Efling atvinnu fyrir konur í dreifbýli
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju okkar kvennalistakvenna með að þessi þáltill. liggur hér frammi og þá ágætu grg. sem henni fylgir. Á sl. sumri tók ég saman nokkurs konar yfirlit yfir atvinnuaðstöðu kvenna á landsbyggðinni. Hún er allt of löng til að fara með hana alla hér, en mig langar aðeins að koma inn á þær niðurstöður sem ég fékk svona um sveitakonur og hvernig þeirra staða væri. Þar sýndist mér að réði mestu hvernig byggðamynstrið var ef svo mætti kalla það. Ef eingöngu er stundaður landbúnaður í sveitinni er hlutverk konunnar hin hefðbundna sveitahúsmóðurstaða, segja menn, en það hugtak trúi ég nú að verði að fara að skilgreina á ný. Þegar vélvæðingin hélt innreið sína í landbúnaðinn fækkaði kvennastörfum víða, t.d. við heyskap, og mjaltavélarnar tóku karlmenn að sér í þeirri sjálfgefnu trú þess tíma að konur og vélar ættu ekki samleið. En mér virðist að sú breyting hafi gerst að sveitahúsmæður séu yfirleitt nú orðnar þátttakendur í vélavinnu um heyskapartímann og á málum og víða í sveitum eru konur í fullu starfi við búin, a.m.k. á sumum tímum ársins. Þó er það svo á mörgum sveitaheimilum, einkum séu þar ekki ung börn, að þá hefur konan, þótt ein sé um heimilisforsjá, oftlega tíma aflögu sem hún kysi að nota fyrir sjálfa sig til að læra eitthvað, endurhæfa sig eða beinlínis til vinnu innan eða utan heimilis í þeim beina tilgangi að drýgja tekjurnar. Þetta síðasttalda oftar en ekki af brýnni nauðsyn, þó svo að efnahagslegar aðstæður bændakvenna séu afar mismunandi. Enda kemur fram í grg. að um 40% allra búa við hefðbundinn búskap á landinu hafa ekki vinnu nema fyrir einn aðila.
    En hvað er í boði fyrir sveitakonur til að mæta þessum þörfum? Innan flestra landbúnaðarbyggðarlaga hafa myndast þéttbýliskjarnar, sums staðar eru sjávarpláss í nánd. Þéttbýliskjarnar til sveita eru oft í kringum ylrækt eða gróðurhús þar sem konur leggja fram vinnu eða umhverfis skóla, hótel, elliheimili eða þjónustu af einhverju tagi. Sveitakonur sem þurfa að drýgja tekjur heimilisins leita í störf á þessa staði sem kennarar, sem leiðbeinendur, sem starfsstúlkur og í mörgum sveitum eru þetta einu atvinnutækifæri kvenna utan heimilis. Flest hafa þau þá ókosti að vera árstíðabundin, óviss og lágt launuð. Konur á sveitabæjum í námunda við sjávarpláss leita nokkuð í vinnu þangað og í sumum tilfellum við svipuð störf og ég nefndi en auk þess í nokkrum mæli til fiskvinnu. Í þeirri grein er þó yfirleitt litið á þær sem varavinnukraft og dragi úr atvinnu eru það þær sem fyrst er sagt upp. Það sem ég nú hef sagt undirstrikar í rauninni mikilvægi þess sem sú þáltill. fjallar um sem hér er til umræðu, þ.e. varanlegar úrbætur á því að treysta atvinnuöryggi kvenna á landsbyggðinni.
    Vandamál landsbyggðar og dreifbýlis eru ekki séríslenskt fyrirbæri, eins og hér hefur verið nefnt, né heldur vandamál kvenna á þeim stöðum. Þar eru t.d. frændþjóðir okkar á Norðurlöndum í svipaðri aðstöðu en hafa þegar gripið til aðgerða með margvíslegu móti. Haft er eftir menntamálaráðherra Svía að eina

byggðaaðgerð sem þar hefði skilað verulegum árangri væri sú að færa betri og meiri menntun út á landsbyggðina. Sú þróun er vissulega hafin hér og hefur komið konum til góða og þá á ég við menntaskóla, öldungadeildir og síðast Háskóla Akureyrar. Á þessa staði hafa konur flykkst til að sækja sér aukna menntun. Fjarnám sem nú er hafið er líka kostur sem þær geta nýtt sér.
