Grunnskóli
Miðvikudaginn 23. nóvember 1988

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. flm. þessa frv. fyrir frv. en get ekki látið hjá líða að minna á frv. sem lagt var fram í Ed. í fyrra af kvennalistakonum, og hefur reyndar verið lagt þar fram aftur, þar sem þessi tvö frv. hníga mjög í sömu átt. Þetta segi ég alls ekki til að hvetja til þess að farið verði að bítast um málefnið eða metast um heiðurinn af frv. heldur vil ég einungis undirstrika að svo almennur er þessi vilji fyrir því að börnum okkar sé búin betri aðstaða í þjóðfélaginu að það á sér nú svona víða hljómgrunn. Enda er eitt af brýnustu málum íslensks samfélags í dag að bregðast við mjög breyttum þjóðfélagsaðstæðum, breyttum aðstæðum í fjölskyldu og búa betur að börnum, bæta menntun þeirra og þar með auka möguleika þeirra og þjóðarinnar allrar í framtíðinni.
    Innihald frv. beggja hnígur mjög í þá átt að stuðla að auknu jafnrétti barna, bæði með tilliti til búsetu og eins hvað varðar efnahag og félagslegar aðstæður. Meginmarkmið beggja þessara frv. er að lengja skólatíma og gera hann samfelldan og að skólar verði einsetnir og samræmist þannig betur vinnutíma foreldra eins og hann er í dag. Ég tel því ekki ástæðu til að fjölyrða um þau atriði sem eru eins eða mjög lík en mun aðeins drepa á þá þætti sem eru ólíkir í þessum frv. Þó vil ég aðeins geta þess að í frv. Kvennalistans er gengið ögn lengra hvað varðar lengingu skólatíma en það er þó ekki svo mikill munur að þar mætti ekki finna samkomulag. Á sama hátt og í frv. sem hér er til umræðu er þar gert ráð fyrir að þessi lenging náist í áföngum og held ég að mér sé óhætt að fullyrða að þar sé um sama árafjölda að ræða.
    En það sem skilur í milli er aðallega tvennt. Hið fyrra er að í frv. Kvennalistans er gert ráð fyrir því að aðstaða verði í hverjum skóla til þess að neyta málsverðar og njóta hvíldar og að skólamáltíðir séu framreiddar í öllum skólum. Þörfin á þessu kann að vera örlítið mismunandi eftir staðsetningu en þó hygg ég að mjög víða sé málum þannig háttað að ekki sé aðstaða fyrir börn, þó fjarlægðir leyfðu, að fara heim til sín í hádeginu til að matast þar sem oftar en ekki er enginn þar til þess að taka á móti þeim eða að útbúa þeim mat.
    Það kemur t.d. fram í heilbrigðisskýrslu landlæknis, Mannvernd í velferðarþjóðfélagi, að u.þ.b. helmingur allra barna á skólaaldri á Íslandi gengur, eins og það er kallað, sjálfala utan skólatíma. Það gefur auga leið að það hlýtur að bitna mjög á mataræði þessara barna, enda benda ýmsar rannsóknir til, svo undarlegt sem það má virðast í velferðarþjóðfélagi eins og hér á Íslandi, að allt að því vannæringareinkenna gæti hjá fjölda barna og unglinga. Þetta stafar ekki af hungri eða skorti á fæðu heldur rangri samsetningu fæðunnar og er eflaust afleiðing þess að allt of mörg börn sjá sjálf um þann mat sem þau leggja sér til munns og því er auðvitað oft það úrræði næst, sem bæði er fljótlegt og einfalt, að grípa til einhvers matar sem þá er keyptur, e.t.v. í sjoppum eða álíka stöðum. Það er

mjög alvarlegt mál ef þetta er rétt, sem ég hef ekki ástæðu til þess að rengja, og mjög brýn þörf að bætt sé úr. Annað sem bendir líka til þess að ekki sé nógu vel staðið að þessum málum eru tannskemmdir barna á Íslandi sem eru meiri en nokkurs staðar annars staðar í sambærilegum þjóðfélögum.
