Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég harma þau ummæli sem eftir ráðherra eru höfð í Morgunblaðinu. Ég verð að segja að þessi ummæli hljóta að jaðra við atvinnuróg. Vissulega má líkja þessu við starfsaðferðir Greenpeace þar sem þau samtök beita einmitt þeim aðferðum að beita viðskiptaþvingunum og skemmdarstarfsemi á mörkuðum andstæðinga sinna. Ráðherra ætti frekar að snúa sér að því að bændur fái lögbundin afurðalán samkvæmt búvörusamningi greidd á tilsettum tíma úr bönkunum.
    Þá má spyrja ráðherra: Hvernig á að auðkenna þessa vöru í verslunum eða er það e.t.v. hugmynd hans að sláturhús taki ekki við þessum dýrum til slátrunar? Hver var hugsun ráðherra á bak við þessar yfirlýsingar? Ég hvet ráðherra til að snúa sér frekar að markaðs- og sölumálum landbúnaðarins en vera með skaðlegar múgæsingayfirlýsingar.
    Til upplýsingar fyrir hv. þm. Árna Gunnarsson vil ég geta þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá formanni samtaka sauðfjárbænda fyrir hálftíma er beitt á Biskupstungnaafrétt þrisvar sinnum færra fé en afrétturinn er talinn þola.