Fyrirspurn um innflutning á hundum
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það hlýtur að vera ærið umhugsunarefni hver sé réttarstaða Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og hvaða stefnu forseti þingsins hafi í þeim efnum. Undir forseta eru bornar allar fyrirspurnir. Undir hann eru bornar allar heimildir til að fara í utandagskrárumræðu eða hvað sem er og þegar forseti leyfir fyrirspurnir hlýtur það að vera hans mat að hann telji að fsp. sé innan þess ramma sem Alþingi telji eðlileg vinnubrögð. Það hvílir þess vegna á forseta sú skylda að meta það hvort svarað er út í hött eða hvort fsp. er svarað því það er í sjálfu sér einskis virði sá réttur þingmanna að mega spyrja ef framkvæmdarvaldið telur að því beri engin skylda til að svara fsp. efnislega eins og þær eru fram settar. Ef forseti aftur á móti telur að í fsp. sé farið fram á meira en sanngjarnt er gagnvart framkvæmdarvaldinu ber forseta að gera grein fyrir því við fyrirspyrjandann og reyna að leita samkomulags um það að þá sé tekið út úr fsp. það sem ekki samræmist störfum þingsins.
    Í þessu tilfelli hefur forseti leyft ákveðna fsp. Í sjálfu sér geta verið mjög deildar meiningar um hvort eitthvað í henni sé þess efnis að eigi að leyfa eða ekki. Það verður svo hver og einn að eiga við sjálfan sig. En hitt blasir við að svarið sem lagt hefur verið fram er ekki í neinu samræmi við þá fsp. sem sett var fram.
    Mér er ljóst að hér á ekki að fara fram efnisleg umræða og þá ber forseta einnig að gæta þess að menn séu ekki heldur með persónuleg skot á þá sem sækja hér með fyrirspurnir. Ég hygg að sá vopnaburður hljóti að vera umhugsunarefni. Skáldið Steinn Steinarr gerði kannski minna af því en flestir aðrir að flíka sínum tilfinningum, en athyglisvert er, þegar lesið er það sem eftir hann er á prenti í óbundnu máli, að þar er bréf til borgarstjórnar Reykjavíkurborgar eða borgarstjórans í Reykjavík ef ég man þetta rétt og bréfið er bænarskjal út af einu sennilega mjög ómerkilegu málefni að dómi valdsmanna vorrar þjóðar. Það er beiðni um að mega herbergja tík eina, þurfa sem sagt ekki að drepa hana en mega herbergja hana. Þetta finnst okkur sennilega flestum, sem höfum lesið þetta, lítið erindi, ekki stórt. Við vitum ekki hver erindislokin urðu, en Steinn leggst svo lágt gagnvart þessu stjórnvaldi til að ná þessu fram að hann játar að hann hafi ást á hundkvikindi þessu.
    Ég vil segja að mér kemur það spánskt fyrir sjónir á okkar tímum, þegar almennt er litið svo á að mannúð hafi heldur farið vaxandi, að annað eins fjaðrafok geti orðið út af beiðni um að fá að herbergja eitt hundkvikindi eins og leitað hefur verið eftir. Og ég ætla að bæta því við að mér finnst það forkostulegt, af því að ég sá svar ráðuneytisins um heimild til að flytja umrætt hundkvikindi til landsins, að þar er farið fram á að eigandi hundsins sé reiðubúinn að lofa því að brjóta landslög. Þess er krafist af ráðuneytinu að hann sé reiðubúinn að brjóta landslög. Og í hverju er það fólgið? Jú. Ef hundkvikindi þetta verður til þess að eignast afkvæmi

á eigandinn að lofa að hann muni sjá til þess að það afkvæmi verði drepið. Og ef það yrði nú tík, landbrh., sem yrði fyrir því að njóta ásta með ákveðnu hundkvikindi yrðu hvolparnir eign landbrh. og eigandinn búinn að lofa því að taka að sér að drepa þá í óþökk ráðherrans.
    Auðvitað verða að vera einhver takmörk fyrir því hvað embættismenn setja á prent og ég skora á hæstv. ráðherra að láta ekki sína undirmenn villa sér sýn eins og gert hefur verið í þessu máli.