Meðferðarheimili fyrir ósakhæfa afbrotamenn
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þetta svar. Hins vegar tel ég það ekki í þeim anda sem ég vænti. Ég átti von á því, með tilliti til þeirra laga sem voru samþykkt á síðasta þingi, að einhver skriður væri kominn á þetta mál. Eins og réttilega kom fram í hans svari ber ríkisvaldinu skylda til þess að sjá um að svona stofnun sé fyrir hendi hinn 1. janúar nk. Ég er hins vegar mjög ánægður með að virkilega skuli verið að gera eitthvað í þessu máli og fagna því jafnframt að heilbrrn. skuli koma inn í þau mál.
    Auðvitað er þetta alltaf spurning um peninga og kostnað. Svo hefur það alltaf verið. Hve stöndugir þurfum við Íslendingar að vera svo að ráða megi bót á þessu máli? Er þetta ekki aðeins spurning um forgangsröð verkefna? Og þó svo að aðeins sé þarna um þrjá eða fjóra aðila að ræða tel ég að þeir eigi jafnmikinn rétt eins og hverjir aðrir.