Fyrirspurn um innflutning á hundum
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Reykv., fyrir mjög fróðlegt erindi og ég er alveg sannfærður um að það má útvega þessi nöfn fyrir hv. þm. ef það er mikið mál. En mér fannst þessi ræða alveg kostuleg. Hún væri tilvalin til notkunar á árshátíðum einhvers staðar úti í bæ.
    Hér er verið að spyrja um hvort menn sitji við sama borð í þessu þjóðfélagi eða ekki og það hlýtur hv. þm. að skilja. Í skjóli þeirrar leyndar sem ráðherra talar fyrir þrífst ekkert annað en spilling og það er það sem við viljum fá hérna upp á yfirborðið hvort það sé í raun og veru þannig að menn sitji ekki við sama borð. Hverju er í raun og veru verið að leyna? Hverjir eru eigendurnir? Hér stendur í lista yfir undanþágur: Íslenskir sendiherrar við heimflutning fjórir á síðustu tíu árum. Er eitthvert mál að fletta upp á því hvaða sendiherrar komu heim á síðustu tíu árum? Er einhver nafnleynd þarna? Ekki til.
    Þessi fsp. svarar engu af því sem spurt er um, engu öðru en því frá hvaða löndum hundarnir koma. Engu öðru er svarað í fsp. Ég bað ekki um fjölda umsókna. Ég gat alveg lagt það saman sjálfur. Reyndar er það tekið fram að þetta séu aðeins skriflegar umsóknir. Maður veltir því þá fyrir sér hvað komu í rauninni margar umsóknir inn. Þær eru sennilega miklu, miklu fleiri og öllum munnlegum umsóknum hefur væntanlega verið hafnað.
    Ég skil ekki af hverju þessi nöfn þola ekki dagsbirtu. Það hlýtur að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn þegar þessu er haldið leyndu. Af hverju fá t.d. erlendir sendimenn eða íslenskir sendiherrar að flytja inn hunda en ekki aðrir? Eru þeirra hundar eitthvað betri en aðrir hundar? ( Forseti: Má ég biðja hv. þm. að fara ekki út í efnislega umræðu. Hér fara fram umræður um þingsköp.) Já, virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því. Ræða hv. 3. þm. Reykv. var svo kostuleg að maður missir aðeins tauminn. En ég sætti mig vel við málsmeðferð þá sem hæstv. forseti leggur hér til og mun þá væntanlega fá að taka málið upp aftur í ljósi þess sem frá ráðherra kemur.