Sala ríkisfyrirtækja
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fjmrh. fyrir þessi svör. Þau leiða í ljós að það munu ekki vera mistök eða handvömm að þessar setningar eru inni í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum og fagna ég því að sjálfsögðu.
    Ég er stuðningsmaður þessarar stefnu og ég er sammála ráðherranum um nauðsyn þess að marka um þetta ákveðnar reglur og ákveðin vinnubrögð upp á framtíðina. En ég vil sérstaklega fagna því, um leið og ég áminni ráðherrann um sannsögli varðandi sagnfræðina og Alþb., að Alþb. hefur skipt um skoðun í þessu máli. Alþb. barðist um á hæl og hnakka gegn sölu Landssmiðjunnar t.d. hér á Alþingi, gegn sölu Siglósíldar og öðrum málum af því tagi sem hæstv. þáv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, undir forustu þáv. hæstv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar, beitti sér fyrir.
    Það er líka rétt að hæstv. núv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson beitti sér mjög eindregið á árinu 1980 fyrir allt annarri stefnu t.d. í málefnum Flugleiða, sem þá voru uppi, þegar hann barðist mjög eindregið fyrir því að auka hlut ríkisins í því fyrirtæki. Hér hefur því orðið mjög ákveðin stefnubreyting sem ég út af fyrir sig fagna og er sammála núverandi viðhorfi ráðherrans, að það sé til bóta fyrir íslenskt þjóðfélag að draga úr umsvifum ríkisins í atvinnurekstri.
    En ég vil jafnframt vekja athygli á því, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin er að þessu leyti til sammála áliti og mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París sem telur í skýrslu sinni, sem er nýútkomin, nauðsynlegt að menn beiti sér fyrir áframhaldandi svokallaðri einkavæðingu í landinu. Þetta er mjög athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að þessa skýrslu hafi hann ekki nennt að lesa. En það kemur á daginn núna með ummælum fjmrh. að ríkisstjórnin, eða a.m.k. hann sjálfur, hæstv. fjmrh., er stuðningsmaður þessa hluta þeirrar stefnu sem þar er boðuð.