Sala ríkisfyrirtækja
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegur forseti. Ég fagna því að fjmrh. er kominn hér í salinn þó að hann hafi verið fjarverandi þegar fyrirspyrjanda var fyrst gefið orðið í upphafi fundar.
    Það vakti ánægju mjög margra þegar í ljós kom við myndun núv. ríkisstjórnar að hún hygðist halda óbreyttri stefnu tveggja síðustu ríkisstjórna að því er varðar sölu ríkisfyrirtækja. Jafnframt vakti þetta nokkra undrun þar sem flokkur hæstv. núv. fjmrh. hafði ekki verið kunnur fyrir þá afstöðu að vilja draga úr atvinnurekstri ríkisins eða umfangi þess á því sviði. Ég vil með þessari fsp. fá skýrt fram hvað það er nákvæmlega sem vakir fyrir hæstv. ríkisstjórn í þessum málum og hef þess vegna leyft mér að bera fram svofellda fsp., með leyfi forseta:
,,1. Með hvaða hætti verður unnið ,,að því að bjóða almenningi til kaups ríkisfyrirtæki og hlutafé ríkisins í fyrirtækjum sem stunda atvinnurekstur`` eins og segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum frá 28. september sl.?
    2. Hvaða ríkisfyrirtæki verða boðin almenningi til kaups og hlutafé hvaða fyrirtækja í atvinnurekstri verður boðið til sölu?
    3. Hvenær verður hafist handa við að hrinda þessari stefnu ríkisstjórnarinnar í framkvæmd?``