþykkt verði fyrir næstu áramót, verði skóladagur 1. og 2. bekkjar lengdur sem nemur 4 kennslustundum á viku fyrir hvorn árgang frá því sem nú er í gildi og verði því 26 stundir á viku. Breytingin taki gildi fyrir skólaárið 1989--1990. Samkvæmt upplýsingum menntmrn. mun kostnaður ríkissjóðs aukast um tæpar 48 millj. kr. á ári vegna kennslumagnsins. Kostnaðarauki sveitarfélaganna er óverulegur af þessari breytingu.``
    Þetta var úr áliti nefndarinnar, tillagan um framkvæmd 1. áfanga. Nú vil ég taka það fram, herra forseti, að mér þykir ekki mjög mikil von um að þetta komist fram fyrir áramót, en hins vegar geri ég mér vonir um að hv. Alþingi geti samþykkt þetta frv. fyrir

þinglok. Það þýðir að þessi kostnaður mundi minnka stórlega og aðeins verða þriðji hluti hans eftir, að því er ég tel, þetta kæmi til framkvæmda á næsta skólaári, þ.e. næsta haust þannig að þessi tala, kostnaðartalan, mundi þá breytast í samræmi við það fyrir næsta ár.
    Í 2. áfanga gerir nefndin svohljóðandi tillögu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í honum er gert ráð fyrir að forskólanum verði breytt í bekkjarfyrirkomulag þannig að allir njóti sama kennslustundafjölda óháð fjölda barna í árgangi. Gerð er tillaga um að breytingin taki gildi skólaárið 1990--1991.
    Kostnaðarauki fyrir ríkissjóð er áætlaður um 55 millj. kr. á ári. Þegar liggja fyrir tillögur starfshóps á vegum menntmrn. um þetta mál.``
    Þetta atriði, sem rætt er um í 2. áfanga, fjallar um 6 ára bekkinn sem ég gerði grein fyrir nú áðan. Að því er kostnaðartöluna varðar vil ég taka fram að inni í þessari tölu er einnig kostnaður vegna námsgagnanna.
    Síðan gerir nefndin ráð fyrir því að 3. áfangi komi til framkvæmda 1991--1992 og þá verði skóladagur lengdur þannig að 1. bekkur fái 28 kennslustundir á viku, 2. bekkur sama magn og 3. bekkur líka. 4. bekkur fái 30 kennslustundir á viku, 5. fái 33, 6. fái 35, 7., 8. og 9. bekkur fái 36 kennslustundir á viku hver bekkur. Kostnaður vegna aukins kennslumagns í þessum áfanga verður rúmlega 72 millj. kr. Það er ljóst að þessi áfangi kallar á aukið húsnæði þar sem þörf verður á einsetningu. Í Reykjavík verður þörfin á
almennum kennslustofum fyrir rúmlega 200 bekkjardeildir sem nú eru síðdegisdeildir. Þessi breyting sem frv. gerir ráð fyrir þýðir að við verðum að gera ráð fyrir einsetnum skóla. Nú er það svo að einsetningu hefur sem betur fer víða verið náð, en töluvert vantar þó á, eins og hv. þm. heyra, að svo sé enn.
    Áætlað er að stofnkostnaður vegna einsetningar í Reykjavík muni nema um 860 millj. kr. ef miðað er við norm menntmrn. sem gerir ráð fyrir um 55 þús. kr. kostnaði á hvern fermetra. Hins vegar má benda á að samkvæmt útreikningum sveitarfélaga er byggingarkostnaður á fermetra mun hærri en norm menntmrn. gera ráð fyrir og þess vegna verðum við að vera við því búin að þessar tölur verði þó nokkuð hærri eins og oft vill verða um hinar opinberu framkvæmdir og dæmin sanna. Ef upplýsingar skólaskrifstofu Reykjavíkur eru lagðar til grundvallar, þá má reikna með að þessi kostnaður nemi allt að 80 þús. kr. á fermetra og séu þær tölur lagðar til grundvallar yrði kostnaður um 1250 millj. kr. Þar af yrði hlutdeild ríkisins 430--625 millj. kr. Þetta vil ég taka fram því að menn verða að ganga að slíkri breytingu með opnum augum en meta líka mikilvægið og átta sig á því að þótt við séum að tala um mjög háar fjárhæðir, þá erum við að tala um hlut í starfsemi sem kostar í rekstri 3,2 milljarða á þessu ári bara samkvæmt fjárlögum. Og menn vita að ekki fer sú upphæð lækkandi að óbreyttu þannig að það er

ljóst að rekstrarkostnaðurinn er í sjálfu sér ekki svo feikilega stór í samanburði við heildarrekstrarkostnaðinn.
