Gjalddagi söluskatts
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

    Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég held að þessi fsp. frá hv. þm. Guðmundi Ágústssyni hafi verið tímabær, ekki síður en hún var þegar hún var rædd í Ed. og fjh.- og viðskn. Ed., en niðurstaða fjh.- og viðskn. Ed. er ekkert öðruvísi en niðurstaða í umræðum í Sjálfstfl. þegar ég var þar og í Alþingi meðan ég var fjmrh. og svör hæstv. fjmrh. nú í þessum vandamálum sem hann er að glíma við eru nákvæmlega þau sömu og ég var að glíma við sem sjálfstæðismaður í fjmrn. Það var sami velvilji hjá mér, og ekki minni af því að ég tilheyri þeirri stétt verslunarinnar sem hér um getur, en virðist koma fram hjá hæstv. fjmrh. í dag. Ég sé ekki neina ástæðu til að gera þetta að einhvers konar pólitísku máli, umræður um það hvort hæstv. fjmrh. er í Alþb., ég í Borgfl. og aðrir í Sjálfstfl. sem taka til máls. Þetta er ekkert pólitískt mál. Þetta er mál sem þarf að leysa. Þetta er vandamál. En það verður ekki leyst auðveldlega eins og hæstv. fjmrh. hefur getið um.
    Ég reyndi að leysa þetta mál. Ég var með nákvæmlega sömu vinnubrögð og hæstv. fjmrh. í dag. Mér tókst það ekki vegna þess að þær upplýsingar sem ég fékk þá voru að það kostaði hundruð milljóna í vaxtatapi fyrir fjmrn. Ég held að þær upplýsingar sem hv. þm. Halldór Blöndal gaf upp áðan, að það væru yfir 30 milljarðar á ári sem um væri að ræða eða 30 milljarðar, bendi til að það kosti hundruð milljóna að breyta þessu. Við þurfum bara að finna leiðir. Ef þingnefnd eða Alþingi fyrirskipar ráðherra að framkvæma verður líka að taka dæmið upp við gerð fjárlaga þannig að það sé gert ráð fyrir þessum kostnaði.