Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram á Alþingi till. til þál. um eflingu fiskeldis ásamt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, Alexander Stefánssyni, Jóni Kristjánssyni, Guðna Ágústssyni og Stefáni Guðmundssyni. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að efling fiskeldis á Íslandi skuli vera meðal forgangsverkefna í atvinnumálum og felur ríkisstjórninni að vinna að uppbyggingu og þróun þessarar atvinnugreinar í samræmi við þá stefnumörkun. Í því sambandi er sérstaklega áréttað:
    1. Að starfsskilyrði fiskeldis hérlendis verði sem líkust því sem gerist í helstu samkeppnislöndum.
    a. Komið verði á samræmdu afurðalánakerfi er geri fiskeldisfyrirtækjum kleift að fjármagna reksturinn fram að sölu afurða.
    b. Söluskattur og aðflutningsgjöld verði endurgreidd bæði af stofn- og rekstrarkostnaði.
    c. Lántökuskattur verði endurgreiddur.
    d. Stimpilgjöld verði greidd með sama hætti og í sjávarútvegi.
    e. Raforka til fiskeldis verði seld á taxta er taki mið af nýtingartíma og orkunotkun.
    f. Reglur um takmörkun erlendrar lántöku hindri ekki uppbyggingu arðbærra fiskeldisfyrirtækja.
    g. Fyrirtækjum verði heimilt að taka sjálf beint lán erlendis, enda leggi þau sjálf til ábyrgðir.
    2. Komið verði á kennslu í fiskeldi á háskólastigi og menntun eldismanna efld.
    3. Rannsóknir á sviði fiskeldis verði efldar og unnið eftir markvissri áætlun.
    4. Kerfisbundin athugun verði gerð á hugsanlegum þætti fiskeldis í búháttabreytingum innan landbúnaðarins.
    5. Sjúkdómaeftirlit og sjúkdómavarnir verði efld.
    6. Komið verði á samræmdu gæðamati fiskeldisafurða.
    7. Fylgst verði grannt með þróun fiskeldis í helstu samkeppnislöndum og leitað formlegrar samvinnu við Norðmenn.
    8. Sett verði samræmd heildarlöggjöf um fiskeldi.``
    Þó að fiskeldi sé tiltölulega ung atvinnugrein á Íslandi hefur greinin vaxið mjög hratt og flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að fiskeldi geti orðið mjög mikilvægur þáttur í atvinnulífi Íslendinga í þjóðarbúskapnum ef rétt er á málum haldið.
    Í árslok 1987 voru skráðar fiskeldis- og hafbeitarstöðvar alls um 113, en fjölgaði um 14 það sem af er árinu 1988 þannig að nú eru um 127 fyrirtæki í þessari grein á landinu. Talið er að framleiðsla ársins 1988 af laxi verði um 1100--1200 tonn. En laxeldi er viðamest, fyrirferðarmest, í íslensku fiskeldi eins og er og verður vafalaust í næstu framtíð þó að silungseldi sé hér talsvert og menn séu að byrja að fikra sig áfram með tilraunaeldi á öðrum tegundum. Hafrannsóknastofnun og Íslandslax standa til að mynda saman að tilraunum með lúðueldi á Stað fyrir vestan Grindavík og Fiskeldi Eyjafjarðar hf. er með tilraunaeldi á lúðu á Hjalteyri. Norðmenn eru komnir mun lengra í tilraunaeldi á lúðu og hafa

reynt að klekja lúðu og byrjunarfóðra hana. Enn sem komið er er árangur ekki nægur af því, en um leið og menn ná tökum á því eldi munu margir hlutir breytast varðandi lúðuna. Napi hf. hefur verið með eldi á kræklingum í Hvalfirði með nokkuð góðum árangri og á Stað er hafið tilraunaeldi á sæeyra eða ,,red abalone`` og tilraunaeldi á hörpudiski er hafið á vegum Hafrannsóknastofnunar í Breiðafirði. Þannig er verið að horfa í ýmsar áttir.
    Ég er þeirrar skoðunar að engin atvinnugrein á Íslandi í dag búi yfir jafnhröðum vaxtarmöguleikum og fiskeldi. Ég er þeirrar skoðunar að engin atvinnugrein geti aukið þjóðartekjur jafnmikið á næstu árum og fiskeldi, fiskurinn er að verða húsdýr.