    Þess ber einnig að geta að það þykir sjálfsagt að fullorðið fólk hafi aðgang að góðum mat á sínum vinnustað, meira að segja oft mikið niðurgreiddum, og hvað í ósköpunum veldur því þá að við ætlum ekki börnum sama hlut? Þau eru þó að vaxa og þurfa meira á góðri næringu að halda heldur en fullorðnir.
    Nú ég mun reyna að taka upp þráðinn aftur. Ég var komin þar í máli mínu þegar hátalarakerfið fór úr sambandi að ég var að ræða um tannskemmdir. Ég hafði að vísu haldið áfram óvitandi um það að hátalararnir voru ekki á en ég neyðist þá til þess að reyna að endurtaka þetta svo að það liggi þó fyrir í heild í þingtíðindum.
    Þessar miklu tannskemmdir íslenskra barna, sem eru miklu meiri en þekkist í nágrannalöndum okkar, hljóta auðvitað að standa í beinu sambandi við það hvað börn sjá mikið sjálf um sig utan skólatíma og velja þar af leiðandi oft sjálf sína fæðu.
    Kostnaður af því að koma upp skólamáltíðum í öllum grunnskólum yrði auðvitað talsverður. Samkvæmt útreikningi sem gerður var hjá Félagsvísindastofnun Háskólans nemur sá kostnaður í dag u.þ.b. 140 millj. kr., en ef þess er gætt að um er að ræða líkamlegan þroska og velferð barna er þetta nú kannski ekki umtalsverð upphæð. Auk þess má benda á það að sjálfsagt mundu sparast peningar annars staðar því ef öll börn fengju hollar og góðar máltíðir í skóla, ég tala nú ekki um ef á eftir fylgdi tannburstun á hverjum degi, er ég viss um að stórar upphæðir mundu sparast í skólatannlækningum. Þær eru börnum og foreldrum nú að kostnaðarlausu en þær gífurlegu upphæðir sem í það fara hafa einmitt oft verið til umræðu. Ef þetta kæmist á væri hollt að gera fljótlega á því samanburð hvort það skilaði ekki fljótt og vel árangri. Að nauðsyn þessa atriðis má því leiða ótal rök bæði efnahagsleg og þau sem auðvitað vega þyngst, þ.e. þau sem varða velferð barnanna.
    Hitt meginatriðið sem er öðruvísi í frv. kvennalistakvenna varðar skólaathvörf. Mér heyrðist að vísu hv. flm., Ragnhildur Helgadóttir, segja að gert væri ráð fyrir að börn gætu dvalið í skólum utan skólatíma í skólaathvörfum undir eftirliti uppeldismenntaðs fólks. Ég sé það nú ekki í frv. sjálfu en auðvitað er gleðilegt, þó það standi ekki í frv., að reiknað sé með að svo sé. Við töldum nú samt ástæðu til þess að setja inn í lögin að þau skyldu vera undir umsjá fólks sem hefði menntun í uppeldisfræðum. Það gætu auðvitað bæði verið fóstrur, kennarar og eins sú stétt sem hv. flm. gerði að umræðuefni og kallast hjá nágrannaþjóðum okkar ,,fritidspedagoger``.
    Það hefur gefist misvel þar sem reynt hefur verið að fá ómenntað fólk í þessum greinum til starfa. Auðvitað hefur stundum tekist þannig til að

sómakonur hafa fengist til starfa og allt hefur gengið vel en í öðrum tilfellum hefur eitthvað bjátað á og það er sjálfsagt að hnykkja á því í lögum að að þessu skuli vel staðið. Okkur kvennalistakonum finnst það líka áríðandi að fyrir dvöl í þessu athvarfi komi ekki greiðsla því undir engum kringumstæðum má það markast af efnahag foreldra hvort börn eigi sér athvarf utan skólatíma þegar enginn er heima til að annast þau.
