Efling atvinnu fyrir konur í dreifbýli
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Það hefur nú fjölgað nokkuð karlmönnum hér í þingsal þannig að ég ætla að sleppa því að hafa nokkur orð um slælega mætingu þeirra á fundinum. En það var þannig þegar 1. flm. flutti framsöguræðu sína að þá voru konur helmingi fleiri en karlar og mér datt í hug hvort það segði kannski nokkuð um áhuga þeirra á þessu málefni. En nú hafa svo margir birst að ég hef ekki fleiri orð um það.
    Hér er til umræðu till. til þál. um að efla atvinnumöguleika fyrir konur í dreifbýli. Fyrsti flm. hefur nú þegar gert málinu góð skil í framsöguræðu en ég ætla að bæta nokkrum atriðum við þar sem þetta málefni hefur verið mér mjög hugleikið í nokkur ár. Ég mun einbeita mér að stöðu sveitakonunnar.
    Konur í sveitum hafa ekki hrópað á torgum yfir stöðu sinni í þjóðfélaginu. En staðreyndin er sú að þær hafa í gegnum áratugina og aldirnar unnið mikil og vanþakklát störf fyrir þjóðarbúið. Hver kannast ekki við að hafa heyrt af konunni sem kom upp tíu barna hóp ásamt því að stunda bústörfin og sinnti auk þess öldruðum rúmliggjandi foreldrum? Auk þess að hafa unnið mikilvæg störf fyrir þjóðarbúið hefur sveitakonan sparað mikla fjármuni með því að annast börn sín sjálf á sínu heimili í stað þess að senda þau á dagvistarstofnanir, kostaðar að verulegu leyti af opinberum aðilum. Þá má einnig nefna það að bóndakonan --- ég nefni þetta svona til upplýsingar um hennar stöðu --- hefur matreitt og þjónað iðnaðarmönnum sem komið hafa til starfa á búinu án þess að fá greiðslur fyrir. Ókeypis fæði er nefnilega viðbót á laun þeirra er koma til vinnu á sveitaheimilum. Það er eins og það hafi læðst inn í hugarheim einhverra að maturinn í sveitinni kosti ekki peninga. Það er staðreynd að nú í seinni tíð hefur atvinnumöguleikum kvenna í dreifbýli farið mjög fækkandi. Í öllum sveitum landsins eru fullfrískar konur sem vildu gjarnan, a.m.k. yfir vetrartímann, hafa aukin verkefni, auknar tekjur og meiri félagsskap.
    Eins og fram kemur í grg. hafa konur bundist samtökum á nokkrum stöðum á landinu og hafið framleiðslu á ýmsum smávarningi. Mér segir svo hugur um og reyndar veit ég að þessar ágætu konur þurfa aðstoð í formi ráðgjafar og í formi fjármagns. Við bindum vonir við að útlendingar muni áfram heimsækja Ísland og sumir gera sér jafnvel vonir um að fjöldi ferðamanna til landsins muni stóraukast á komandi árum. Staðreyndin er hins vegar sú að úrval minjagripa hér á landi er frekar af skornum skammti. Þarna tel ég að séu möguleikar fyrir konur í dreifbýli sem þarf að athuga betur.
    Á síðustu dögum hefur umræðan um útflutning á íslenskri fegurð verið nefnd í umræðum manna á meðal. Nú ætla ég ekki að leggja það til að íslenskar bændakonur verði til útflutnings en þeirri hugmynd hefur verið hreyft að hefja framleiðslu á brúðum með nöfnum þeirra Hófíar og Lindu. Þessu hreyfi ég hér sem hugmynd. Staðreyndin er nefnilega sú að það þýðir ekki lengur að halda því fram að konur í sveitum geti prjónað lopapeysur sér til tekjuöflunar

þar sem þær fá innan við 1400 kr. fyrir peysuna og lopinn kostar um 600 kr. Einhvern tíma tekur nú að prjóna peysuna ef ég þekki rétt.
    Ferðaþjónusta er annað og tengt atriði sem ég nefni sem hugsanlegan atvinnugjafa í ríkari mæli en nú er. Mér heyrist að fólk til sveita sé orðið jákvæðara fyrir þjónustu við ferðafólk og er það vel. Á sl. sumri notuðu Íslendingar sér ferðaþjónustu bænda meira en nokkru sinni fyrr og eftir því sem ég hef aflað mér upplýsinga um er almenn ánægja meðal gesta með frammistöðu bændafólks. Mín skoðun er sú að þarna leynist gífurlegir möguleikar og ég vil geta þess að fyrirhuguð er ráðstefna á næstu vikum um þetta málefni samkvæmt ósk aðalfundar ferðaþjónustu bænda. Mér er kunnugt um að oft hafa skapast merkar umræður um stöðu þéttbýlis og dreifbýlis við þessar aðstæður þegar þéttbýlisbúar gista sveitaheimili sem ferðaþjónustugestir og margur misskilningur hefur verið leiðréttur á sumarkvöldum í sveitinni við þessar aðstæður. Þetta er kannski það allra mikilvægasta við starfsemi ferðaþjónustu bænda.
    Í gegnum árin hafa mörg börn úr þéttbýli dvalið á sveitaheimilum yfir sumartímann. Á síðari árum hefur þeim börnum farið hlutfallslega fækkandi sem notið hafa þessa og er það verr. Ég tel að athuga þurfi hvort ekki er aðstaða til að veita miklu fleiri börnum tækifæri til dvalar í sveit gegn greiðslu. Það mundi einnig auka skilning á milli þéttbýlis og dreifbýlis eins og ég kom að áður.
    Ég nefni við þetta tækifæri, þó að það sé kannski örlítið á skjön við umræðuna, að bóndakonan hefur fram til þessa ekki fengið greitt fullt fæðingarorlof hjá Tryggingastofnun ríkisins. Því hefur reyndar verið breytt nú alveg nýlega, en þó er það svo að bóndakonan fær ekki tekið tillit til greiðslna vegna fæðingarorlofs við greiðslu skatta, a.m.k. er það svo í mínu kjördæmi. Þeim eru áætluð laun frá búi á bundnu skattkorti í staðgreiðslukerfinu og þær fá ekki leiðréttingu þar á við greiðslu fæðingarorlofs fyrr en þá a.m.k. síðar. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta stenst lög þar sem konan má ekki taka laun á meðan hún er í fæðingarorlofi. Þessu hefði ég nú gjarnan viljað beina til hæstv. fjmrh. sem er því miður ekki
hér til staðar.
    Um ástæðu þess að við framsóknarmenn leggjum fram till. hér á hv. Alþingi um átak til eflingar atvinnumöguleika kvenna í dreifbýli þarf ekki að fjölyrða frekar. Í grg. með till. koma fram margar mikilvægar upplýsingar um stöðu konunnar í dag og ég legg sérstaka áherslu á félagslega þáttinn í þessu efni, þ.e. einangrun bændakvenna, sérstaklega yfir vetrartímann. Það er því ekki lausnin að hver kona fari að puða í sínu horni. Það þarf að skapa þeim aðstæður til þess að vinna saman.
    Að síðustu vil ég að það komi fram að að mínu áliti eru það fyrst og fremst konur sem komnar eru yfir miðjan aldur sem vantar meiri atvinnu þar sem yngri konurnar vinna meira við bústörfin og uppbyggingu á búunum.