Gjalddagi söluskatts
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hef þá eitthvað bilað í reikningi ef vextir af 33 milljörðum kr. í tíu daga skipta hundruðum milljóna. Ég er hræddur um að ef það er rétt hjá hæstv. fjmrh. verði þokkaleg vaxtastefnan á næsta ári. Þá er ég hræddur um að raunvextirnir fari nokkuð upp á við. En það er gert ráð fyrir því á næsta ári að heildartekjur af söluskatti verði 33 milljarðar kr. Ég fer fram á að eindaganum verði frestað í tíu daga sem kemur auðvitað á alla upphæðina. Síðan getur hæstv. fjmrh. látið reikna það út uppi í fjmrn. hvaða raunvexti hann þurfi nú til þess að fá hundruð milljóna kr. vexti af 33 milljörðum í tíu daga. Það væri gaman að fá að vita hvernig sá útreikningur lítur út. Staðreyndin er sú að þetta fyrirkomulag veldur miklu óhagræði. Við vissum í fjh.- og viðskn. sl. vetur ekki betur en fjmrn. væri undir það búið að koma þessari breytingu í kring og það hefur valdið okkur vonbrigðum að fyrrv. fjmrh. skyldi ekki hafa komið því í verk. Það er ekkert í þessu máli flókið, það er ekkert í þessu máli sem stríðir gegn réttlætinu og ef hæstv. fjmrh. vill gera það sem hann sagðist vilja gera áðan, fara að vilja Alþingis, þá ætti hann að drífa sig. Mér þætti fara vel á því að breytingin færi saman við kirkjuárið. Nýtt kirkjuár byrjar nú á aðventu og það væri mjög ánægjulegt ef hann gæti látið nýjan eindaga söluskatts taka gildi líka nú í byrjun desembermánaðar.