Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Þessi umræða er æðisérkennileg og mér finnst verulega á það skorta að menn hafi rætt um grundvallaratriði þessa máls, þ.e. ótta þjóðarinnar við að land okkar sé að blása upp í æ ríkari mæli. Staðreyndin er sú að land hefur fokið upp meira á undanförnum árum og áratugum en nokkru sinni fyrr og í baráttu gegn uppfokinu erum við á undanhaldi.
    Það hefur verið skoðun mín um langt árabil að við þyrftum að gera meira af því að haga búskap eftir landsháttum og reyna að stuðla að því að vernda gróðurlendi eins og afrétti á Suðurlandi, svo ég beini orðum mínum til hv. þm. Suðurl., þar sem Biskupstungnaafréttur, Landmannaafréttur og fleiri beitarlönd eru að verða ónýt.
    Það er ekkert skrýtið þó að sú hugmynd komi upp að menn vilji verja þeim tugum og hundruðum millj. kr. sem varið hefur verið til afréttagirðinga til þess frekar að girða af einhvers staðar og í áföngum það búfé sem nú gengur laust í landinu. Við eigum að rækta heimahaga til beitar. Og mig langar í lok orða minna að segja frá því að einn af varaþingmönnum Framsfl. orðaði það svo við mig norður á Akureyri fyrir nokkrum mánuðum að upprekstur búfjár á afrétti, sem væru meira eða minna lélegir eða ónýtir, væri ekkert nema gömul rómantík.