Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Eggert Haukdal:
    Virðulegi forseti. Svo sem kunnugt er hefur hæstv. viðskrh. allt frá því er hann kom frá prófborði ungur að aldri helgað sig þeim störfum að vinna að bættum þjóðarhag. Sem þjóðhagsstjóri varð hann helsti ráðgjafi margra ríkisstjórna og markmiðið var alltaf að finna rétta þjóðarhaginn á hverjum tíma. Þótt hann sé nú ráðherra hefur hann viljað halda í þjóðhagsstjóraembættið til að geta helgað sig því embætti á nýjan leik þegar hann er hættur að efla þjóðarhaginn sem ráðherra.
    Ekki er óeðlilegt að maður með slíka reynslu finni upp ,,þjóðráð`` til að efla þjóðarhag. Nú er upplýst að hæstv. ráðherra hefur einmitt fundið upp nýtt ,,þjóðráð`` og hið nýja ,,þjóðráð`` er ekki af lakari endanum. Aðferðir grænfriðunga skulu notaðar við útbreiðslu ,,þjóðráðsins``. Nú skulu Íslendingar hætta að borða hinar náttúrlegu afurðir, kjötið af íslenskum grasbítum, vegna þess að kindur og hross fara svo illa með fósturjörðina.
    Sem betur fer hefur ofbeit mjög minnkað á Íslandi, en að sjálfsögðu þarf að taka fyrir hana að fullu á þeim tiltölulega litlu svæðum þar sem hennar verður enn vart. Eyðingu af völdum vatns og veðra er erfiðara að bæta en er þó stöðugt viðfangsefni.
    Því hefur verið haldið fram að viðskiptahalli væri ærinn hér á landi um þessar mundir og þyrfti að spara gjaldeyri. Hæstv. viðskrh. virtist hafa nóg af honum til að kaupa fyrir erlent ket í stað íslensks og framkvæma þannig ,,þjóðráð`` sín.
    Hæstv. forsrh. hefur sagt að ekkert beri á milli Framsfl. og Alþfl. í landbúnaðarmálum. Eru þetta kannski tillögur beggja flokkanna? Ég þykist þess þó fullviss að hæstv. landbrh. styður ekki þessa stefnu.
    En þessi tillaga er ekki fyrsta ,,þjóðráð`` hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra gat aldrei gert rétta þjóðhagsspá meðan hann var þjóðhagsstjóri. Allir þekkja ,,þjóðráðið`` í vaxtastefnu hæstv. ráðherra. Allt hefur verið miðað við markaðslögmálin sem ekki verkuðu, en nú loks er hann að snúa frá villu síns vegar þegar heimilin og fyrirtækin eru komin í strand vegna vaxtaokursins. Hann beitir nú handafli í gríð og erg og er vonandi að það þjóðráð gagni betur en það nýja sem hann setti fram á þingi Alþfl.
    Hæstv. ráðherra hefði átt að setja fram á þingi Alþfl. þá tillögu að afnema lánskjaravísitöluna að fullu. Með þeirri tillögu hefði hann bætt fyrir eitthvað af sínum fyrri ,,þjóðráðum``.