Sláturhúsið á Óspakseyri við Bitrufjörð
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hv. fyrirspyrjanda vil ég taka fram að eitt af því sem ég held að sé mjög mikilvægt að gera í sambandi við framkvæmd þessara mála er að það liggi fyrir með góðum fyrirvara hvar sé stefnt að því að slátrun fari fram á hverju hausti. Því miður hafa verið brögð að því undanfarin ár að allt fram að því að sláturtíð eigi að hefjast sé fullkomin óvissa um hvar bændur á tilteknum svæðum geti slátrað fé sínu og sams konar óvissa í sambandi við rekstur þeirra aðila sem fara með slátrun. Þess vegna er það eindreginn vilji minn að það geti legið fyrir með góðum fyrirvara, helst á útmánuðum eða fyrir vorið, hvar sé reiknað með að slátrun verði á næsta hausti og hvar ekki.