    Mig langar aftur að vitna í skýrslu landlæknis, með leyfi forseta, þar sem talað er um að u.þ.b. helmingur barna á skólaaldri gangi sjálfala flesta daga utan skólatíma en hjá einstæðum foreldrum, sem í flestum tilfellum eru auðvitað einstæðar mæður, er ástandið enn verra því þar eru það jafnvel börn undir 7 ára aldri sem búa við þau kjör að enginn geti annast þau, eða þá í besta falli eldri systkini og ekki er nánar tilgreint hversu gömul þau eru eða hvernig þau geti staðið að þeirri gæslu. Það er einmitt þessi hópur foreldra sem á kannski hvað örðugast með að greiða fyrir gæslu barna sinna og þess vegna er brýnt að slík gæsla sé þeim að kostnaðarlausu.
    Það er ekki af kæruleysi sem mæður láta börn sín ganga sjálfala hálfu og heilu dagana, heldur er það vegna skorts á úrræðum og aðstöðu og vegna þess hvað þær bera lítið úr býtum fyrir sín störf og hafa hreinlega ekki efni á að kaupa þeim þá gæslu og þá umönnun sem þær annars sjálfsagt svo gjarnan vildu. Það kostar tugi þúsunda á mánuði að borga fyrir gæslu fyrir börn ef það er í heimahúsum og er þó ekki ofgoldið fyrir þau störf. Þess vegna vil ég enn og aftur undirstrika brýna nauðsyn þess að verði þessi frv. eða vonandi einhvers konar sambræðsla þessara frv. að lögum verði þetta atriði tekið inn, þannig að það sé ekki háð efnahag foreldra hversu mikið þeir geta nýtt sér athvarf fyrir börn sín utan skólatíma.
    Mér finnst ástæða til að geta þess líka í þessu sambandi, þegar rætt er um hversu áríðandi það er að börn geti dvalið áfram í skóla ef þau eiga sér ekki annað athvarf í bili, að tíðni umferðarslysa á börnum er miklu, miklu meiri á Íslandi en nokkurs staðar þekkist, og er það kaldhæðnislegt, þegar við minnumst þess að ungbarnadauði er hér lægstur í heiminum, að við skulum svo ekki hafa borið gæfu til að gæta þessara barna þannig að þau fái sem flest að lifa eða a.m.k. tapi ekki heilsu í umferðarslysum. Umferðarslys á gangandi vegfarendum eru algengust á börnum og unglingum og þar er einmitt hópurinn 7--12 ára stærstur. Mér skilst að einhver rök hafi verið leidd að því að þau væru ekki endilega á leið úr og í skóla þegar þessi slys verða, en auðvitað verða þau þegar börn eru stödd utan einhverrar gæslu eða athvarfs. Þau eru þá væntanlega ein á ferli annað hvort gangandi eða á reiðhjólum meira en sæmir í því ástandi eins og hér er nú í umferðarmálum sem fer síst batnandi.
    Það er auðvitað fjöldamargt annað sem mætti rekja til að rökstyðja nauðsyn þess að frv. af þessu tagi nái að verða að lögum, en það er kannski óþarfi að staldra of mikið við það í 1. umr. Ég vona svo sannarlega að þau fái bæði góða umfjöllun í nefndum.

Nú vill svo vel til að þau munu sjálfsagt fara bæði í nefndir, annað í efri deild og hitt í neðri deild. Og ég trúi því, þar sem þau eru svo lík, að það muni nást einhver sameiginleg niðurstaða úr þessum tveimur frv. Einmitt í umræðu um þetta frv. Kvennalistans í fyrra, í efri deild, tók til máls hæstv. núv. menntmrh., Svavar Gestsson, og lýsti góðum vilja til þess að framkvæma slíkar breytingar á skólakerfinu. Við skulum vona að áhugi hans hafi ekki dofnað við að komast í það ráðuneyti sem fer með þessi mál og að þetta fái skjóta og góða afgreiðslu. Auðvitað er framkvæmd þessara frv. nokkuð dýr, en fátt er afstæðara en tölur nema ef vera skyldi tíminn. Í þessum málum gildir kannski meir en í flestum öðrum að hér er það forgangsröð sem skiptir öllu máli.