    Ég get talað t.d. um það að Finnar hafa ráðunaut um atvinnuuppbyggingu fyrir konur í dreifbýli og það hefur skilað umtalsverðum árangri og á öllum Norðurlöndunum er eitthvað í gangi einmitt í þá veru að byggja upp þátttöku kvenna í atvinnulífinu. Mig langar að segja frá átaki sem gert var á einum stað í Noregi því þar eru víða erfiðar aðstæður á landsbyggðinni og mörg samfélög að tærast upp, sérstaklega þau afskekktu. Bö er samfélag norðan við heimskautsbaug, 4000 manna dreifbýlissamfélag og aðalatvinna fiskveiðar, 12 verksmiðjur og 200 sveitabýli. 24% íbúanna eru eldri en 67 ára. Konur eru mun fjölmennari á atvinnuleysisskrá en karlar, enda flytja þær frekar burt en þeir. Nýjar atvinnugreinar hafa ekki bætt ástandið þrátt fyrir opinber markmið þar að lútandi. Þess vegna var á vegum bæjarfélagsins sett af stað sérstakt verkefni sem eingöngu er ætlað konum. Byrjað var á að kanna hvað konurnar vildu sjálfar og reynt að hvetja þær til athafna. Í ljós kom að það þurfti að breyta ýmissi þjónustu til að konur gætu unnið á sömu forsendum og karlar og sérstaklega átti þetta við um barnagæslu. Markmið verkefnisins var að skapa ný störf, efla frumlega hugsun og framkvæma hugsunina eða hugmyndina um ,,gróðurhús`` fyrir konur, þá er átt við að hugmyndir kvenna um störf og atvinnu fái að njóta sín. Árangurinn er enn sem komið er fiskeldisstöð sem konur reka sjálfar. Það er eftirtektarvert að konur höfðu engan áhuga á þessari atvinnugrein áður, en nú reka þær eigin stöð af miklum áhuga. Tekjuafgangurinn er notaður til að kosta nám átta kvenna í skipulagi og stjórnun, hagfræði, fiskirækt og rannsóknum. Þetta hefur stórfjölgað atvinnutækifærum kvenna í þessu byggðarlagi.
    Ég vil líka drepa á að fyrir skömmu var gerð sameiginleg könnun í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi á atvinnuháttum dreifbýlisins og því hvernig best mætti snúa af vegi fólksfækkunar og auðnar og styðja landsbyggðina og byggja þar upp
heilbrigt og gróandi mannlíf. Þessi könnun leiddi til þeirrar niðurstöðu að við mótun nýs atvinnulífs og atvinnutækifæra væri þátttaka kvenna höfuðnauðsyn. Áhrifum þeirra yrði að koma að við atvinnureksturinn vegna þess að þær hafa aðra sýn og aðrar viðmiðanir. Þær yrðu að vera með þar sem ráðum væru ráðið og vegna vinnuframlags þeirra yrði að taka tillit til hagsmuna þeirra. Ráðamenn í Noregi hafa látið í ljós að við uppbyggingu atvinnu í dreifbýli skuli þessar niðurstöður hafðar að leiðarljósi. Vonandi vitrast ráðamönnum hér þessi sannleikur sem okkur konum finnst nú reyndar augljós. En ég vil leggja áherslu á það að ef samtök kvenna í dreifbýlinu, kvenfélögin,

sneru sér í alvöru að því að vinna að því að skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir konur, þá gætu þær án efa lyft grettistaki.
    Mig langar að minnast aðeins á strjálbýlisátak Evrópuráðsins, sem var ætlað að vekja athygli þjóða á þeim vandamálum sem afskekktar byggðir Evrópu eiga við að stríða og finna úrbætur í þeim efnum. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, forseti. --- Hér á landi hefur þetta eingöngu beinst að náttúruvernd, en byggð og mannlíf orðið út undan í þeim umræðum.
    Sl. vor héldu kvennalistakonur ráðstefnu á Hvanneyri um atvinnumál kvenna í dreifbýli og þar komu ýmsar athyglisverðar niðurstöður fram. En athyglisverðast þótti mér að sjá og heyra hugmyndaauðgi kvennanna um möguleika á margvíslegri atvinnustarfsemi fyrir konur og langsamlega athyglisverðast hvernig þær hugsuðu sér uppbygging þess því að hugmyndir þeirra byggjast allar á samvinnu kvenna. Atvinnureksturinn tekur mið af börnum og heimili og því að störfum skuli hagað þannig að konur séu ekki knúnar til að varpa frá sér ábyrgð á fjölskyldunni. Við getum að gamni litið á á móti hvernig karlar byggja upp atvinnufyrirtæki. Þar eru konur og börn og þarfir þeirra ekki inni í myndinni þó að gengið sé út frá að vinnuframlag kvenna sé nýtt. Og þó er ávallt vísað til karlanna sem hinna ábyrgu aðila. Konur miða yfirleitt við að byrja smátt, efla reksturinn hægt og örugglega, karlar vilja byrja stórt, verða ríkir strax og sorglegar afleiðingar þess hugsunarháttar blasa allt of víða við.
    En ég vil enda mál mitt á því að segja að landsbyggðinni er bráður og stórkostlegur vandi á höndum um atvinnumál og atvinnuuppbyggingu sem ég fæ ekki séð að verði leystur nema aðstoð stjórnvalda komi til í einhverjum mæli. En heimamenn verða sjálfir að eiga frumkvæðið, hugmyndirnar og tillögurnar um hvað gera skuli og þar verða konur að hafa frumkvæði að sínum hluta. Hugmyndirnar skortir þær ekki. Það verður að hlusta á konur og taka mið af skoðunum þeirra, því að það skiptir öllu máli um framtíð landsbyggðarinnar að tillit sé tekið til þess hvernig þarf að búa að konum og þannig sé búið að konum að þær geti komið inn í atvinnulífið á eigin forsendum og uppbyggingin taki mið af því hvað þeim hentar.
    Og með tilvitnun í stjórnarsáttmálanum um átak til eflingar atvinnu kvenna í dreifbýlinu, þá skora ég á hæstv. ríkisstjórn að láta nú athöfn fylgja orðum.