Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að taka undir þá viðleitni sem felst í tillöguflutningi þeim sem hv. þm. Friðjón Þórðarson stendur hér fyrir með flutningi á till. til þál. um könnun á jarðvarma, jarðsjó og ferskvatni á Vesturlandi. Eins og fram kemur í þessu þingmáli og í máli hv. flm., þá skiptir það miklu að hægt sé að afla aukinnar þekkingar á náttúrugæðum landsins, ekki síst þeim þáttum sem orðið geta til þess að styrkja atvinnulíf eða leggja grunn að atvinnustarfsemi sem víðast á landinu. Náttúrugæði á borð við jarðvarma, jarðsjó og ferskvatn eru undirstaða fyrir starfsemi af margháttuðu tagi, fyrir utan nýtingu jarðvarmans til húshitunar sem er býsna langt komin.
    Ég þekki áhuga hv. flm. á að þoka þessum málum fram í sínu kjördæmi m.a. frá þeim tíma þegar við sátum saman í ríkisstjórn en einnig af tillöguflutningi hans á öðrum sviðum og fleiri hv. þm. Vesturlands hafa á þessum árum sannarlega ýtt á eftir um að fá aukna vitneskju um þessi mál.
    Vikið var að nýtingu jarðvarma á Vesturlandi þar sem Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar hafa Deildartunguhver sem uppsprettu. Það var sannarlega mikilvæg framkvæmd þótt þyngra hafi orðið fyrir fæti í sambandi við fjárhag þess fyrirtækis heldur en vonir stóðu til þegar ákvarðanir voru teknar af heimamönnum með stuðningi ríkisvaldsins. Það minnir á það að í sambandi við þau gæði sem hér er um rætt í þessari þáltill. skortir talsvert á að löggjafinn hafi sett ákvæði um nýtingarrétt og eignarhald á þessum gæðum.
    Ég hef oft á fyrri þingum flutt tillögur sem snerta lagasetningu varðandi eignarhald á jarðhita og á fersku vatni. Þær tillögur hafa því miður enn ekki náð fram að ganga. Ég vænti þess hins vegar að skilningur fari vaxandi á nauðsyn þess að setja ákvæði í lög varðandi þessi atriði og vil hvetja þá hv. þm., sem eru að leitast við að efla rannsóknir á þessum þáttum hver í sínu umdæmi, til að leiða hugann að því hve þýðingarmikið er að skýrar reglur verði mótaðar af löggjafanum varðandi umráðaréttinn. Ég tek það fram að þegar ég mæli fyrir víðtækum almannarétti varðandi eignarhald á þessum gæðum hef ég ekki aðeins ríkið í huga heldur einnig sveitarfélögin sem geta með sama hætti verið fulltrúi almannaréttar og almannavalds.
    Virðulegur forseti, ég skal ekki lengja þetta mál. Ég vænti þess að þessi tillaga fái eðlilega meðferð svo sem hún verðskuldar því að það er nauðsynlegt, ekki síst eins og nú horfir í sambandi við atvinnulíf víða úti um land, að hert verði á rannsóknum á þeim gæðum sem geta orðið undirstaða undir fjölþættara atvinnulíf. Það mun vera markmiðið með þessum tillöguflutningi og öðrum málum svipaðs eðlis sem þingmenn eru að bera hér fram. Auðvitað þarf samræmt átak í þessum málum eins og vikið er að í tillögunni. Það þarf samræmt átak yfir landið sem heild. Með rannsóknum þarf að auka vitneskju okkar á náttúrugæðum landsins og möguleikum til að nýta

þau af skynsemi og einnig með verndun í huga. Við þyrftum að hafa meira fjármagn til ráðstöfunar í þessu skyni en því miður hefur verið skorið við nögl og dregið úr fjárveitingum til rannsóknarstofnana á undanförnum árum. Þeim hefur verið ætlað að afla sér fjár með sértekjum í vaxandi mæli sem hefur aftur leitt til þess að minna verður afgangs til að sinna grundvallarrannsóknum eins og þeim sem hér er í raun verið að fjalla um í þessari tillögu.