Kjararannsóknir
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Hér er lögð fram till. til þál. um að efla kjararannsóknir. Ég kveð mér hljóðs til þess að taka undir efni þessarar till. Hér hafa sameinast menn úr öllum alvörustjórnmálaflokkum á Íslandi fyrir utan það að ég sakna þess að hér skuli ekki vera fulltrúi frá okkar vinsamlega Alþfl. því að ekki hef ég trú á öðru en að þeir mundu vilja taka þátt í því að þessum málum sem hér er fjallað um verði komið á réttan grundvöll. Ég fagna því auðvitað sérstaklega að sjá að hér hefur gengið til liðs við þessa hugsun hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson því að það er mikilvægt að Sjálfstfl. skilji mikilvægi þessa máls og þarna sé ég að hann fyllir þann hóp.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að skapa þjóðarsátt á Íslandi í launamálum. Það ríkir mikil óánægja með það ástand sem hefur verið á vinnumarkaði hér á landi sl. ár, ekki síst eftir að frjálshyggjan kom til sögunnar og margt fór úr skorðum því að það er nú svo að við skulum gera okkur það ljóst að stór hópur fólks í landinu, 10% alla vega eða 15% --- það er fullyrt dag eftir dag að þessi stóri hópur á íslenskum vinnumarkaði hafi laun upp á 150--400 þús. á einum mánuði og þaðan af hærri. Við skulum átta okkur á þessari staðreynd. Og hvar sem menn leita að töxtum, hvort sem það er hjá ríki, sveitarfélögum, verkalýðshreyfingu eða hvar sem er, vinnur þetta fólk allan sólarhringinn ef það ætti að ná þessum launum. Þess vegna er það brýnt, ekki síst gagnvart láglaunafólkinu, að hér verði mynduð þjóðarsátt um gerð launamiða þar sem allar áreiðanlegar upplýsingar um vinnustundir koma fram, eins og hér er lagt til, þar sem dagvinnu er skipt, yfirvinnu og ekki síst öðrum launagreiðslum ef þær eru fyrir hendi.
    Ég tel að við megum aldrei gefast upp og ég held að ríði á því núna á þessari stundu, við þessi tímamót í íslensku þjóðfélagi, að þessi mál verði tekin föstum tökum. Við vitum að það sverfur að og við þurfum að breyta stefnunni í landinu þannig að fólk lifi sem mest af sinni dagvinnu og ég held einmitt að það sé hægt ef hér fer ákveðinn jöfnuður í gang. Ég hvet því til þess að þessi ágæta þáltill. fái hér þinglega meðferð og skjóta afgreiðslu í nefnd því að mín skoðun er sú sem hér hefur komið fram, að það er ekkert mikilvægara en að efla og gera nákvæmari kjararannsóknir. Þær munu auka líkur á því að unnt sé að gera launakerfin í landinu auðskiljanlegri, þannig að fólkið sætti sig við sín kjör.