Sláturhúsið á Óspakseyri við Bitrufjörð
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er spurt hvers vegna eigi að leggja niður sláturhúsið á Óspakseyri við Bitrufjörð. Því er til að svara að ekki liggur fyrir nein sérstök ákvörðun af hálfu ráðuneytisins um að leggja þetta tiltekna sláturhús niður. En það er rétt að taka fram jafnframt í þessu sambandi að hér á hinu háa Alþingi var sl. vor afgreitt frv. til laga og gert að lögum um að heimila landbrh. að veita undanþágur tvö ár í viðbót til slátrunar í sláturhúsum sem ekki hafa hlotið löggildingu en nauðsynlegt er talið að slátrun fari fram í.
    Við afgreiðslu málsins lagði landbn. hv. Nd. á það mikla áherslu að þegar í stað yrði hafist handa um að endurskipuleggja og endurbæta sláturhús landsins og að loknu þessu tveggja ára tímabili, þ.e. frá og með árinu 1991 yrðu öll sláturhús landsins komin undir löggildingu. Þetta er hin opinbera stefna löggjafans og samkvæmt þessu er landbrn. að vinna. Sláturhús Kaupfélags Bitrufjarðar á Óspakseyri hefur eins og mörg önnur sláturhús verið starfrækt á undanþágu, í raun og veru allt frá því að lög nr. 30 frá 1966 voru samþykkt. Þetta hús fékk undanþágu til slátrunar sl. haust, en við afgreiðslu þeirrar undanþágu var bent á, eins og venja mun vera, að sláturhúsið fullnægði ekki þeim kröfum sem gerðar eru og á þeim forsendum væri óvíst um frekari starfrækslu þess.
    Sláturleyfishöfum, þar á meðal að sjálfsögðu Kaupfélagi Bitrufjarðar, er það í sjálfsvald sett hvort þeir byggja upp ný sláturhús eða lagfæra núverandi hús sín þannig að þau fulllnægi kröfum sem landslög kveða á um. En það er ljóst að slíkt mun hins vegar hafa í för með sér umtalsverðan kostnað sem allsendis óvíst er að geti skilað sér til baka í mörgum tilvikum.
    Það er rétt að nefna í þessu sérstaka tilviki að héraðsdýralæknir hefur bent á að fé sem kemur til slátrunar í sláturhúsi Kaupfélags Bitrufjarðar kemur bæði af sýktu og ósýktu riðusvæði og vakið athygli á mögulegri smithættu því samfara.
    Annað sem ég vil taka fram í þessu sambandi er að eins og hv. þm. vita fékk ég í arf þykka skýrslu um sláturhúsamál sem verið er að athuga þessa dagana í landbrn. Það er ljóst að einhver fækkun sláturhúsa hlýtur að koma til á næstu árum, þó ekki væri nema vegna þess að slátrun hefur dregist gríðarlega saman á undanförnum árum samfara fækkun sauðfjár í landinu, um allt að þriðjung á tiltölulega fáum árum, en jafnframt er ljóst að einhver minni hús munu koma til með að halda velli og þurfa að halda velli, m.a. af landfræðilegum ástæðum. Að öðru leyti get ég í rauninni ekki svarað þessari fsp. en vísa til þeirrar athugunar á þessum málum sem yfir stendur og undirstrika að engin sérstök ákvörðun hefur verið tekin um að leggja þetta tiltekna sláturhús niður.