Gjalddagi söluskatts
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að mjög mikil breyting hefur orðið á viðskiptaháttum almennings á undanförnum árum. Það tíðkast í æ ríkara mæli að greiðslukort séu notuð sem greiðsluform. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því hér að enn skortir löggjöf um greiðslukortaviðskipti og starfsemi þeirra fyrirtækja og fer það að verða mjög brýnt miðað við magn þessara viðskipta að löggjöf um það efni sé undirbúin.
    Ég hef tekið ákvörðun um það að láta skoða í fjmrn. og í viðræðum við aðra aðila hvað felst í þeirri ákvörðun að breyta gjalddaga söluskatts og eindaga og tengja þá breytingu meira starfsemi greiðslukortafyrirtækjanna. Að vísu er einnig hugsanlegt að þessi aðlögun komi til framkvæmda á þann veg að greiðslukortafyrirtækin breyti sínum dagsetningum. Ég tel satt að segja afar óheppilegt að sá munur sem er þarna á milli hefur leitt til óeðlilegra viðskiptahátta og nú tíðkast það mjög í okkar þjóðfélagi að seðlar greiðslukortafyrirtækjanna ganga kaupum og sölum, jafnvel í bankakerfinu, og eru seldir með stórfelldum afföllum.
    Vandi þessa máls er hins vegar sá að hann snýr ekki bara að greiðslukortafyrirtækjunum og gjalddaganum, heldur einnig að því að breytingin hefði í för með sér verulega útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Ég hef látið meta það hvað sú útgjaldaaukning væri mikil, hún er allveruleg að því er virðist við fyrstu sýn og nauðsynlegt að ræða þann þátt bæði við Seðlabankann og viðskiptabankana. Ég hef nú þegar átt bráðabirgðaviðræður við Seðlabankann um það atriði og mun halda þeim viðræðum áfram á næstu vikum þannig að ákvörðun geti legið fyrir í þessum efnum fljótlega.