Sláturhúsið á Óspakseyri við Bitrufjörð
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):
    Virðulegi forseti. Tilefni þessarar fsp. er það að við sem að fsp. stöndum, þrír þm. Borgfl., vorum á ferð í sumar á Ströndunum, stoppuðum nokkuð lengi í þessum hreppi. Það reyndist vera almennt áhyggjuefni hreppsbúa ef ætti að leggja þetta sláturhús niður. Þarna tapa hreppsbúar 2--3 millj. kr. í vinnulaun yfir haustið og auk þess hreppurinn, sem er lítill, fámennur og fátækur, aðstöðugjöldum.
    Ég hef ekki fengið neina skýringu á því hvers vegna þetta er gert. Þetta sláturhús hefur alltaf framleitt góða vöru. Þetta kaupfélag virðist vera eitt af fáum kaupfélögum sem skila hagnaði. Dýralæknir á staðnum hefur tekið sláturhúsið út, sent skýrsluna til yfirdýralæknis, en kaupfélagsstjórinn, Sigrún Magnúsdóttir, Þambárvöllum, fær enga skýringu á því af hverju þetta á að gerast.
    Ég bið hæstv. landbrh. að svara þessu skýrt og skilmerkilega: Hvers vegna á þetta að gerast? Það getur náttúrlega ekki gengið að ganga með einhvern skurðarhníf á byggðarlög án þess að fyrir því liggi rökstuddar ástæður hvers vegna það er gert. Ég vænti þess að ráðherrann svari þessu skýrt.