    Til samanburðar vil ég geta þess að Norðmenn, sem lengst eru komnir í eldi, áætla að framleiða um 100 þús. tonn af eldislaxi þegar á næsta ári. Þessi framleiðsla svarar til hvorki meira né minna en 700 þús. tonna af þorski, sem eru u.þ.b. tvöfaldar þorskveiðar Íslendinga, og þá sjáum við hvílíkir möguleikar þarna eru. Þetta gefur okkur vísbendingu um hvað Íslendingar geta gert í fiskeldi á næstu árum ef rétt er á málum haldið.
    Ég er þeirrar skoðunar að innan tiltölulega stutts tíma geti fiskeldi gefið allt að því helmings tekjur á við sjávarútveg ef við byggjum greinina skipulega upp. Ég hygg að enginn geti bent á aðra atvinnugrein sem býr yfir slíkum framtíðarmöguleikum innan tiltölulega stutts tíma, ekki síst á þeim tíma þegar Íslendingar búa við viðvarandi viðskiptahalla, viðskiptahalla sem nemur 7--12 þús. milljónum kr. á ári. Þá verður ljóst að auka þarf framleiðsluna. Þessi viðskiptahalli hefur verið hér þrátt fyrir tiltölulega gott árferði og hversu mikið sem menn tala um hinar ýmsu leiðir í
efnahagsmálum, niðurfærsluleiðir, millifærsluleiðir eða uppfærsluleiðir, komast menn ekki fram hjá því að ein aðalleiðin hlýtur að vera framleiðsluleiðin eða útflutningsleiðin, að auka framleiðsluna og auka þjóðartekjurnar. Vilji menn gera það eiga menn að horfa til fiskeldisins, horfa til reynslu Norðmanna sem munu á sínum tíma, ef ég hef réttar upplýsingar, hafa samþykkt á sínu þjóðþingi að veita fiskeldi nokkurs konar forgang í atvinnuuppbyggingu. Árangurinn er augljós.
    Aðstaða á Íslandi er slík nú og ég vil segja að óvæntar aðstæður bjóða upp á nánast framleiðslubyltingu í íslensku fiskeldi á árunum 1988--1990. Ástæðan er auðvitað sú að norski seiðamarkaðurinn lokaðist, ég vil segja óvænt, sem veldur því að mjög mikið af laxaseiðum er í landinu sem Íslendingar geta alið til sláturstærðar ef þeir eingöngu vilja og beita til þess afli að standa rétt að málum. Starfsskilyrðanefnd, sem á sínum tíma var skipuð til að kanna aðstöðu fiskeldis á Íslandi, áætlaði þá að um 10 millj. seiða geti orðið til slátrunar hér --- ja, ekki seinna en um árslok 1989 og fram á vorið 1990. Áætluð útflutningsverðmæti þessarar framleiðslu eru um 5000 millj. á ári, því að slíku er hægt að viðhalda síðan ár eftir ár, sem er um 10% af

heildarútflutningsverðmætum íslensku þjóðarinnar árið 1987. Þessar tölur miða reyndar við talsvert mikil afföll og að verulegur hluti af þessum seiðum sé alinn í sjókvíum.
    Það er ekki fráleitt og miðað við markaðsverð undanfarinna mánaða og ára má reikna með að kílóið af laxi sé um sjö sinnum verðmætara en kíló af þorski upp úr skipi. Þetta svarar þess vegna til að þorskveiðar væru auknar um 125 þús. tonn á ári, þ.e. nálægt því 40% aukning á þorskveiðum frá því sem Hafrannsóknastofnun leggur til að veitt verði. Það er ekki lítils virði, þegar menn þurfa að draga saman slíkar veiðar, að búa yfir þannig möguleika sem er í höndunum á okkur. Við þurfum þess vegna sérstaklega að huga að því að búa greininni möguleika til að geta gert þennan draum að veruleika.
