Gjalddagi söluskatts
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Svar hæstv. fjmrh. veldur mér miklum vonbrigðum. Þetta mál var mjög ítarlega rætt í fjh.- og viðskn. Ed. á síðasta þingi og þá var skotið inn í lög um virðisaukaskatt heimild til fjmrh. til þess að fresta eindaga söluskatts fram yfir skiladag greiðslukorta til að koma í veg fyrir það misræmi og öll þau vandræði sem hafa hrúgast upp vegna þess að greiðslukortaviðskiptin miðast við það að launamenn geti staðið í skilum eftir mánaðamótin en hins vegar er ákvörðunin um eindaga söluskattsins mjög gömul og eldri en greiðslukortaviðskiptin.
    Það var álit fjh.- og viðskn. Ed., og ég hélt Alþingis, sl. vetur að nauðsynlegt væri að samræma þessa tvo eindaga, koma í veg fyrir þær þungu byrðar sem núverandi fyrirkomulag leggur á matvöruverslunina í landinu og hefur þess vegna bein áhrif á hækkun matarverðs, þetta fyrirkomulag sem nú er á eindaga söluskatts. Ég skal nú ekki segja hvað hæstv. fjmrh. kallar mikla útgjaldaaukningu en það sem við erum að tala um er vaxtabyrðin frá 25. hvers mánaðar til 5. hvers mánaðar, vaxtabyrðin í 10 daga. Það eru þessi miklu útgjöld sem við erum að tala um og er það auðvitað einfalt reikningsdæmi.
    En ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því að hinn nýi fjmrh. skuli að engu gera vilja Alþingis í þessu efni sem kom skýrt fram á síðasta þingi með heimildinni inn í virðisaukaskattinn. Þetta kennir manni að það á ekki að gefa ráðherrum heimild heldur taka af skarið í lögum.