Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Það gladdi mig mjög sú stutta ræða sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir flutti áðan vegna þess að því miður hefur það verið svo allt of lengi að ef menn hafa rætt um vandamál landbúnaðarins hafa of margir rætt málið á þeim grundvelli að tala svo hátt að aðrir fái hellu fyrir eyrun og geti því ekki hlustað á eðlileg og skynsamleg rök og hins vegar með því að hvetja menn til að stinga höfðinu í sandinn.
    Kjarni málsins er að sjálfsögðu, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan, að það eru margir þættir sem eiga hlut að því að gróðureyðing hefur átt sér stað á Íslandi. Þar á meðal er að sjálfsögðu ofnýting landgæða. Ég vil bara benda á, virðulegi forseti, að fyrir stuttu var okkur fortalið í sjónvarpinu frá forsjármönnum bænda sjálfra að Framleiðnisjóður byðist til þess að kaupa upp framleiðslurétt bænda á þeim svæðum þar sem um gróðureyðingu vegna ofbeitar væri talið að ræða. Ég man ekki betur en í þeirri mynd af landinu sem þá var sýnd á sjónvarpsskerminum til að skýra þetta mál nánar hefði bróðurpartur af gróðurlendi landsins verið talinn til þess flokks.
    Ég man eftir því, virðulegi forseti, að það eru ekki nema 3--4 ár síðan að hv. þm. Páll Pétursson stóð hér í ræðustól og hélt því fram í fullri alvöru að hvorki væri um ofbeit að ræða á Íslandi né offramleiðslu landbúnaðarvara. Og vegna þess sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan, að það væri markmið Alþfl. að svelta bændur burtu af jörðum sínum: Hvað er kvótakerfið sem landbúnaðurinn býr við annað en tilraun til þess að fá bændur til að hætta búskap þó að menn taki ekki svo mikið upp í sig að segja að það væri til þess gert að svelta bændur af jörðum sínum?
    Og virðulegi forseti. Hver ber ábyrgð á þessu kerfi? Hver ber meiri ábyrgð á því kerfi en hv. þm. Páll Pétursson?