Grunnskóli
Miðvikudaginn 23. nóvember 1988

     Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):
    Herra forseti. Ég þakka undirtektir hv. 18. þm. Reykv. Ég vil skýra það að ástæðan til þess að frv. er svo stutt sem raun ber vitni er að í það eru einungis tekin þau atriði úr ábendingum fjölskyldumálanefndarinnar sem þarfnast lagabreytinga til að unnt sé að framkvæma þau. Í því frv. sem hv. þm. nefndi og var verið að leggja fram núna eru ýmis atriði önnur sem unnt er að framkvæma án lagabreytinga. Að því er varðar sérstaklega aðstöðu til hádegisverðar þarfnast það t.d. í sjálfu sér ekki lagabreytingar. Það er unnt að framkvæma þetta án þess og er það víða gert. Þannig er það.
    Efnislega erum við því sammála um það sem kemur einmitt fram í grg. með þessu frv. Á bls. 11 er einmitt talað um aðstöðu til hádegisverðar og lögð á það áhersla. Þetta vildi ég nú taka fram. Mér þykir hins vegar að áfangaskiptingin sé það sem máli skiptir til þess að unnt sé að koma þessu í framkvæmd. Þetta verður að sjálfsögðu eitt af framkvæmdaratriðunum, enda eru orðin nokkur ár síðan sjálfstæðismenn lögðu áherslu á viðunandi aðstöðu til að matast sem eina af leiðum að því marki að ná samfelldum skóladegi, en það var einmitt eitt af verkefnum nefndarinnar um samstarf heimila og skóla, þeirrar sem hv. 6. þm. Reykn. hafði forstöðu fyrir. Á þetta var mikil áhersla lögð þar og hefur þráfaldlega komið fram í hennar umfjöllun um þessi mál inni í hv. efri deild. Efnislega erum við því að sjálfsögðu sammála um það atriði. Mér líst hins vegar ekki á ef við byrjuðum breytinguna á slíkum framkvæmdum. Ég óttast að þá mundum við e.t.v. tefja fyrir að samfelldur skóladagur kæmist í framkvæmd. Ég held því að niðurröðunin á áföngum í áliti fjölskyldumálanefndar ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sé mjög skynsamleg. Ég hygg að um það verði mjög víðtæk samstaða.
    Ég tek það fram, herra forseti, að þó að svo vilji til að einatt tali einvörðungu konur um þessi mál situr nú í forsetastól maður sem hefur þekkingu og reynslu af þessum málum og mundi vafalaust taka þátt í þessum umræðum ef hann væri ekki bundinn í forsetastól. Þær hugmyndir sem að baki þessu liggja hafa verið mikið áhugamál kvenna í mörgum stjórnmálaflokkum og ekki síst Sjálfstfl. þar sem konur hófu útgáfustarf einmitt um fjölskyldumálefni fyrir allmörgum árum. Við höfum hins vegar séð þá gleðilegu þróun að nú er þetta málefni ekki síður áhugamál okkar karlkyns félaga í flokknum. Þær hafa ekki af slíku að státa hjá Kvennalistanum. Við höfum sem betur fer í okkar flokki marga karlmenn sem eru afar áhugasamir um þetta og þá ekki er síst formaður flokksins sem átti frumkvæði að því að nefndin var stofnuð til þess að gera rækilega úttekt á þessu sviði og vinna tillögur um það. Sú er ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt núna og víðtæk samstaða er um það og ég vona að svo verði í öllum flokkum þingsins.