    Það er fróðlegt að bera saman framleiðslumöguleika í fiskeldi og kannski okkar helstu útflutningsgreinum eða þeim greinum sem mest er talað um. Ég hef gert það að gamni mínu að fletta upp tölum varðandi fjárfestingu og framleiðslu annars vegar í sjávarútvegi, í útgerð, og hins vegar í strandeldisstöð. Þær tölur sem ég fékk fram á sínum tíma bentu til þess að um 500 tonna frystitogari, en frystitogari er kannski sú gerð skipa sem einna best ber sig í dag, gæti kostað einhvers staðar á bilinu um 450 millj. og þegar ég gerði þessa skoðun benti margt til að að meðaltali gætu skip af þessari stærð skilað framleiðsluverðmætum upp á um 270 millj. kr. á ári. Ef strandeldisstöð fyrir lax er byggð fyrir um 450 millj. kr. ætti hún að geta framleitt um 1800 tonn af laxi á ári og framleiðsluverðmætin hæglega svarað til um 540 millj. á ári, þ.e. framleiðsluverðmæti væru tvöföld miðað við fjárfestingu í þó þessum af einum besta kosti sem Íslendingar eiga í dag. Þetta hlýtur að segja okkur nokkuð um arðsemi þess fjármagns sem þarna er um að ræða, ekki síst þegar þess er gætt að innlend aðföng eru mun meiri í strandeldisstöðinni, sem þarna er borin saman við frystitogarann, en í útgerðinni sem nýtir olíur og jafnvel innflutt verðmæti og stofnkostnaður togarans er að miklum meiri hluta keyptur erlendis frá en fiskeldisstöðin er byggð fyrir. Fiskeldisstöðin gerir síðan ekki út á ofnýtta fiskistofna, þorskstofna, þannig að samanburðurinn verður enn þá hagstæðari.
    Til þess að gera mönnum grein fyrir þeim möguleikum sem hér er um að ræða hef ég líka að gamni mínu sett upp reikningsdæmi og borið þá saman við þann kost sem mörgum þykir afar vænlegur í okkar þjóðlífi, þ.e. nýtt álver. Það er ekki ólíklegt að um 100 þúsund tonna álver, sem nokkuð er í umræðunni nú og gæti verið byggt í Straumsvík ef hagkvæmniáætlanir verða jákvæðar og samningar nást, kosti um 14000 millj. kr. og að ársframleiðsla þess gæti verið um 7 milljarðar á ári. Strandeldisstöð, sem væri byggð og miðaði við það að geta nýtt og alið til slátrunar þau seiði sem í landinu eru, mundi geta kostað einhvers staðar um 5000 millj. eða rúmlega 1 / 3 af því sem álverið kostar, en útflutningsverðmæti gætu verið um 6000 millj. Þar með er ekki öll sagan sögð

vegna þess að ef litið er til þeirra 7000 millj. sem álverið skilar brúttó verður ekki eftir inni í landinu nema hluti af þeim peningum. Mér sýnist að raforkan skilji eftir einhvers staðar um rúman milljarð ef miðað er við að álverið nýti um 1300 gígawattstundir á ári og orkan væri seld á 17--18 mill. (Gripið fram í.) Atvinnutækifærin eru sennilega fleiri í fiskeldinu. Þau eru miklu fleiri, hv. þm., og ég skal koma að því á eftir, sérstaklega vegna þeirra gífurlegu möguleika í hliðargreinum sem myndast í fiskeldinu.
    En við skulum líta á álið. Álið hefur enn, því miður, ekki byggt upp hliðargreinar hér á landi. Það kann að vera að það geti orðið í framtíðinni. Ég er ekki sá bjartsýnismaður á úrvinnslugreinar í áli sem margir aðrir, en vonandi geta slíkir draumar ræst. Ég miða við að laun í álveri séu um 16% af rekstrarkostnaði og þá gæti þar verið rúmur milljarður í viðbót þannig að eftir í landinu frá álverinu gætu orðið einhvers staðar um 2 1 / 2 --3 milljarðar kr. á ári í erlendum gjaldeyri ef miðað er við að keypt sé þjónusta
hér og flutningar og annað slíkt sem inn í þetta dæmi kemur.
    Strandeldisstöðin skilur hins vegar nánast allt sitt fé eftir í landinu. (Gripið fram í.) Nánast allt, í hvorugu dæminu er reiknað með vöxtum af fjárfestingu, hv. þm., þannig að samanburðurinn verður ekki óhagstæðari fyrir þann hluta. Þetta þýðir að grófur reikningur sýnir að eingöngu það að ala þessi 10 milljón seyði til sláturstærðar og efla fiskeldi þannig skilar inn í landið í gjaldeyri, í tekjum inni í landinu svipað og tvö álver. Það kann að vera að menn hristi hausinn og eigi erfitt með að átta sig á þessum tölum, en þetta sýnir hvað um er að ræða.