    Loks kem ég, herra forseti, að hugmyndinni um framkvæmd 4. áfanga, en nefnd ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar gerði ráð fyrir því að fyrir skólaárið 1992--1993 yrði skóladagur lengdur þannig að 1., 2. og 3. bekkur færu þá upp í 30 kennslustundir á viku hver og 4. bekkur fengi 32, 5. bekkur 34, 6. bekkur 35, 7. bekkur 36--37 og sama væri um 8. og 9. bekk, þeir fengju 36--37 kennslustundir á viku hvor. Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna þessa áfanga er áætlaður 72 millj. kr. á ári. Og vegna þessa gerum við þá brtt. sem felst í frv. á 44. gr. grunnskólalaganna.
    Við getum spurt: Hvers vegna er verið að leggja til að daglegur skólatími nemenda sé lengdur? Og við getum líka spurt: Hvers vegna eru sjálfstæðismenn að leggja til að árlegur skólatími nemenda í mörgum skólum sé lengdur? Við teljum einfaldlega að hér sé um jafnréttismál að ræða. Við teljum að hér sé um mikilvægt byggðamál að ræða. Stundum hefur það verið haft á orði, ekki síst meðal þeirra sem eiga börn í dreifbýlisskólum, að það sé einkennilegt að þessi börn standi öðruvísi að vígi þegar þau koma í framhaldsskólann heldur en önnur börn á landinu. Menn telja kannski að þar sé hið alræmda Reykjavíkurvald að klekkja á blessuðum börnunum. Menn kvarta um það að þetta kunni að vera vegna þess að þau fái lélegri kennara. Ég leyfi mér að draga í efa að slíkar tilgátur séu réttar. Ég held að þetta mál sé miklu flóknara. Það liggur að vísu ekki fyrir alhliða vísindaleg athugun á þessu, en það skyldi þó ekki vera að orsakarinnar væri að leita í því að þau börn, sem standa höllum fæti eftir grunnskólann eða a.m.k. ekki eins vel og meiri hluti barna, hafi oft og tíðum fengið skemmri skólatíma, þau hafi fengið minni kennslu en hin. Þar virðist vera nokkuð einföld orsök.
    Hér er um að ræða mál sem ég held að ætti að vera tiltölulega augljóst að bæta þurfi úr og kippa í lag. Spyrja má hvort þarna sé um mikið kostnaðaratriði að ræða. Það er ekki um kostnaðarauka fyrir ríkið að ræða í breytingu úr 8 mánaða skóla í 9 mánaða skóla, en það kann að vera lítils háttar kostnaðarauki fyrir sveitarfélagið vegna þeirra þátta sem það hefur haft á sinni könnu. En þar eru fjárhæðir sem eru svo hverfandi samanborið við heildarkostnaðinn og sjálfan ávinninginn að ég tel ekki áhorfsmál að þarna verði að breyta til í þessu máli sem er ótvírætt jafnréttismál byggðarlaga. Það er afar erfitt að sjá rökin fyrir mismunandi framkvæmd í sumum fræðsluumdæmum, jafnvel milli einstakra staða innan fræðsluumdæma. Það er mjög erfitt að sjá t.d. af hverju börn á Egilsstöðum fá skemmri skólatíma en jafnaldrar þeirra á Sauðárkróki og Ísafirði. Þetta er einfaldlega spurning um það hvort ríkisvaldið og löggjafarvaldið viðurkennir þá breytingu sem orðið hefur á þróun þjóðfélagsins þar sem gerð er enn meiri krafa en áður var til menntunar þjóðfélagsþegnanna og

þar sem þekking þjóðfélagsþegnanna er ein öruggasta auðlindin sem þetta land á og það sem við verðum að byggja á í framtíðinni. Það er líka spurningin um það hvort stjórnmálamenn yfirleitt hafa áttað sig á þeirri staðreynd að það þýðir ekki að snúa klukkunni aftur á bak. Við snúum ekki við til þeirra þjóðfélagshátta að við höfum heimiliskennara sem geta annast menntun barna okkar eins og kannski sumir forfeður okkar höfðu eða þá að foreldrar, mæður kannski fremur, afar eða ömmur, geti annast fullnægjandi fræðslu barnanna.
    Ég hef heyrt skynsamt fólk segja: Hvers vegna í ósköpunum eruð þið sjálfstæðismenn að berjast fyrir slíkum málum og einkanlega þó konurnar í Sjálfstfl.? Eruð þið konurnar í Sjálfstfl. allar komnar á þá skoðun að mæðurnar eigi bara allan daginn að geyma börn sín í skólunum vegna þess að þær vilja ekki sinna þeim? Og bæta svo gjarnan við: Ja, afi minn var allra manna
best menntaður og hann hafði ekki aðra skólamenntun en þrjá mánuði í farskóla. Hann var afar vel að sér, hann afi minn. Við þekkjum yfirlýsingar á borð við þetta. Við búum bara í öðru þjóðfélagi í dag og við viljum að foreldrar dagsins í dag geti öruggir sinnt þeim verkefnum sem nútímaþjóðfélag krefst að þeir sinni með því að börn þeirra, sem ætlast er til að stundi skólanám og þau vilja að njóti menntunar, þau njóti líka öryggis og umönnunar af hálfu þeirrar stofnunar sem deilir uppeldishlutverkinu með þeim.
