Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Það er aðeins út af því sem fram kom í orðum málshefjanda, hv. þm. Pálma Jónssonar, þar sem hann beindi fsp. til hæstv. forsrh. sem því miður er ekki hér viðstaddur og ég get ekki svarað fyrir hann öllum spurningum sem til hans er beint. Ég leyfi mér þó að fullyrða að ummæli einstakra ráðherra eða persónulegar skoðanir þeirra geta ekki sjálfkrafa talist stefna ríkisstjórnar og ummæli á flokksþingum og afskipti fjölmiðla af þeim geta ekki heldur flokkast sem slíkt jafnvel þótt náin samvinna sé milli þeirra flokka sem nú vinna saman í ríkisstjórn eins og alþjóð er kunnugt um.
    Auðvitað er nauðsynlegt að huga vel að gróðurverndarmálum, þau eru mikilvæg, og umhverfismál og samræming þeirra í stjórnkerfinu eru m.a. á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar. En það er einnig mikilvægt að huga vel að málefnum landbúnaðar. Landbúnaðurinn hefur á undanförnum árum gengið í gegnum mjög erfitt tímabil þar sem hann hefur reynt að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þar hefur verið reynt að tefla saman markaðsmálum og að sjálfsögðu einnig gróðurverndarmálum. En að það verði gert með viðskiptaþvingunum tel ég fráleitt og ég leyfi mér aftur að ítreka og fullyrða að slíkt getur ekki verið og er ekki afstaða ríkisstjórnar.
    Ég undirstrika það enn frekar að það er mikilvægt að samræma þessi sjónarmið, þ.e. gróðurverndarsjónarmiðin og aðstæður landbúnaðarins. Það verður að gera með því að sameina krafta hagsmunaaðila og reyna að ná fram þeim viðhorfum sem mikilvægust eru sem auðvitað eru þó viðkvæm. Þess vegna þarf að vinna að þeim í sátt og samlyndi en ekki með hótunum.