    Í þessu sambandi er sérstaklega rétt að gæta þess og geta þess að fiskeldið byggir upp gífurlegar hliðargreinar. Fremst ber þar kannski að geta fóðuriðnaðarins, en Íslendingar hafa sérstöðu í fóðurframleiðslu. Við höfum allt hráefnið til fiskafóðurframleiðslunnar. Mér sýnist gróft tekið að við getum tuttugufaldað verðmæti ýmiss konar fiskúrgangs og loðnu með því að breyta í lax. Aðrar hliðargreinar í iðnaði geta vaxið feiknarlega eins og sýnir sig í Noregi, ýmsar iðngreinar í sambandi við þjónustu og byggingu þessara greina.
    Forseti er þegar farinn að gefa mér merki um tíma og hafði ég þó eingöngu lokið litlu af því máli sem ég ætlaði að flytja. Ég skal þó freista þess, forseti, að stytta mál mitt mjög.
    Í greinargerðinni geri ég grein fyrir því að á Íslandi eru óvenjulega góðar aðstæður til fiskeldis, bæði til eldisins og hafbeitar. Matvælaframleiðsla á Íslandi hlýtur þess vegna að eiga mjög mikla framtíð í heimi vaxandi mengunar. Þrátt fyrir þetta hefur fiskeldi átt mjög undir högg að sækja og í greinargerðinni geri ég grein fyrir ýmsum atriðum varðandi það hversu statt er með afurðalánakerfi til fiskeldisins sem engan veginn er slíkt sem í öðrum útflutningsgreinum. Tímans vegna er mér líklega ekki fært að rekja það hér, en þeir sem áhuga hafa geta

rakið sig í gegnum það í þessari greinargerð. Þannig standa stjórnvöld að uppbyggingu þessarar nýju greinar að 1 millj. af hverjum 10 sem teknar eru að láni til fjárfestingar verða menn að greiða ríkinu í skatta nánast áður en þeir fá féð í hendur. Þannig mætti lengi telja.
    Í greinargerðinni er síðan dregin saman og birt niðurstaða starfsskilyrðanefndar um samanburð á starfsskilyrðum, þ.e. stofnkostnaði og rekstrarlánum, í helstu samkeppnislöndum Íslendinga, sem eru Noregur og Skotland, Írland og Færeyjar, og þar kemur í ljós fyrir þá sem það vilja kynna sér að þar er gífurlegur munur á. Hér er drepið á nauðsyn þess að efla bæði rannsóknir og menntunarmál og vísa ég enn til greinargerðar vegna þess hversu tíminn líður hratt. Ég vísa til málsins sem hér var til umræðu á undan þessari þáltill. um Vesturland og bendi þá á að víða um land er unnt að nota fiskeldi til búháttabreytingar í landbúnaði. Sérstaklega bendi ég á nauðsyn þess að við náum náinni samvinnu við Norðmenn til að nýta þá reynslu sem þeir þegar hafa. Ég bendi mönnum á töflu í greinargerðinni um þá gífurlega öru þróun sem í Noregi er í fiskeldi, ekki síst það að Norðmenn reikna með að innan stutts tíma séu þeir komnir með um 213 þús. tonna framleiðslu úr fiskeldi. Þar af get ég nefnt dæmi eins og að lúða sé orðin 10 þúsund tonn í eldi 1995, laxinn 130 þús. tonn, þorskurinn 20 þús. tonn og nýjustu tölur benda til þess í Noregi að í hverjum mánuði séu lagðar inn til stjórnvalda 40 beiðnir um að fá að setja á stofn fiskeldisfyrirtæki, 40 beiðnir sem ekki snúast um lax heldur allar um aðrar greinar. Við höfum hreinlega ekki efni á því að dragast aftur úr í þessu sambandi.
    Sjúkdómaeftirlit þarf að efla mjög. Í þeirri sprengingu sem er að verða í þessari grein er ljóst að rannsóknadeild fisksjúkdóma á Keldum ræður ekki við að sinna þessu verkefni nema betur sé að henni hlúð.
    Heildarlöggjöf vantar á sviði fiskeldis. Herra forseti, hér væri unnt að fara miklu fleiri orðum um, en ég geri það ekki tímans vegna en bendi enn á að mikil nauðsyn er að fiskeldi séu búin svipuð starfsskilyrði og aðrar þjóðir hafa búið þessari grein. Ef menn vilja horfa til framtíðar og gera það mun það launa sig vegna þess að hér liggja möguleikar til aukinnar framleiðslu og aukinna þjóðartekna.