    Þess vegna finnst mér vera tímabært að velta því fyrir sér, þó að að því sé ekki vikið í þessu frv. eða grg. þess, að framtíðarverkefni séu fyrir enn nýja stétt í uppeldismálum, þ.e. þá sem annast börn í svokölluðum skólaathvörfum eða frístundaathvörfum í tengslum við skólann eða innan skólans, það sem okkar kæru frændur á Norðurlöndum kalla ,,fritidspedagoger``, sem eru ekki beinlínis með kennaramenntun en fóstrumenntun með nokkuð öðru sniði þar sem miðað er við eldri börn. Mér þykir tímabært að velta þessu fyrir sér því að breytingin sem við erum að fjalla um hér krefst margra nýrra stöðugilda kennara. Þegar hún verður komin til framkvæmda eftir 5 til 6 ár, þá þarf að gera ráð fyrir 300 nýjum stöðugildum samkvæmt útreikningum þeim sem fjölskyldumálanefndin byggði á.
    Það er ljóst að við búum nú þegar við kennaraskort víða og það er líka ljóst að hið nýja fyrirkomulag og þróun þess samfélags sem við búum í gerir líka enn nýjar kröfur til kennara. Það má því kannski búast við að kröfur sem við höfum heyrt frá kennurum geri líka vart við sig. En mér þykir ekki úr vegi að minna á að kennarar hafa staðið saman um vissa stefnumörkun að þessu leyti en þeir segja í skólamálastefnu Kennarasambands Íslands um nemandann, ef ég má vitna til þess, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Menntun hvers einstaklings skiptir sköpum fyrir hann og umhverfi hans. Menntunin mótar lífsferil, félagslega stöðu og sjálfsmynd manna og hefur jafnframt áhrif á tækifæri til starfa og þátttöku í þjóðfélaginu. Hér er ekki aðeins átt við grunnmenntun

og sérmenntun, heldur einnig og ekki síður þá símenntun sem hver og einn öðlast á lífsferli sínum. Nemendur eiga rétt á því að skólinn standi vörð um andlega og líkamlega heilsu þeirra í samvinnu við foreldra og forráðamenn. Þeir eiga rétt á því að vinnudagur þeirra sé samfelldur, skólastarfið vel skipulagt og að þeim líði vel í skólanum. Kennslan á að miðast við þarfir og þroskastig hvers nemanda þannig að í skólanum öðlist hann skilning, leikni og kunnáttu sem stuðli að því að gera hann ánægðan og virkan þátttakanda í lýðræðislegu menningarsamfélagi í sífelldri þróun.``
    Þetta var, herra forseti, inngangur þess kafla sem heitir ,,Nemandinn`` í skólamálastefnu Kennarasambands Íslands.
    Kennarasambandið hefur líka í stefnu sinni minnt á hvaða áhrif þjóðfélagsbreytingar síðustu ára hafa haft vegna aukinnar þátttöku beggja foreldra í atvinnulífinu og hvernig skapast hefur þörf fyrir athvarf eða aðstöðu fyrir nemendur lengri tíma en skólinn getur veitt við núverandi aðstæður.
    Ég hygg því að um þetta mál ætti að geta verið víðtæk samstaða foreldra og kennara. Ég held að fyrir liggi nægilega miklar rannsóknir á samhengi lengdar skólatíma nemenda og árangurs nemenda til þess að við sjáum að máli skiptir fyrir menntun barnanna að skólatíminn sé jafnlangur hvar sem er á landinu og að börnin séu jafnrétthá að þessu leyti hvort sem þau búa í borg eða byggð. Í því sambandi vil ég nefna rannsókn sem fram hefur farið á vegum Rannsóknarstofnunar uppeldismála á árangri barna í íslensku en þar bendir ýmislegt eindregið til þess arna. Sama má segja um niðurstöður á samræmdu prófunum. Ég er ekki að segja að þetta sé einhlítt en það er afar margt sem bendir til að þarna sé verulegt samhengi á milli. Því tel ég að hér sé um ótvírætt réttindamál barna að ræða og um leið hagsmunamál þjóðfélagsins alls. Það skiptir ekki litlu máli að börn á unga aldri búi bæði við öryggi og þá aðstöðu sem veitir þeim þekkingu og þroska.
    Ég leyfi mér herra forseti að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.