Efling atvinnu fyrir konur í dreifbýli
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Flm. (Unnur Stefánsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og rætt um þessa fram komnu þáltill. Ég fagna því að þm. annarra flokka en þeirra sem standa að ríkisstjórninni hafa lýst yfir stuðningi við þessa tillögu, ýmist hafa þeir lýst stuðningi einir og sér eða fyrir hönd sinna flokka.
    Í framhaldi af ræðu síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Vesturl., varðandi vinnubrögð. Ef þetta eru ný vinnubrögð þá held ég að það sé gott. Það má nú kannski aðeins breyta til stundum á Alþingi og koma með ný vinnubrögð. Ég sé ekkert athugavert við þetta. Málið er lagt fram vegna þess að það hefði þurft að framkvæmast í fyrra, eftir eitt ár er það orðið of seint.
    Það hafa ýmsir þingmenn bent á ýmsa möguleika varðandi atvinnu fyrir konur í dreifbýli og ég fagna því. Bent hefur verið á að ferðaþjónustu bænda megi efla, matvælaiðnaði megi koma upp í þeim húsum sem e.t.v. eru ekki nýtt núna og það var talað um að auka megi dvöl fyrir þéttbýlisbörn í sveit, svo nokkur dæmi séu tekin. Einn hv. þm. benti á það að hugmyndin þyrfti að koma frá konunum sjálfum og það held ég að sé afskaplega mikilvægt. Þessi námskeið sem Iðntæknistofnun hefur komið af stað eiga að vera til þess að efla sjálfstraust kvenna og hvetja þær til þess að hugsa þessi mál, af því að ég veit að þær hafa hugmyndirnar á reiðum höndum, en það þarf að hvetja þær til þess að leggja hugmyndirnar fram.
    Þessi till. er komin fram m.a. vegna þess, eins og getið var um í grg., að á um 40% allra búa í landinu þar sem búið er við hefðbundinn landbúnað er ekki vinna nema fyrir annað hjónanna og því mjög eðlilegt að í framhaldi af því verði farið að huga að því hvaða atvinnu þeir geti tekið að sér sem ekki hafa fulla vinnu við búið.
    Hv. 2. þm. Austurl. benti réttilega á það að lögð hafi verið fram fsp. af honum og hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, þar sem forsrh. er spurður að því hvernig háttað skuli framkvæmd þessa ákvæðis í stjórnarsáttmálanum, og ég tel það af hinu góða. En ástæðan fyrir því að þetta mál var sérstaklega tekið út úr stjórnarsáttmálanum er það, að þetta er svo brýnt mál að það er nauðsynlegt að vekja umræðu um það strax og þess vegna er það tekið fyrir nú. Ég vona að því verði sýndur skjótur framgangur og að athafnir verði látnar fylgja orðum.