Sláturhúsið á Óspakseyri við Bitrufjörð
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því svari sem landbrh. hefur gefið við þessari fsp. og hvet hann eindregið til þess að taka meira en nokkra daga til að endurskoða sláturhúsaskýrsluna og yfirleitt öll þessi mál því að þessi sláturhúsamál eru komin í algert óefni. Það var búið að byggja fyrir hundruð milljóna allt of stór hús sem er lagt á herðar neytenda í landinu. Það er hægt að gera fyllstu hreinlætiskröfur og fylgja þeim vel eftir án þess að íþyngja svo sem gert hefur verið í þessum málum á undanförnum árum. Ég fagna þeim skilningi hæstv. ráðherra að hann ætlar sér ekki að ganga af hinum litlu byggðarlögum dauðum með því að taka atvinnutækin burtu frá þeim. Þess vegna stend ég hér upp til að fagna undirtektum hans og vænti þess að hann taki betur á þessum málum en forverar hans hafa gert.