Efling atvinnu fyrir konur í dreifbýli
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu varðar marga og er fullkomlega eðlilegt að um það sé rætt á hv. Alþingi. Ég get í raun tekið undir flest ef ekki allt það sem fram kom í framsögu hv. 1. flm., Unnar Stefánsdóttur, sem rökstuðningur fyrir þeirri till. sem hún mælir fyrir. Ég vil jafnframt benda á það sem kemur fram í grg. með þessari till. að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur samkvæmt málefnasamningi sínum ætlað sér ,,að gera sérstakt átak til að auka fjölbreytni í atvinnu kvenna á landsbyggðinni`` eins og það er orðað í stjórnarsáttmála.
    Hér er sérstaklega rætt um dreifbýli. Mörk þess og landsbyggðar eru kannski ekki alltaf skýr, hvað menn hugsa þegar þeir tala um dreifbýli. En ég skil það bæði af grg. og máli hv. 1. flm. að fyrst og fremst sé átt við sveitir landsins, þ.e. hluta af landsbyggðinni.
    Það er út af fyrir sig verkefni okkar sem styðjum ríkisstjórnina að átta okkur á því hvernig við ýtum á eftir þeim málum sem um hefur verið samið milli flokka við stjórnarmyndun. Við gætum tekið okkur til hér og sameinast um það, væntanlega 32 hv. þm., að flytja málefnasamning ríkisstjórnarinnar í heild sem till. til þál. hér á hv. Alþingi og fengið umræðu um málefnasamninginn þannig. Ég er ekki með þessum orðum að lasta það að þetta mál sé tekið upp, því að oft er það svo að í málefnasamninga ríkisstjórna eru tekin atriði sem ekki er sá gaumur gefinn sem ástæða væri til og mörg frjósa inni af ýmsum ástæðum, bæði vegna þess að líftími ríkisstjórna er ekki alltaf langur og eins vegna þess að þeim er ekki fylgt eftir af þeim sem aðallega eiga um að fjalla. En ég vona að það ákvæði stjórnarsáttmálans, sem varðar það mál sem hér er til umræðu, verði virt og að því unnið af þeim aðilum innan ríkisstjórnar sem sérstaklega eiga þar um að fjalla. En það er vissulega fleiri en einn ráðherra sem hlýtur að koma þar við sögu.
    Til þess að fá fram hvað ríkisstjórnin hyggst gera í sambandi við þetta ákvæði, hvaða hugmyndir liggja nú þegar fyrir, hef ég ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur flutt fsp. til hæstv. forsrh. um það hvernig ríkisstjórnin hyggist framkvæma þetta mál sem varðar að auka fjölbreytni í atvinnu kvenna á landsbyggðinni. Því ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir þá þingnefnd sem fær þessa þáltill. til meðferðar að það liggi fyrir strax og um hana er fjallað í nefnd --- það vill svo til að ég er formaður þeirrar nefndar sem tillaga er um að fái þetta mál til meðferðar --- að það liggi fyrir hvaða hugmyndir eru hjá stjórnvöldum nú þegar varðandi þetta efni.
    Það er síðan sögulegs eðlis að þetta ákvæði í stjórnarsáttmála er raunar komið út úr viðræðum milli þeirra flokka sem tóku síðan saman um ríkisstjórn. Ég man eftir því að í hópi Alþb., sem fjallaði um málefnasamninginn, var þetta efni mjög ofarlega á baugi og bein tillaga gerð um það að það kæmi inn í málefnasamning ríkisstjórnarinnar. Áhugi á þessu máli er því áreiðanlega hjá öllum stjórnarflokkunum og væntanlega einnig innan stjórnarandstöðunnar því

að þetta mál er þess eðlis að menn ættu að geta sameinast um það að reyna að fá fram úrbætur.
    Eins og hv. 1. flm. greindi frá í sinni ræðu er vandi sveitanna vissulega sértækur hvað snertir atvinnumöguleika fyrir konur. Það felst fyrst og fremst í því að sú sérstaða er einkum í því fólgin að fábreytnin er meiri en á þéttbýlisstöðunum úti um land. Og fyrir sveitakonur er það oft nánast útilokað eða mjög erfitt og kostnaðarsamt að leita atvinnu út fyrir heimili sitt, út fyrir viðkomandi bú. Vissulega eru konurnar þátttakendur í búrekstri --- og fullgildir þátttakendur, þó að það sé ekki viðurkennt sem skyldi í sambandi við lög og reglur um þessi efni, og það er eitt af þeim atriðum sem þarf að taka á til þess að leiðrétta stöðu kvenna í sveitum.
    Það má segja að við vissar aðstæður séu konur í sveitum nánast eins og í hnappheldu, nánast eins og aflokaðar þar sem þær geta ekki aflað lágmarkstekna. Tryggingakerfið tekur ekki á slíkum vandamálum nema takmarkað. Þarna er því hluti af þegnum landsins sem býr í rauninni við mjög bágar aðstæður og fær ekki aðgang að nauðsynlegum og sjálfsögðum mannréttindum í sambandi við lágmarkstekjur þar sem aðstæðurnar til að afla þeirra eru tæpast til staðar og viðurkenning á aðstæðunum ekki fyrir hendi samkvæmt lögum og reglum.
    Hv. flm. nefndi fólksflóttann úr sveitum, og af landsbyggðinni almennt, og hvernig þar hallar á varðandi kynin, hvað konur eru mun færri en karlar samkvæmt manntalsskýrslum úti á landi. Nefndar voru tölur, 1700--1800 manns, þ.e. að á landsbyggðinni séu 1700--1800 færri konur en karlar. Ég hygg að í mínu kjördæmi, Austurlandi, muni heilum 5%. Ég held að um þriðjungurinn af þessari tölu varði Austurland. Í því þrettán þúsund manna kjördæmi eru karlar um 600 fleiri en konur. Þetta er því auðvitað gífurlegur munur. Og það eru ekki bara sveitirnar, þó að vissulega halli þar á í þessum efnum, það eru einnig ýmsir þéttbýlisstaðir þar sem þessi munur er til staðar.
    En vandamálið sem hér er til staðar snertir ekki bara sveitirnar. Það snertir einnig þéttbýlisstaði á landsbyggðinni. Það snertir fólkið í
frumvinnslugreinunum þar sem konur nánast standa jafnfætis körlum tölulega séð. En aðstæður þeirra til atvinnuþátttökunnar eru allt aðrar og oft lélegri. Þar er auðvitað launamunurinn sagna drýgstur, sá mikli munur í launum sem endurspeglast í tekjum kvenna miðað við karla í okkar frumvinnslugreinum úti um land. Vissulega gætir þess einnig hér á höfuðborgarsvæðinu þótt fjölbreytnin í atvinnuframboði sé hér mun meiri.
    Ég tel að hér sé gott mál á ferðinni og vænti þess að bæði þing og ríkisstjórn auðnist að taka á því til úrbóta fyrir þá sem í hlut eiga.